Sjöfn Jónsdóttir fæddist á Eskifirði 10. júlí 1925. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 19. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Jón Guðnason bóndi og söðlasmiður, f. 6.6. 1890, d. 6.6. 1939, og Maren Jónsdóttir húsfreyja og verkakona, f. 7.5. 1901, d. 11.12. 1996.
Sjöfn giftist 24.12. 1944 Eiríki Jónssyni, f. 3.8. 1923, d. 29.7. 2004. Foreldrar hans voru Jón Eiríksson múrarameistari, f. 1885, d. 1970, og Kristín Jónsdóttir, húsmóðir, f. 1879, d. 1969. Sjöfn var fjórða elst af níu systkinum sem öll eru látin. Hin eru Hilmar Eyjólfur, f. 1920, d. 2006, Jón, f. 1922, d. 2009, Gunnar, f. 1924, d. 1978, Inga Þórunn, f. 1928, d. 2008, Geir Marinó, f. 1930, d. 1990, Vöggur, f. 1932, d. 2016, Gestur, f. 1933, d. 1977, og Óli Kristinn, f. 1935, d. 2018.
Börn Sjafnar og Eiríks eru 6: a) Jón, f. 1946, kvæntist Ragnhildi K. Sandholt, d. 2008. Sambýliskona Jóns er Guðný Bjarnadóttir. Börn Jóns og Ragnhildar eru: aa) Eiríkur, maki Ásthildur Björnsdóttir, börn þeirra: Ríkharður Aron og Rebekka Rut, ab) Íris, maki Einar Sigurðsson, börn þeirra: Elmar og Rakel, og ac) Atli Már, maki Lilja Dagbjartsdóttir, börn þeirra: Jón Bjartur og Bjartmar. b) Yngvi, f. 1948, maki Herdís Guðmundsdóttir, d. 2024. Börn þeirra : ba) Arnór, bb) Grettir, bc) Sjöfn, börn hennar: Eva Sóllilja, Herdís Eik og Þórarinn Sjafnar, og bd) Eiríkur, börn hans: Hermann Yngvi og Nora. c) Auður, f. 1950, gift Ómari Runólfssyni, börn þeirra: ca) Una Björk, maki Þröstur Freyr Gylfason, börn þeirra: Þorri, Fróði og Skírnir. cb) Ásdís, sambýlismaður Sverrir Eiríksson, börn hennar: Ólöf Svala og Sunna Kristín. cc) Hlynur, maki Erna Sif Arnardóttir, börn þeirra: Ómar Örn og Dagur Jan. cd) Lilja, maki Svanur Þór Brandsson, börn þeirra: Lóa Sjöfn, Smári Þór og Tumi Þór, og ce) Kristín, maki Árni Theodór Long, börn þeirra: Alexander Árni, Tinna og Patrekur Máni. d) Garðar, f. 1952, maki Anna Vilhjálmsdóttur, börn þeirra: da) Þorsteinn Ingi, maki Hrafnhildur Sif Hrafnsdóttir, börn þeirra: Ingvar Hrafn, Elfar Ingi og Elma Finnlaug. db) Sveinn Óli, maki Kristrún Björg Loftsdóttir, börn þeirra: Sigrún Anna og Garðar Þór, og dc) Stefanía Ósk, sambýlismaður Daníel Muthmann. e) Kristinn, f. 1956, maki Birna Ragnarsdóttir, börn þeirra: ea) Aðalheiður, maki Starkaður Örn Arnarson, börn þeirra: Valur Kristinn, Árný Svanhildur og Styrmir Örn, og eb) Haukur, maki Anna Marin Skúladóttir, börn þeirra: Emil Hrafn og Maren Birna. f) Sjöfn, f. 1960, fv. maki Thor Smitt-Amundsen.

Sjöfn Jónsdóttir var fædd og uppalin á Eskifirði til 17 ára aldurs. Hún missti föður sinn ung og þurfti að annast heimilisstörf og umönnun systkina sinna frá unga aldri á stóru og barnmörgu heimili. Í Reykjavík kynntist hún mannsefni sínu Eiríki. Hún var alla tíð heimavinnandi húsmóðir og rak heimili sitt af natni og reglusemi.
Útför Sjafnar verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 2. júlí 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Kvenréttindadagurinn 19. júní. Léttur andvari berst inn um glugga á Eir, þegar Sjöfn Jónsdóttir kveður þennan heim. Einstök heiðurskona hefur horfið á braut.
Sjöfn fæddist á Eskifirði og ólst þar upp til 17 ára aldurs. Æska hennar markaðist af anda og umhverfi þess tíma. Hún var 13 ára þegar faðir hennar féll frá og lét eftir sig níu börn. Maren móðir hennar hélt saman heimilinu í harðri baráttu fyrir tilverunni. Maren tók virkan þátt í öflugri verkalýðsbaráttu austfirskra kvenna, sem hafði örugglega áhrif á ungu stúlkuna. Tekjur heimilisins komu frá stopulli vinnu móður í hraðfrystihúsinu og annarri tilfallandi vinnu og svo bættust við tekjur elstu bræðranna þegar þeir byrjuðu að vinna. Það kom því í hlut Sjafnar að hjálpa til við heimilisstörf og uppeldi yngri systkina.
Fljótt eftir komu til Reykjavíkur kynntist hún mannsefni sínu Eiríki, sem var atorkumaður með framtíðarsýn. Hann lærði múraraiðn og fetaði þar í fótspor föður síns sem var virtur múrarameistari. Árið 1945 byggðu þau hús að Langholtsvegi 40 í Reykjavík og er fjölskyldan gjarnan kennd við þann stað enn í dag. Húsið var ekki stórt í fermetrum talið en heimilið stórt og gestkvæmt. Oft bjuggu systkini Sjafnar þar um lengri og skemmri tíma auk annarra sem þurftu húsaskjól. Alltaf var pláss fyrir alla og allir velkomnir.
Sjöfn eignaðist snemma handstigna saumavél sem síðar var uppfærð með rafmótor. Hún keypti erlend saumablöð til að fylgjast með tískunni og saumaði eða prjónaði allar flíkur á sjálfa sig og börnin. Við vorum því ávallt vel klædd í nýjustu tísku, þó aldrei fengjum við búðarföt. Síðar sneri hún sér að útsaumi, hekli og prjónavinnu og naut þess að prjóna sokka eða vettlinga á afkomendur. Hún var vakin og sofin yfir velferð okkar, eldaði hafragraut á morgnana, gaf okkur lýsi og smurði nesti í skólann. Hún fylgdi eftir heimalærdómi okkar og hvatti okkur til náms. Þegar barnabörnin komu til sögunnar var slakað á og Coco puffs kom í stað hafragrautar.
Sjöfn var glaðlynd, glettin og góð móðir, oft með svartan húmor, sérstaklega á seinni árum. Hún var barngóð, hjálpsöm og umhyggjusöm um sitt fólk, en eltist lítt við veraldleg gæði. Barnabörn sóttust eftir því að fá að gista hjá ömmu og afa, hvort sem var heima eða í sumarbústaðnum í Öndverðarnesi. Þau eiga öll verðmætar minningar frá þeim tíma. Veiðiferðir, útivera og ferðalög innanlands sem utan voru henni mikið ánægjuefni þegar tími gafst. Hún þáði alltaf boð um samveru með fjölskyldunni, jafnt í sumarbústað, vestur í Kaldalóni, í Noregi, eða bara í kvöldmat og afmæli. Seinni árin bjuggu Eiríkur og Sjöfn í Grafarvogi og tóku virkan þátt í starfi Korpúlfa félags eldri borgara þar. Árið 2013 flutti Sjöfn í þjónustuíbúð að Fróðengi 1 og bjó þar ein þar til fyrir hálfu öðru ári að hún fluttist á hjúkrunarheimilið Eir.
Gengin er merkiskona, fulltrúi hinna gömlu gilda þar sem heiðarleiki og vandað verk voru aðalsmerki. Það hafa verið forréttindi okkar að hafa átt Sjöfn Jónsdóttur að sem móður og tengdamóður.
Fyrir hönd barna og tengdabarna,

Jón Eiríksson.

Nú er látin tengdamóðir mín Sjöfn Jónsdóttir, eða Dída eins og hún hefur ætíð verið kölluð. Með henni er gengin góð og traust kona, sem átt hefur langa og góða ævi. Ég vil þakka henni samfylgdina í gegnum árin og fyrir allt það sem hún gerði fyrir mig og mína fjölskyldu.

Ég var 18 ára gömul Skagastelpa þegar ég fór að venja komur mínar á Langholtsveginn til að hitta hann Kristin. 1975 hófum við búskap á neðri hæðinni á Langholtsveginum, þar sem við bjuggum þar til dóttir okkar hún Aðalheiður fæddist.

Mér fannst Dída ótrúlega virk og flott kona, hún fór í leikfimi tvisvar til þrisvar í viku og sund á hverjum degi. Hún var til í að skella sér á skíði og vera í alls konar brasi. Hún keypti og las dönsku blöðin og gerði alls konar handavinnu alla daga. Hún saumaði út, heklaði, prjónaði, bjó til rúmteppi, saumaði á saumavél og undir lokin framleiddi hún þvottaklúta handa okkur öllum.

Við í fjölskyldunni eigum öll einhver verk eftir hana sem við höfum notað og þótt vænt um og bara svo eitthvað sé nefnt þá heklaði hún milliverk og útbjó rúmföt handa okkur öllum og ekki má gleyma púðunum hennar sem prýða heimili stórfjölskyldunnar.

Dída var mjög barngóð og öll börn voru velkomin til hennar. Maren móðir Dídu bjó hjá þeim Eiríki í mörg ár. Aðalheiður dóttir okkar Kristins var hálfan daginn í leikskólanum Brákarborg og hálfan daginn í pössun hjá ömmu Dídu og ömmu Maren, allt þar til hún fór í grunnskóla. Aðalheiður átti góðar stundir með þeim, stússaðist með þær í allskonar leikjum og fór í sund með ömmu Dídu, sem kenndi henni að synda. Haukur var líka alltaf velkominn til ömmu Dídu og ömmu Marenar og hann fékk að stússast í alls konar verkefnum, líkt og systir hans. Það var ekkert ómögulegt hjá ömmu Dídu, aldrei vesen.

Dídu fannst gott að koma í mat til barnanna sinna og mæta snemma, helst í kringum hádegið, ef um kvöldmat var að ræða. Hjá okkur Kristni sat hún í stólnum sínum í sólstofunni, með handavinnuna, las Moggann, spjallaði og rakti ættir. Hún hafði yndi af því að lesa og átti ýmsar ættarskrár og stundum fannst mér hún vita meira um mína fjölskyldu en ég sjálf. Hún elskaði hefðirnar í matarstússinu og vildi helst að allir í fjölskyldunni væru saman, þegar hún kom í mat. Henni fannst saltkjöt og baunir mjög gott, skatan á Þorláksmessu æði og að vera með okkur á gamlársdegi og -kvöldi frábært. Uppáhaldssjónvarpsþátturinn minn á gamlársdegi er Kryddsíldin. Dída var ekki mjög hrifin af þeim þætti og sagði oft: „Hvað þykist þessi vera og vita, eða er þetta eitthvert leikrit, hvaða leikarar eru þetta, eiginlega?” Henni fannst danska sjónvarpið miklu betra en það íslenska. En ég á eftir að sakna þess að hafa hana ekki hjá mér á þessum dögum.

Í mínum huga var Dída tengdamamma listakona, ótrúlega fróð í ættfræði og einstaklega barngóð. Hún elskaði fjölskylduna sína. Í hennar augum voru allir í fjölskyldunni flottasta og besta fólkið og þau voru öll alltaf velkomin til hennar.

Takk fyrir allt, elsku Dída.

Þín tengdadóttir,

Birna Ragnarsdóttir.

Elsku amma mín, Sjöfn Jónsdóttir eða Dída eins og hún var alltaf kölluð, hefur kvatt okkur eftir langa og innihaldsríka ævi. Ég minnist hennar og afa, Eiríks Jónssonar, með söknuði enda áttu þau alltaf tíma fyrir okkur barnabörnin og síðar barnabarnabörnin þrátt fyrir annir í leik og starfi.

Afi og amma voru samrýnd hjón sem ólu upp sex börn og áttu ótal barnabörn og barnabarnabörn. Heimilið var því stórt og oft mikið um að vera. Það var ekki laust við að dekrað væri við okkur barnabörnin þegar við komum í heimsókn, amma bakaði oft lummur og flatkökur og alltaf var til kókópuffs eða annað spennandi sem var sjaldséð á þeim tíma.
Amma var kraftmikil og lífsglöð allt fram til síðustu daga sem lýsti sér til dæmis í því að hún tók þátt í hula danskeppni í útlöndum, stundaði keilu, púttgolf, leikfimi og ýmiss konar félagsstarf fram yfir nírætt. Eldri sonur minn rakst t.d. einu sinni á hana í Egilshöllinni þegar hann fór með vinum sínum í keilu. Þegar amma var á Eirborgum, þá eflaust í kringum nírætt, ræddum við fjölskyldan við hana um íþróttir og áhuga yngri kynslóðarinnar á ýmsum kappleikjum. Hún var ekki í vafa um að sjálf hefði hún tekið þátt í slíku á yngri árum ef hún hefði haft tækifæri til, enda með mikið keppnisskap, en afi hafði frekar gaman af að horfa á einn og einn leik í sjónvarpinu án þess að kippa sér mikið upp við úrslitin.
Amma átti líka sportbíl, Dodge Shadow, á tímabili sem vakti verulega athygli í mínum vinahópi svo ekki sé meira sagt! Hún átti það svo til að fara stundum yfir á rauðu ljósi á fáförnum gatnamótum en kallaði það alltaf „í mesta lagi svona appelsínurautt”.
Þegar ég var í námi á Bifröst gisti ég ósjaldan hjá þeim í Rauðhömrum í Grafarvogi og átti með þeim góðar stundir.
Amma og afi fóru á tímabili oft til Glasgow og keyptu veglegar jólagjafir, leikföng og fleira sem situr eftirminnilega í minningunni. Þau létu sig ekki muna um að bera aukatösku út af þessu fyrir öll barnabörnin sem eru 17 talsins.
Bústaðurinn í Grímsnesinu kemur líka oft upp í huga mér þegar ég hugsa til þeirra. Umhverfið þar var einkar skemmtilegt og margar góðar stundir sem ég átti þar með þeim.
Efst í huga er þó ástin og alúðin sem Dída og Eiríkur auðsýndu mér og fjölskyldu minni alla tíð og glaðværðin sem einkenndi okkar samverustundir (nema þegar amma fékk óvart eitthvað súrt á diskinn, þá varð hún eins og barn sem grettir sig).
Ég kveð með söknuði ömmu mína og afa en einnig með þakklæti fyrir góðar stundir og fallegar minningar sem lifa. Hvíl í friði.

Ykkar Steini,

Þorsteinn Ingi Garðarsson.

Í dag minnumst við og þökkum elsku ömmu Dídu fyrir samfylgdina, samveruna og allar góðu stundirnar sem við höfum átt í gegnum tíðina.
Við systkinin minnumst ástríkrar og umhyggjusamrar ömmu. Amma fylgdist vel með öllu sínu ríkidæmi, hún átti gríðarstóran hóp afkomenda sem hún fylgdist mjög náið með og fannst ekkert betra en að fá barnabarnabörnin í heimsókn og spjall. „Viltu ekki fá þér smá kókópöffs,” var sígild setning á heimili hennar og afa í gegnum tíðina.
Amma var með fróðari manneskjum, hafði mikinn áhuga á ættfræði og vissi sko alveg hvernig Jón og Gunna úti í bæ væru skyld okkur. Hún var mikið fyrir kveðskap og ljóðalestur og vildi gjarnan miðla þeim kvæðum sem hún kunni til afkomenda sinna.
Ferðirnar í sumarbústaðinn í Öndverðarnesi voru dásamlegar, þar dreif amma mannskapinn jafnan með sér í sundlaugina og áttum við góða tíma þar. Amma var í essinu sínu þegar hún var á ferð og flugi, þegar hún var í utanlandsferðum eða bílferðum um landið – sama hvert förinni var heitið. Á veturna var amma óþreytandi að fara með barnabörnin sín í skíðabrekkurnar í Skálafelli og Bláfjöllum og oft var Tópaspakka laumað í vasann. Amma var mikill töffari og flottust rúntandi um á svarta Dodge Shadow-tryllitækinu sínu og barnabörnin á ferð og flugi aftur í þegar farið var of geyst yfir hraðahindranirnar.

Amma var alltaf með prjóna, heklunálar eða saumnálar í höndunum og liggja eftir hana óteljandi mörg handverk hjá afkomendum, hvort sem það er í peysum, vettlingum, sokkum, útsaumuðum púðum, dúkum, hekluðum dúlluteppum, rúmteppum og svo mætti lengi telja. Þegar afkomendurnir fengu áhuga á hannyrðum þá gátu þau ávallt leitað til ömmu til að fá leiðbeiningar og læra handbrögðin.

Góðar minningar um jólaboðin með heitu súkkulaði með rjóma, möndlugraut og hangiketsflatbrauði (heimabökuðu) eða kaffiboðin 17. júní ylja manni um hjartaræturnar á þessum tíma. Mikið endalaust var gaman að spjalla við ömmu og heyra og segja brandara og hlæja dátt að vitleysunni.

Þvílík gæfa að hafa fengið að eiga hana fyrir ömmu. Hennar verður sárt saknað.

Una Björk, Ásdís, Hlynur, Lilja, Kristín og fjölskyldur.

Amma mín, Sjöfn Jónsdóttir, verður borin til hinstu hvíldar í dag, þriðjudaginn 2. júlí. Ég er þakklát hversu stór hluti hún var af mínu lífi og fyrir að vera ein af mínum bestu vinkonum.
Ég var mikið hjá ömmu og afa og langömmu minni, ömmu Maren, á Langholtsveginum. Mér leið alltaf vel í návist ömmu og þó ýmsar reglur væru settar, eins og ekki snert neitt í búðum og ganga frá öllu á sinn stað, fékk ég þó mikið athafnarfrelsi sem hentaði mér vel. Sköpuninni fylgdi oft umstang og oft tilfæringar á innanhússmunum. Á tímabili breyttist stofan í fimleikasal þar sem sófinn var notaður sem fimleikadýna. Þess á milli var sett upp kaffihús í stofunni og listasýningar í eldhúsinu.
Uppáhaldsstaðurinn minn á Langholtsveginum var í listahorninu í þvottahúsinu. Amma passaði alltaf upp á að til væri nægur pappír til að koma sköpunarverkunum á blað. Þar voru einnig föt sem höfðu verið keypt til styrktar félagasamtökum. Í mínum huga voru þau gull og oftar en ekki var ég dressuð upp í þeim við hælaskó af ömmu minni. En amma var jú skósjúk.
Amma var mjög skipulögð og snyrtileg í eldhúsinu án þess að teljast ástríðukokkur. Standardinn var að eiga nóg af Coca Puffs og Cheerios sem mátti borðast í staðinn fyrir staðlaðar máltíðir. Mikið magn var snætt og ávallt voru dönsk Andrés Önd-blöð lesin samhliða.
Fylgdist ég oft með ömmu gera hádegismat fyrir afa í eldhúsinu. Oftar en ekki var það steiktur fiskur og hún kenndi mér hvernig ætti að ganga til verks og að ganga frá eftir sig samhliða. Svo var fiskurinn snæddur. Amma gengur frá og segir mér að best sé að elda mikið í hádeginu til að spara tíma á kvöldin og á sama tíma setur hún lokið á pönnuna og stingur henni inn í pottaskápinn sem hún svo kippti út úr skápnum þegar komið var að kvöldmat. Eftir hádegismatinn fórum við amma alltaf í sund til að taka sundsprett og mæta í heita pottinn til að ræða málin við hinar kellingarnar.
Amma var félagslynd, glaðlynd og áhugasöm um aðra. Við barnabörnin vorum aldrei fyrir henni og hún hafði alltaf pláss fyrir okkur. Hún var alltaf tilbúin að hlusta. Hún bar virðingu fyrir okkur og sýndi mikinn kærleik.
Eftir því sem við urðum eldri þá þróaðist samband okkar og dýpkaði. Það breyttist úr því að vera samband á milli barns og fullorðins í það að verða vinkonusamband. Ég er þakklát fyrir það samband sem við áttum og nutum félagsskapar hvor annarrar. Henni þótti notalegt að koma til okkar og vera hluti af okkar daglega lífi.
Þegar horft er yfir farinn veg sér maður hversu frábæru og innihaldsríku lífi hún lifði. Hún átti stóra og flotta fjölskyldu sem hún elskaði. Stundaði áhugamál sitt, að prjóna. Hún hafði tækifæri til að ferðast mikið til útlanda og naut þess að hreyfa sig með því að stunda leikfimi, sund, skíði, skauta og golf, eftir því hvar áhuginn var hverju sinni. Amma lifði í núinu.
Það var sönn ánægja að hafa þig í lífinu mínu og kveð ég þig með stolti. Hvíl í friði amma mín og þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér og fjölskyldu minni.

Aðalheiður Kristinsdóttir.

Sjöfn sem ævinlega var kölluð Dída innan fjölskyldunnar og Eiríkur tóku fagnandi á móti mér í stórfjölskyldu sína. Dídu þótti sérlega vænt um samband mitt og Þorsteins því Benedikt afi hafði skrifað minningargrein um Helgu ömmu hennar og þar lýsir afi tengslum fjölskyldnanna okkar, fólkinu hennar sem gjörvileikafólki sem var stórvel metið og t.d. kosið í hreppsnefndir þar sem þeirra fundum bar saman. Ræturnar voru á Austurlandi sem var þeirra sameiginlegi fjársjóður.

Sjöfn var þekkt fyrir að prjóna og hekla endalaust fyrir börn, barnabörn og barnabarnabörn. Undir eins og ég kom í fjölskylduna var prjónuð á mig peysa með norsku mynstri. Ég valdi sama mynstur og tengdamamma í peysu sem var svört og hvít að lit. Eiríkur var nýlega hættur að vinna og við litum inn í Rauðhömrunum þegar hann hélt hespunni á milli tveggja handa á meðan Dída vatt garnið upp á hnykil. Það var einstaklega falleg sjón að sjá þau hjón vinna samhent en Eiríkur var ákaflega stoltur af verkum sinnar konu og hvatti hana endalaust til dáða, enda eru afrek hennar óteljandi. Stuttu seinna mættum við aftur í heimsókn og þá tók Eiríkur á móti mér með brosi og glampa í augum og sagði: „Sjáðu, eins og stjörnubjartur himinn” og peysan var komin upp að höndum, svartur grunnur með hvítum stjörnum.
Næst fengum við prjónað teppi úr fínu garni á hjónarúmið okkar, við fengum borð og dúk sem þau voru hætt að nota og þegar börnin fæddust var prjónaður heilgalli, peysur og húfur, vettlingar, hekluð teppi og svo fengum við stafla af sokkum og vettlingum á börnin í hverri og einni heimsókn.
Í gegnum Eirík og auðvitað hans börn fengum við aðgang að þekkingu á múrverki sem var og er svo dýrmæt í íslensku samhengi. Þau hjón komu oft í heimsókn og þegar Eiríks naut við var ekki stoppað of lengi við því hann var vanur að nýta tímann vel enda stjórnaði hann oft stórum húsbyggingarframkvæmdum og þá var ekki slórað. Jæja, erum við ekki farin að tefja fólkið var gjarnan viðkvæðið og svo sáum við undir skósólana á honum.
Það er yndislegt að það er bara tíu ára munur á milli foreldra minna og þeirra Sjafnar og Eiríks og mikill vinskapur þar á milli. Þau höfðu lifað tímana tvenna í hersetnu landi á umbrotatímum, þekktu landið vel til sjávar og sveita og borgina, ásamt sameiginlegum áhuga formæðranna á stórtækri framleiðslu á plöggum fyrir stórfjölskylduna.

Dída deildi því einu sinni með mér að þegar hún kom í Eskifjörð eftir langa fjarveru þá fór hún beint að sjónum, úr sokkunum og óð beint út í sjóinn til að komast undir eins í beina snertingu við náttúruna og fjörðinn sinn.
Mér þykir sérlega vænt um minningu Dídu af Benedikt afa þegar hún var barn á Eskifirði. Myndin sem hún dró upp var sterk og fögur. Afi kom ríðandi niður í Eskifjörð með stóra kindahópinn sinn. Sjöfn er barn að árum þegar henni verður litið út um gluggann upp eftir götunni og þar sér hún þessa ævintýralegu sjón og þann glæsilegasta mann sem hún hafði séð á sinni ævi.
Ég kveð þau kæru heiðurshjón með hjartans þökkum fyrir einstök viðkynni.

Hrafnhildur Sif Hrafnsdóttir.