Þórir S. Gröndal
Þórir S. Gröndal
Sítt hár var ekki komið í tísku og enginn heilvita maður lét sjá sig með skeggbrodda á fésinu eins og nú tíðkast. Rakarastofur höfðu því nóg að gera.

Ég man ekki nákvæmlega hvenær ég fékk fyrstu ekta klippinguna á rakarastofu. Mamma og eldri systir mín beittu skærunum á lubbann á mér alveg fram undir ferminguna. Þá fékk ég fyrst að fara til Óla rakara, sem var giftur föðursystur og sá hann um klippingar í fjölskyldunni. Á þessum árum voru rakarastofurnar í bænum merkar og vinsælar stofnanir. Margir rakarameistarar voru þjóðkunnir menn og komust oft í blöðin. Sítt hár var ekki komið í tísku og enginn heilvita maður lét sjá sig með skeggbrodda á andlitinu eins og nú tíðkast. Rakarastofurnar höfðu því nóg að gera.

Svo kom tímabil þegar síða hárið þótti fínt og þá áttu margir hárskerar mjög bágt. En sem betur fer, þá var algjör skalli ekki orðinn algengur. Menn sem voru að missa hárið héldu áfram að koma í klippingu þótt færri hár væru eftir. Þeir sem voru bara með gróður í vöngunum ræktuðu þau hár svo hægt væri að greiða þau yfir auðnina á háskallanum. Ég man eftir skopteikningu í tímaritinu Speglinum sem sýndi einn ráðherrann, sem greitt hafði nokkur hár úr öðrum vanganum yfir skallann. Teiknarinn númeraði hárin frá 1 til 10.

Ein eftirminnilegasta klippingin sem ég man eftir frá yngri árum var frá sumrinu sem ég var kyndari á hvalbát. Þá voru fjölmargir hvalir drepnir árlega og Hvalur hf. var álitið þjóðþrifafyrirtæki. Hvalbátarnir komu ekki til Reykjavíkur nema einu sinni á vertíðinni til að fara í ketilhreinsun og fékk þá áhöfnin að stoppa í bænum í tvo daga. Þegar okkar bátur kom í bæinn vorum við búnir að vera rúma tvo mánuði stanslaust um borð fyrir utan að skreppa í land í hvalstöðinni í Hvalfirði nokkrum sinnum.

Skunduðum við nú fjórir hárprúðir félagar beint úr Slippnum á rakarastofuna í Eimskipafélagshúsinu þar sem Trausti rakari vann. Eftir að búið var að snurfusa okkur lá leiðin í Nýborg við Skúlagötu en þar var eina áfengisútsalan í Reykjavík. Svo fór ég til mömmu, sem var ein heima því allir voru út um hvippinn og hvappinn í sumarvinnu. Hún vissi hvert hugur sonarins stefndi og hellti snarlega upp á könnuna og bjó til pönnukökudeig. Á meðan ég sagði henni allt af létta bakaði hún pönnukökurnar sem ég rúllaði upp með sykri og raðaði í mig. Hafði hún vart undan hungruðum hvalveiðimanninum.

Árum fjölgar – hárum fækkar sagði einhver spekingur, og átti það líka við um mig. Samt sem áður þurfti að heimsækja rakarastofuna til að halda í horfinu. Oftast var ég mjög lélegur að segja klippurunum til um hvernig ég vildi hafa hárið. Þess vegna kom það fyrir, þegar lítið var að gera á stofunni, að rakarinn var ekkert að flýta sér. Hann var oft málgefinn, eins og títt er um fólk í hans stétt. Hann hélt því áfram að tala og klippa. Í þessi skipti kom ég heim næstum snoðklipptur.

Fyrir nokkrum árum var opnuð ný rakarastofa í verslunarmiðstöð hér rétt hjá. Hún tilheyrir keðju af rakarastofum og heitir Flott klipping (Great Clips) og skilst mér að um 2.000 slíkar stofur séu dreifðar um land allt. Þangað hef ég farið nokkuð reglulega og líkar sæmilega vel. Það er samt galli að hárskerarnir koma og fara og hittir maður því ekki alltaf á sömu manneskjuna. Síðast þegar ég var þar klippti mig svört kona, feikistór og mikil um sig og var hún með stærri brjóst en ég hef áður séð. Þegar hún stóð fyrir aftan mig með skærin á lofti lá við að brjóstin hvíldu á herðunum á mér. En klippingin var ágæt.

Í lokin er hér smá rakarasaga, sem ég heyrði fyrir mörgum árum. Mike bjó í New Jersey og hafði hann skipt við sömu rakarastofuna í mörg ár þar sem Tony rakarameistari sá um að halda hári hans í skefjum. Honum líkaði að mestu vel við Tony, en það pirraði hann samt að hann var dálítið grobbgjarn.

Á meðan hann mundaði skærin sögðu þeir hvor öðrum allt af létta um hvað hefði gerst síðan síðast. Mike sagðist hafa keypt nýjan Sjevróletbíl og þá tjáði Tony honum að hann hefði einmitt nýlega fengið sér splunkunýja Kádiljákdrossíu. Þegar Mike hafði farið með fjölskylduna í sumarfrí niður á strönd í New Jersey hafði Tony boðið sínu fólki í ferð til Flórída. Sem sagt: Tony toppaði allt sem Mike hafði gert.

Það fylgir sögunni, að bæði Mike og Tony og allt þeirra fólk var kaþólskt og fór dyggilega í kirkju á hverjum sunnudegi. Þegar Mike kom í klippingu einn góðan veðurdag vildi Tony vita hvað á daga hans hefði drifið. Hann sagði þá að hann og öll fjölskyldan væru einmitt nýkomin úr ferð til Rómar. Allt hafði verið dásamlegt og þau hefðu meira að segja heimsótt Vatíkanið. Ekki nóg með það, heldur hefðu þau verið svo heppin að hitta sjálfan páfann, sem hefði talað við þau og blessað persónulega. Sagðist Mike hafa kropið fyrir framan hann og páfinn lagt höndina á kollinn á honum. Og þá hefði hann hvíslað að honum: „Hver klippti þig svona ferlega illa?”

Höfundur er fyrrverandi fisksali og ræðismaður í Ameríku.

Höf.: Þórir S. Gröndal