Guðmundur Helgi Víglundsson
Guðmundur Helgi Víglundsson
Verksmiðja Carbfix á Völlunum Hafnarfirði. Mjög mikilvægt að koma eins miklum upplýsingum og hægt er til íbúa um þær hættur sem geta verið af þessari verksmiðju.

Nú stendur yfir tilraunaverkefni við Straumsvík og á iðnaðarsvæðinu á Völlunum við Hafnarfjörð sem ber nafnið „DemoUpCARMA” undir forystu ETH Zürich í samstarfi við Carbfix. Tilraunaverkefnið felst í því að flytja til landsins 50 stk. 20 feta gámatanka með fljótandi lífrænu koldíoxíði (CO 2 ). Hver tankur inniheldur 20 tonn af lífrænu CO 2 , sem framleitt er með gerjun lífmassa.


Rétt eins og sýra brennir húð brennir kolsýrða Carbfix-vatnið sig í berglög og þvingar þau til að losa málma á borð við kalsíum, magnesíum og járn. Með tímanum eiga þessir málmar, uppleystir í koldíoxíðinu, að mynda karbónatsteindir sem fylla upp í holótt basaltið.

Þessum CO 2 -mengaða vökva á að dæla niður á Völlunum í Hafnarfirði. Á kynningarfundi um stækkun hafnarinnar í Straumsvík upplýsti Carbfix að val á staðsetningu verksmiðjunnar hefði ráðist m.a. af því að í Straumsvík er þegar höfn og kostur er að í boði er land sem þegar er raskað vegna atvinnuuppbyggingar. Fyrir liggur hins vegar að Carbfix mun ekki fá leyfi til að nota þau hafnarmannvirki sem fyrir hendi eru og því þarf að byggja nýja höfn í Straumsvík.

Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að umbrotahrina er hafin á Reykjanesi. Sprungusveimur Krýsuvíkur liggur í norðaustur frá Krýsuvík og hann nær undir Hafnarfjörð, Garðabæ, Kópavog, Reykjavík og Mosfellsbæ. Hann endar uppi í Mosfellsdal.

Í Kröflueldum mynduðust kvikugangar/sprungur sem voru allt að 60 km langar. Þannig sprunga myndi ná í gegnum Reykjanesið. Nesið er uppbyggt af hraunlögum sem liggja lárétt eins og pönnukökur. Samanber nýja reynslu og þekkingu sem jarðvísindamenn hafa öðlast samhliða jarðeldum á Reykjanesi.

Carbfix hyggst dæla þessum súra vökva niður í ungt basaltið, sem er svo hentugt samkvæmt umhverfismatsskýrslu félagsins. Ungt basískt gosbergið er mjög brotkennt og lekt svo vatn seytlar auðveldlega gegnum sprungur og holur neðanjarðar.

Við niðurdælingu er áætlað að dreifing vökvans geti náð allt að 100 ferkílómetra út frá borholusvæðinu. Talið er að grunnvatnsstaða Hafnarfjarðar geti hækkað um allt að 40 cm. Gert er ráð fyrir örvaðri jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingarinnar.

Reiknað er með að koma upp 10 borteigum með allt að átta borholum á hverjum teig, ásamt allt að tveimur holum til ferskvatnsöflunar. Hafnarfjarðarbær á fjóra af fyrirhuguðum borteigum, Land og skógur á fjóra og Rio Tinto á tvo. Ferskvatnsnotkun þegar verksmiðjan verður fullbyggð er áætluð um 75 milljónir tonna á ári, sem svarar til ca. helmings af meðalrennsli Elliðaáa á ári.

Niðurdælingarholur á Hellisheiðinni eru ca. tveggja kílómetra djúpar, en á Völlunum á ekki að fara svo djúpt eða að hámarki einn kílómetra.

Þegar verksmiðjan fer í gang verður vökvinn fluttur inn í sérsmíðuðum eiturefnaflutningaskipum við -50°C og ca. 8-9 bara þrýsting. Slík skip eru ekki til í dag og verða þau smíðuð af öðrum aðilum. Reiknað er með allt að 130 skipakomum á ári.

Það sem hræðir helst varðandi þetta verkefni er hættan á því að ferska vatnið úr hrauninu, sem er jú mikilvæg auðlind okkar, mengist og spillist með óafturkræfum hætti. Hvernig getur það gerst að stjórnendur Hafnarfjarðarbæjar, sem eiga jú að huga að vernd okkar umhverfis og náttúru, samþykkja slíka framkvæmd í bæjarlandinu? Framkvæmd sem byggist á því að sigla tankskipum frá Evrópu með mengaðan vökva með CO 2 til Íslands, til að dæla honum hér í jarðlögin. Væri ekki nær að dæla þessum vökva niður sem næst þeim stöðum þar sem hann á uppruna sinn?

Margir spyrja sig hvernig þessi hugmynd fæddist og hvernig Ísland varð fyrir valinu. Getur það verið vegna þess að umhverfislöggjöfin hér á landi tekur ekki á þessu?

Bæði á kynningarfundinum um höfnina og í umhverfismatsskýrslum Hafnarfjarðarhafnar og Carbfix kemur fram að ekki sé búið að semja um gjald fyrir vatnsnotkun, landnýtingu fyrir borteiga né lagnaleiðir. Það er ekki einu sinni búið að semja við landeigendur um efnistöku úr námu fyrir hafnarframkvæmdir.

Það á einnig eftir að vinna áhættumat við að fá 130 eiturefnaskip inn í Faxaflóann á hverju ári. Faxaflóinn er talinn eitt mikilvægasta hrygningarsvæðið við Íslandsstrendur.

Ég hvet íbúa höfuðborgarsvæðisins til að kynna sér þessar miklu framkvæmdir, umhverfismatsskýrslu Hafnarfjarðarhafnar og umhverfismatsskýrslu Carbfix. Skýrslurnar eru báðar ásamt viðaukum inni á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar. Opið er fyrir athugasemdir til 30.6. 2024 fyrir stækkun hafnar í Straumsvík og til 5.7. 2024 vegna Carbfix

Gerum Ísland betra og gerum það saman.

Höfundur er framkvæmdastjóri, BS-véltæknifræðingur og íbúi í Hafnarfirði.

Höf.: Guðmundur Helgi Víglundsson