Jóna Björg Guðmundsdóttir fæddist þann 26. október 1965 á sjúkrahúsi Vestmannaeyja. Foreldrar hennar voru Guðmundur Valdimarsson vélstjóri, f. 27. mars 1935 á Akranesi, d. 3. janúar 2023 í Vestmannaeyjum, og kona hans Margrét Ólafsdóttir, húsmóðir og fiskvinnslukona, fædd 29. júlí 1939 í Vestmannaeyjum, d. 1. janúar 2024 í Vestmannaeyjum.

Jóna var önnur í röðinni af fjórum systrum en elst er Þórhildur Guðmundsdóttir, f. 11. febrúar 1959, maki Jón Valtýsson f. 17. apríl 1948, synir þeirra eru: a) Ólafur Jónsson, f. 6. febrúar 1979, b) Guðmundur Jónsson, f. 10. nóvember 1985, eiginkona hans er Caitlin Emma Jónsson, f. 7. júlí 1987, þeirra synir eru Arthúr Tómas og Theodór Jón. Þriðja systirin er Sigríður Guðmundsdóttir, f. 8. ágúst 1967, maki Jens K.M. Jóhannesson, f. 26. janúar 1965, börn þeirra eru: a) Sigríður Ósk Jensdóttir, f. 21. mars 1986, eiginmaður hennar er Gísli Ármannsson, f. 16. febrúar 1983, þeirra börn eru Rúnar Gauti og Þuríður. b) Ármann Halldór Jensson, f. 30. desember 1992, eiginkona hans er Þórunn Ingólfsdóttir, f. 5. janúar 1993, dóttir þeirra er Móeiður Úna. c) Jóhannes Helgi Jensson, f. 11. nóvember 2000, unnusta hans er Alexandra Ada Hilmars Sigurjónsdóttir, f. 13. júní 2000, hans barn er Laufey Hekla. Fjórða og yngsta systirin er Hrefna Valdís Guðmundsdóttir, f. 29. september 1968, maki Jón Garðar Einarsson, f. 10. nóvember 1959, börn þeirra eru: a) Einar Jóhann Jónsson (fóstursonur Hrefnu), f. 13. desember 1981, eiginkona Einars er Heba Rún Þórðardóttir, f. 5. desember 1986, börn þeirra eru Eyrún Stella og Bjarki Þór. b) Magnús Þór Jónsson, f. 13. maí 1991, sambýliskona hans er Lisa Lirussi, f. 13. október 1986. c) Anna Margrét Jónsdóttir, f. 21. janúar 2002.
Jóna ólst upp á Skólavegi 23, Nýhöfn, frá þriggja ára aldri. Hún gekk í Barnaskóla Vestmannaeyja og síðar Framhaldsskóla Vestmannaeyja og varð stúdent þaðan af viðskiptabraut 1985.
Á unglingsárum starfaði hún í Vinnslustöð Vestmannaeyja í pappanum eins og það var kallað.
Jóna fór síðan suður til Reykjavíkur haustið 1986 til frekari náms og lauk BA-prófi frá Háskóla Íslands í bókasafns- og upplýsingafræði með sagnfræði sem aukagrein árið 1990. Hún varð löggiltur bókasafnsfræðingur 19. apríl 1991.
Jóna starfaði allan sinn starfsferil í Safnahúsi Vestmannaeyja sem héraðsskjalavörður frá 1989 til 2021 í hálfu starfi og hálfu starfi á Bókasafni Vestmannaeyja.
Jóna var einn af stofnfélögum í Félagi bókasafns- og upplýsingafræðinga, Upplýsingu, árið 1999. Hún var gerð að heiðursfélaga í Félagi héraðsskjalavarða á Íslandi árið 2021 og sat í nefndum og átthagastjórnum, þ.á m. í stjórn Sögufélags Vestmannaeyja áratugum saman.

Útför fer fram frá Landakirkju þriðjudaginn 2. júlí klukkan 13.

Streymt verður frá athöfninni á vef Landakirkju og má nálgast hlekk á streymi á mbl.is/andlat.

Hún var glaðlynt barn enda brosandi á öllum myndum sem við höfum skoðað síðustu daga. Einn skólabróðir hennar minntist hennar líka sem glaðlyndrar bekkjarsystur sem átti gott með að læra. Hún var líka samviskusöm, þrjósk og ættrækin og elskaði dýr. Þetta er aðeins smá lýsing á henni Jónu systur en segir samt svo margt um hana. Hún giftist aldrei og átti ekki börn en leit á börnin okkar sem sín börn og tók þeirra málstað ef á þau var hallað.
Síðustu ár hafa verið Jónu erfið og oft leið henni eins og hún væri ein í heiminum, enda mikið lagt á ekki stærri manneskju. Við systurnar vorum hjá henni síðustu dagana enda var mikið spjallað á báðum gjörgæsludeildum Landspítalans. Við höldum áfram með spjallið þegar við hittum þig næst, elsku Jóna systir.

Elsku stóra systir mín,

blíðleg, hlý og góð.

Hún er líka sæt og fín,

viskufull og fróð.

Hún margt kenndi mér,

um lífið okkar langa.

Systir góð, þessa löngu leið

ég vil með þér ganga.

Þú átt faðm fyrir mig,

til að knúsa blítt.

Ég á faðm fyrir þig,

þar sem ávallt er hlýtt.

Ég ann þér mjög,

elsku stóra systir.

Gæti samið um það 100 lög,

ásamt öllu sem mig lystir!

(Gíslunn)

Þórhildur, Sigríður og Hrefna Valdís.

Það er orðið fágætt að einstaklingar helgi sig einum og sama vinnustaðnum alla starfsævina. Jóna starfaði óslitið sem héraðsskjalavörður í Safnahúsinu í 32 ár þar til sjúkdómar buguðu hana, haustið 2021. Gæfa skjalasafnsins var að njóta svo langra samvista við svo samviskusaman starfsmann nánast frá árdögum safnsins sem var stofnað aðeins níu árum áður en Jóna réðst þar til starfa.
Jóna var fagleg og vandvirk í öllum störfum sínum, yndi hennar var að vera „niðri í kjallara” með skjöl og handrit, bréfasöfn og dagbækur sem hún skráði og flokkaði, tók saman og bjó um með réttum hætti á réttan stað. „Spurðu Jónu,” var viðkvæðið ef velt var upp hvort gögn þessa eða hins Eyjabúa væru varðveitt á safninu, hvort tiltekið félag hefði skilað inn fundargerðum sínum eða hvar væri helst að finna heimildir um ákveðið viðfangsefni. Ef það sem leitað var eftir var komið á skjalasafnið gekk hún blindandi að því, ófáar slíkar þrautir sá ég hana leysa þegar þurfti að sinna hinum margvíslegu erindum sem berast inn á söfnin.
BA-ritgerð hennar bar heitið Heimildir um héraðssögu Vestmannaeyja 1700-1989 og er átthagaskrá sem bindur saman elju Jónu og ástríðu fyrir að vinna Eyjum allt. Í inngangi kemur á mjög skýran hátt fram af hverju lífsbraut hennar varð þjónusta við bæjarbúa um varðveislu og miðlun menningararfs héraðsins. „Meginmarkmiðið með verkefninu er að reyna að auðvelda venjulegum Vestmannaeyingum og öðrum aðgang að heimildum um Vestmannaeyjar, en einnig kemur skráin sér vel fyrir starfsfólk bókasafna.” Þessi löngun til að opna aðgengið er það sérkenni Jónu sem við starfsfélagarnir minnumst hennar helst fyrir og þökkum nú.
Jóna tókst á hendur hin ýmsu verkefni innan stofnunarinnar árin sem hún starfaði hér, flest þeirra undir hatti skjalasafnsins. Þjónustustörf léku í höndum hennar, væri einhver að gefa út, rannsaka eða vinna með gögn vistuð á skjalasafninu eignaðist sá hinn sami þegar hauk í horni. Stundum þurfti hún þó að fara út fyrir þægindarammann eins og þegar henni var falið að vera verkefnastjóri árin 2008-2010 yfir samstarfsverkefnum Vestmannaeyjabæjar og Þjóðskjalasafns um stafræna gerð manntala. Enda þótt stjórnunarstörf væru mjög fjarri áhugasviði Jónu, sá hún hið jákvæða í stöðunni að „nú fæ ég tækifæri til að vinna við frágang á skjölum sem ekki hefur gefist tími til áður”.
Lífið skenkti Jónu ekki margt utan vinnu. Vissulega átti hún að góða stórfjölskyldu, foreldra, systur og systrabörn sem hún unni og voru henni alla tíð styrkar stoðir. En sjálf braust hún ekki til þess að eignast sína eigin fjölskyldu utan hinna gömlu pappíra.
Þungt hefur verið að skilja við yndi sitt svo snemma. Okkur samstarfsfélögum hennar duldist lengi hve veikburða Jóna var orðin. Að lokum var þó ekki lengur unnt að halda áfram og vinnan varð að víkja þótt fátt kæmi þar í stað.

Að leiðarlokum vil ég fyrir hönd allra í Safnahúsi Vestmannaeyja þakka samstarfið og hin vel unnu störf. Blessuð sé minning Jónu Bjargar Guðmundsdóttur.
Kári Bjarnason.

Hér kveðjum við góðan vin og samstarfsfélaga, hana Jónu Björgu. Við kynntumst henni þegar við unnum saman í Safnahúsinu í Vestmannaeyjum sem leiddi síðan til vinskapar út ævina.

Falið í grasi


Þú færð að sofa er vorsins vörmu hendur
vagga í gælni og rælni stráum ungum
og ljósgrænn stararsprotinn talar tungum
við tjarnarvatnið blátt,
en drottins sól, á degi mikils friðar,
hún dregur örþunn slæðutjöld til hliðar:
ó hafið ekki hátt,

og hratt og kyrrlátt yfir undirlendi
og allt til miðra hlíða skugga vefur
af litlu skýi. Hljóður hreyfir við
hárlokkum þinum góður blær.

Þú sefur.

Falið í grasi, fallið þér úr hendi,

þitt gamla leikfang liggur þér við hlið.

(Guðmundur Böðvarsson)

Sendum ættingjum samúðarkveðjur.
Nanna Þóra og Hlíf.

Ég vil með nokkrum orðum minnast Jónu Bjargar Guðmundsdóttur, fyrrum héraðsskjalavarðar í Vestmannaeyjum, sem lést sunnudaginn 16. júní sl. eftir erfið veikindi.
Jóna Björg var héraðsskjalavörður í Vestmannaeyjum frá 17. maí 1989. Hún var útskrifaður bókasafns- og upplýsingafræðingur frá Háskóla Íslands. Hún var stolt af menntun sinni og starfi sem héraðsskjalavörður og var alla tíð dugleg að sækja endurmenntun og fræðslu upp á land og til útlanda.
Ég hitti Jónu Björgu fyrst á fundi í Þjóðskjalasafni haustið 1989. Hún var lítil og nett og það fór ekki mikið fyrir henni. Hún sat oftast róleg á fundum og jafnvel dottaði ef svo bar undir. Kannski ekki skrítið þar sem hún hafði oft ferðast langar leiðir til að komast á fundinn. Það var ekki fyrr en síðar að við komumst að því að hún hafði lengi glímt við veikindi en hún kvartaði aldrei, mætti alltaf í vinnu og á fundi með skjalavörðum.
Jóna Björg var einungis í hálfri stöðu á skjalasafninu. Henni fannst réttilega að það væri svo margt sem þyrfti að gera en tíminn skammur. Hún sinnti eldri skjölum sveitarfélagsins og fékk styrki til að miðla gögnum á vefinn. Hún lagði áherslu á að safna skjölum félagasamtaka í Eyjum og tókst vel upp í því. Hún hafði áhuga á að fá inn meira af skjölum sjómanna í Eyjum, því hún sá að frekari heimildir vantaði í safnið um störf þeirra.
Jóna Björg var vandvirk, minnug og hafði góða þekkingu á sögu Vestmannaeyja. Hún var fróðleiksfús og áhugasöm um allt það sem við skjalaverðir vorum að fást við, Hún var alltaf glöð, jákvæð og elskuleg við alla í kringum sig. Það var gaman að fara með henni í ferðir skjalavarða til Færeyja og Grænlands og þar var svo augljóst hvað hún var vel liðin af kollegum.
Árið 2009 stofnuðum við héraðsskjalaverðir Félag héraðsskjalavarða á Íslandi. Jóna Björg var þar stofnfélagi og áhugasöm um starf og verkefni félagsins, sótti alla fundi sem hún mögulega gat og blómstraði í félagsstarfinu.
Jóna Björg lét af störfum þegar veikindi hennar ágerðust sumarið 2021, eftir að hafa starfað þar óslitið í 32 ár sem héraðsskjalavörður Vestmannaeyja. Þá um haustið var hún gerð að heiðursfélaga í Félagi héraðsskjalavarða á Íslandi.
Ég hitti ekki Jónu Björgu síðastliðin 3-4 ár en við ræddum stundum saman í síma og ætluðum að hittast þegar heilsan leyfði.
Ég minnist Jónu Bjargar með hlýhug og þakka henni fyrir fyrir góð kynni og gott samstarf í gegnum árin. Ég sendi samúðarkveðjur til Hrefnu systur hennar og fjölskyldu og vina.
Blessuð sé minning Jónu Bjargar.

Svanhildur Bogadóttir,
fv. Borgarskjalavörður.

Jóna Björg starfaði sem héraðsskjalavörður í Vestmannaeyjum í yfir þrjá áratugi. Hún tók við keflinu af Haraldi Guðnasyni árið 1989 og starfaði við safnið til ársins 2021. Héraðsskjalasafnið var stofnað árið 1980 og var hún annar héraðsskjalavörður Vestmannaeyjabæjar. Jóna Björg var alla tíð vakin og sofin yfir velferð safnsins og þeirra menningarverðmæta sem það geymdi og henni var trúað fyrir. Starfið á safninu mótaðist mikið á hennar starfstíma og lagði hún þar sín styrku lóð á vogarskálarnar. Glaðlegt og vinalegt viðmót hennar og gott samstarf á vettvangi skjalasafna lifir í minningunni. Árlegir fundir héraðsskjalavarða koma upp í hugann, sem og heimsóknir á héraðsskjalasafnið þar sem móttökur voru ávallt afar góðar. Fyrir hönd starfsfólks Þjóðskjalasafns eru aðstandendum Jónu Bjargar sendar innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Þjóðskjalasafns Íslands,

Hrefna Róbertsdóttir.