Gísli Ölver Sigurðsson fæddist Reykjavík 2. nóvember 1969. Hann lést á Líknardeild Landspítalans 23. júní 2024.

Foreldrar hans voru Sigurður Haukur Gíslason, f. 29. október 1946, frá Vindási í Hvolhreppi, og Sigurleif Erlen Andrésdóttir, f. 10. janúar 1945, frá Vatnsdal í Fljótshlíð. Systur hans eru Bjarnfríður Ósk, f. 25. september 1965, og Rósalind, f. 6. Júlí 1973.
Eftirlifandi eiginkona Gísla er Þórhalla Ágústsdóttir, f. 28. mars 1966, en þau kvæntust 27. mars 1999. Saman áttu þau fimm börn. Þau eru: a) Kamilla, f. 4. apríl 1987, börnin hennar eru Alexander Páll, f. 1. ágúst 2012, og Saga Björt, f. 30. júlí 2023. b) Saga Sif, f. 14. febrúar 1995, dóttir hennar og eiginmanns hennar Breka Dagssonar er Elía Nótt, f. 2. nóvember 2022. c) Sigurleif Erlen, f. 17. ágúst 1996. d) Sigurður Árni, f. 23. september 1999, sambýliskona hans er Berglind Adolfsdóttir. e) Svanhildur, f. 10. janúar 2008.
Gísli ólst upp fyrstu fimm árin á Arnarhrauni 18 í Hafnarfirði en svo flutti fjölskyldan á Heiðvang 62 árið 1974. Hann dvaldist mörg sumur hjá ömmu sinni og afa í Vatnsdal í Fljótshlíð.
Gísli gekk í Víðistaðaskóla öll grunnskólaárin og stundaði einnig nám í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Snemma byrjaði áhugi hans á handbolta og æfði hann og spilaði með yngri flokkum Hauka í meistaraflokki um árabil.
Hann lauk námi í húsasmíði hjá Álftarósi ehf. og lauk síðan meistaranámi í húsasmíði 2005. Starfaði við húsasmíðar og sem byggingarstjóri, lengst af hjá Þingvangi ehf. Gísli sat um árabil í stjórn Meistarafélags Hafnarfjarðar.
Gísli og Þórhalla bjuggu öll sín hjúskaparár í Hafnarfirði, fyrst í Fögruhlíð 5 en lengst af í Dofrabergi 17. Helstu áhugamál hans voru veiði, hestar og ferðalög innanlands og utan.
Útför Gísla fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 2. júlí 2024, og hefst klukkan 13.


Það er erfitt og sárt að sleppa takinu, en nú er komið að kveðjustund, elsku bróðir. Ég var 4ja ára þegar þú fæddist og fjórum árum síðar bættist lítil systir í hópinn. Við áttum yndislega æsku í Hafnarfirði, ólumst upp á Arnarhrauni 18 með hóp af krökkum í kringum okkur. Árið 1974 fluttum við í Norðurbæinn á Heiðvang 62, nýbyggt einbýlishús sem pabbi og mamma byggðu. Foreldrar okkar búa þar enn þann dag í dag. Þar eltir þú mig um allar trissur með stóran hóp af krökkum úr hverfinu, lékum okkur í hrauninu, fórum í berjamó, stálumst í nýbyggingar og það þótt við mættum það alls ekki.

Okkur systkinunum var strax í æsku kennt að fara vel með, vinnusemi og stundvísi sem hefur nýst okkur vel út í lífið. Við vorum heppin að eiga ömmu og afa í sveitinni, Vatnsdal í Fljótshlíð, og þar áttum við aldeilis stóran hóp af frændum, frænkum og systkinabörnum. Í minningunni finnst mér við hafa farið um hverja helgi í heyskap, mjaltir og í réttir og ekki má gleyma öllum bílferðunum til ömmu og afa í Blönduhlíð í Reykjavík. Nokkur sumur fórstu í sveitina til að aðstoða ömmu og afa og þú komst til baka nokkrum númerum stærri.

Það er svo margt sem ég gæti talið upp, allar ferðirnar okkar innanlands og utan, samverustundir í Sillubæ og okkar allra bestu ferðir á Borgarfjörð eystra þar sem börnin okkar, barnabörnin og vinir hafa fylgt okkur austur. Það er staðurinn okkar, þar var dansað, sungið, grillað og farið í leiki, á tónleika og spjallað yfir kaffibolla eða góðri blöndu. Þetta eru minningar sem verða svo dýrmætar okkur öllum.

Nú eiga svo margir um sárt að binda, elsku Halla sem hefur staðið eins og klettur við hlið þér, börnin þín fimm og barnabörn og foreldrar okkar sem sjá á eftir einkasyni sínum, tengdaforeldrar og tengdafjölskylda, við systur, makar og börnin okkar, þú hefur verið einstakur bróðir, ég mun sakna allra símtalanna, þú komst svo oft við á rúntinum í einn kaffibolla.

Síðustu dagar Gísla voru honum og nánustu aðstandendum erfiðir en fallegir og fjaraði von um bata smátt og smátt út. Ég vil þakka þér fyrir allt og ég mun sakna þín.

Blessuð sé minning elsku hjartahlýja Gísla bróður.

Kveðja ,

Bjarnfríður Ósk (Bassý).

Elsku stóri bróðir minn og mágur Gísli Ölver er fallinn frá, allt of ungur og það nístir í hjartað.

Gísli var einstakt ljúfmenni sem hændi að sér fólk með sinni hlýju og skemmtilegu nærveru, hann var ráðagóður laghentur með eindæmum, greiðvikinn, alltaf til í að rétta fram hjálparhönd. Gísli og Baddi sátu ósjaldan yfir kaffibolla og spáðu í hvernig væri best að vinna hin ýmsu verkefni sem frammundan voru og svo hjálpuðust þeir svo að við framkvæmdina og kom sér þá vel að annar var smiður en hinn rafvirki.

Í Setberginu ólum við systkinin öll okkar börn og á þremur árum fæddist okkur fjögur börn sem öll fóru í sama leikskóla og grunnskóla. Fyrir utan uppeldið hjá foreldrum okkar um að vera kærleiksrík systkini þá lagði þetta grunnin að þessu góða sambandi sem við höfum átt í gegnum tíðina. Ég og Bassý systir eignuðumst tvö börn hvor en Gísli fimm börn og þó að Gísli og Halla ættu svo mörg börn þá var alltaf pláss fyrir auka börn í útilegum, hestaferðum og öllu því sporti sem þau iðkuðu en þau voru dugleg að ferðast um landið með vagn í eftirdragi og fullan bíl af börnum. Tanja dóttir okkar naut góðs af því að Saga og Erlen dætur Gísla og Höllu voru þá og eru enn hennar bestu vinkonur og fékk hún að fylgja þeim í hinar ýmsu ferðir.

Svo skemmtilega vildi til að ég og Gísli náðum okkur bæði í maka sem ættaðir eru frá Borgarfirði eystra og frá aldamótum hefur það verið árviss viðburður hjá systkinum mínum og nokkrum góðum vinum að mæta á Boggann í sumarfríinu og tjalda í garðinum hjá hjá Böggu og Bjössa og seinna hjá okkur í Úraníu, fyrst var það Álfaborgarsjéns en svo Bræðslan og hefur verið hálfgerð skyldumæting á hana nema það væri eitthvað annað mikilvægt í gangi eins og að fæða börn. Þarna höfum við leikið, dansað sungið og skemmt okkur vel með börnum, barnabörnum og kærum vinum okkar og barnanna, þessi hefð hefur styrkt böndin okkar enn frekar. Við erum ekki bara systkini við erum nánir vinir og ein fjölskylda sem njótum þess að vera saman. Auk Bræðslunnar höfum við farið í hin ýmsu ferðalög innanlands og utan og eigum við margar dýrmætar minningar sem ylja okkur nú.

Gísli og Baddi smullu saman nánast um leið og ég kynnti hann inn í fjölskylduna og voru þeir fram á síðasta dag bestu vinir. Þeir voru félagar í framkvæmdum, í skot-og stangveiði og svo mörgu öðru. Undir það síðasta varð vinátta þeirra enn fallegri og er það ekki bara ég sem er að missa elskaðan bróðir og vin heldur er Baddi að missa sinn besta vin.

Góður Guð umvefðu elsku Höllu, öll fallegu börnin þeirra, foreldra okkar og alla ástvini í þessari miklu sorg.

Elsku hjartahlýi og hláturmildi bróðir minn og vinur, lífið verður ekki eins án þín, við fjölskyldan munum sakna þín sárt og verður minning þín ljós í lífi okkar allra. Þú barðist hetjulega gegn þessum illvíga sjúkdómi með jákvæðni, lífsvilja og von að leiðarljósi.

Takk elsku bróðir fyrir allt sem þú varst, fljúgðu inn í ljósið laus við þjáningu og ótta, þar sem okkar allra bestu taka á móti þér.

Þín

Rósalind og Bjarnþór.

Tilvera okkar er undarlegt ferðarlag. Þegar við kveðjum Gísla þá dettur mér svo sannarlega þetta ljóð í hug og hvað lífið getur verið hverfult og skrítið. Gísli kom inn í fjölskylduna 1992. Hestarnir voru stór hluti lífs hans og Höllu á þessum tíma. Hestamennskan var fjölskyldusportið og flutti hann sig fljótlega yfir í hesthús tengdó því mörgum stundum eyddi fjölskyldan í kringum hestana. Gústi að hirða húsið á meðan við hin fórum í helgartúrinn. Margar hestaminningar munu ylja okkur um hjartað þegar við minnumst Gísla.

Gísli var menntaður húsasmíðameistari og fagmaður fram í fingurgóma. Hann var byggingarstjóri og starfaði hjá Þingvangi. Hann var vel liðinn í vinnu og hörkuduglegur. Hann var áræðinn og ákveðinn og vissi nákvæmlega hvað hann vildi og hvernig hann vildi gera hluti. Mörgum stundum eyddum við í að ræða framkvæmdir og fá ráð þó að stundum hafi fagmanninum Gísla þótt skítamixið og sirkabátið hafa verið aðeins of mikið hjá okkur hjónum.

Gísli var mikill fjölskyldumaður og bjuggu þau hjónin sér fallegt heimili. Þau áttu fimm börn, Kamillu, Sögu, Erlen, Sigga og Svanhildi. Halla átti Kamillu í fyrra hjónabandi en Gísli leit alla tíð á hana sem dóttur sína. Þó vinna hafi verið mikil eins og nauðsyn er þegar sjá þarf fyrir stóru heimili þá ferðuðust þau hjónin um Ísland með börnum og nú síðustu ár með barnabörnin með. Einn stærsti hluti sumarsins hjá þeim hjónum hefur verið að mæta á Bræðsluna til Rósulindar og Badda, fyrst með börnin lítil og svo með maka þeirra og barnabörn. Sannkölluð fjölskylduhátíð hans og Höllu, systra hans og maka þeirra, barna og barnabarna. Við vorum þess láns aðnjótandi að vera með þeim og upplifa gleðina í fjölskyldu hans. Honum var mikið í mun að styðja börn sín til að verða sjálfstæðir og flottir einstaklingar sem gætu byggt upp gott og ánægjuríkt líf.

Við tengdafjölskyldan höfum verið náin og fram til síðustu ára þá hittumst við vikulega í morgunkaffi hjá tengdó. Margar útilegur í gegnum árin og ennþá hlegið að ýmsum vitleysum sem tekið hefur verið upp á. Það var mikil blessun þegar Gústi og Svanhildur fluttu í kjallarann hjá Höllu og Gísla. Þó morgunkaffið hafi ekki verið jafn reglulegt þá héldu tengslin áfram að vera til staðar. Gústi og Gísli urðu bestu mátar og hafa tengsl Svanhildar og Höllu alltaf verið náin. Árlegur viðburður systkina Höllu, maka og foreldra var að fara á Jómfrúna í smørrebrød og eiga góða stund saman. Einnig eru utanlandsferðir okkar til Danmerkur og innanlandsferðir til Hveragerðis og í þá yndislegu vin sem bústaður þeirra hjóna er ógleymanlegar.

Elsku Halla. Missir þinn er mikill og hefur styrkur þinn verið gríðarlegur í gegnum þessa baráttu. Elsku Svanhildur, Kamilla, Saga, Erlen og Siggi, megi Guð vera ykkur styrkur í þeirri miklu sorg og missi sem þið eruð að takast á við. Silla, Siggi, Gústi, Svanhildur, Rósalind og Bassý, við vottum okkar dýpstu samúð og megi minning um góðan dreng lifa.

Ágústa, Alexander, Friðbjörg Halla, Hákon, Svanhildur Júlía og Örn Snævar.

Elsku Gísli frændi, það er svo sárt að hugsa til þess að stundirnar og minningarnar með þér verði ekki fleiri.

Allir sem fengu þann heiður að þekkja Gísla frænda vita hvaða stórkostlega mann hann hafði að geyma. Það eru svo margar dýrmætar minningar sem ég á með fjölskyldunni í Dofraberginu. Þó Gísli og Halla hafi átt fimm börn var alltaf pláss fyrir fleiri, þau tóku mig að sér í hestunum, buðu mér með í útilegur, hestaferðir og á Snæfellsjökul.

Ég eyddi miklum tíma í Dofraberginu í gegnum grunnskólagönguna þar sem við Saga og Erlen vorum saman í skóla og bestu vinkonur. Alltaf vorum við að fara heim til þeirra í frímínútum og eftir skóla, enda bara hinum megin við götuna. Þau komu örugglega oft að hálftómum ísskáp þar sem við vorum búin að borða upp matarinnkaup vikunnar.

Í seinni tíð voru okkar bestu stundir á Borgarfirði eystri í sveitinni okkar þar sem fjölskyldan lagði á sig langa keyrslu til að koma saman á Bræðslunni. Bræðslan hefur gefið okkur fjölskyldunni dýrmætar samverustundir sem við munum ylja okkur við. Það verður skrítið að fara á Bræðsluna án þín í sumar en ég veit að þú verður með okkur í anda.

Elsku Gísli frændi, takk fyrir allar dýrmætu minningarnar og samverustundirnar.

Þín frænka,

Tanja Rut Bjarnþórsdóttir.

Það er sárt að missa góðan vin á besta aldri, þegar seinni hluti lífsskeiðs tekur við með öllum sínum ævintýrum. Sjö ára skotta flytur á Heiðvanginn í Norðurbænum. Eignaðist frábæra nágranna, fjölskylduna sem bjó á móti okkur á Heiðvanginum. Silla og Siggi með krakkana Bassý, Gísla og Rósulind. Þarna hófst vinskapur Soffíu og Gísla sem átti eftir að vara lífið út með öllum sínum tilbrigðum. Gísli, trausti og blíði strákurinn sem var alltaf brosandi og verndaði litlu stelpuna. Þegar kom að unglingsárum stækkaði vinahópurinn og við bættust Aðalbjörg, Kristín Ýr og María. Gísli var einn af okkur, traustur, skemmtilegur og sannur vinur vina sinna. Við vinkonurnar vorum alltaf velkomnar heim til Gísla, mamma hans bauð okkur alltaf velkomnar og ófáar stundirnar áttum við á heimili hans. Það var alltaf hægt að fara heim til Gísla sama hvað, alltaf tók hann vel á móti manni og við upplifðum hann sem einn af okkur „stelpunum”, þolinmæðin fyrir okkur var algjör, hann nennti að hlusta á okkur og okkar stelpupælingar lon og don og tók bara þátt. Við munum eftir kvöldum þar sem allur vinahópurinn, 15 manns, var heilu kvöldin í herberginu hans Gísla (sem var ekki stórt). Það segir sig sjálft að þannig hópur bindist traustum ævarandi vinaböndum.

Gísli kynntist Höllu sinni og saman stunduðu þau hestamennsku um árabil. Margar voru ferðirnar upp í hesthús með þeim hjónum í gegnum árin, ógleymanlegar stundir og spjall á kaffistofunni í góðra vina hópi. Ýmist var kaffi fyrir reiðtúr eða önnur hressing í lokin. Gísli og Halla stofnuðu fjölskyldu og var gleðilegt að fylgjast með þeim í lífinu. Gísli var stoltur af konu sinni og afkomendum, foreldrum og systkinum. Hann var fyrst og fremst fjölskyldumaður. Undanfarin ár hafa samskiptin verið minni í vinahópnum enda bæst í hópinn börn og barnabörn en vináttan sem byggð var á traustum grunni hefur staðist tímans og lífsins tönn og er djúp.

Vorið 2022 veiktist Gísli og ekkert annað kom til greina en að sigra óvininn. En raunin varð önnur. Gísli barðist hetjulega með Höllu og samheldna fjölskyldu sér við hlið. Þakklátar erum við vinkonunnar að hann vildi hafa okkur með á þessu erfiða ferðalagi sem lá fyrir honum í lokin. Þrátt fyrir að tengslin væru minni á fullorðinsárum endurvakti hann þau með samskiptum sínum þegar hann veiktist. Upplifunin var sú sama og þegar við vorum unglingar, dýrmæt og djúpstæð vináttu var óbreytt. Það var erfitt en ógleymanlegt að fá að hitta Gísla í veikindum hans. Morgunstundir á spítalanum þar sem allt var rætt, hlegið yfir góðum minningum og grátið vegna alls sem ekki verður. Með miklu þakklæti þökkum við fyrir þann tíma sem við áttum með honum síðustu tvö árin.

Okkur eru efst í huga þakkir til Gísla fyrir hans traustu vináttu við okkur í gegnum súrt og sætt og að hafa leyft okkur að standa með sér þessa síðustu mánuði hér.

Elsku Halla og fjölskylda, við sendum ykkur okkar dýpstu samúðarkveðjur og megi guð styrkja ykkur á erfiðum tímum.

Aðalbjörg Óladóttir, Soffía Steingrímsdóttir, Kristín Ýr Hrafnkelsdóttir, María Sveinsdóttir.