Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Það er hægt að snúa vörn í sókn. Það á ekki síst við um stjórnmálastarf.

Í nýlegri skoðanakönnun Maskínu mælist Sjálfstæðisflokkurinn með tæp 15% fylgi. Þetta er mikil breyting frá því flokkurinn var að mælast með 30-35% og jafnvel meira fylgi í könnunum fyrir ekki svo löngu. Ekki er auðvelt að finna einhverja eina skýringu á þessu litla fylgi flokksins. Þær eru nokkrar. Innra starf flokksins hefur verið fjölbreytt og öflugt undanfarið þannig að á þeim vettvangi er ekki að finna skýringuna. Þá beinast spjótin að forystu flokksins, jafnt á Alþingi og í borgarstjórn.

Stuðningur við stjórnmálaflokk snýst um málefni og traust, jafnt á Alþingi og í sveitarstjórnum. Þar skiptir miklu máli traust til þeirra sem eru í forystusveitinni og ekki síður málflutningur þeirra á opinberum vettvangi og samskipti við hinn almenna flokksmann. Á hinn bóginn getur fylgið við einstaka stjórnmálaflokka minnkað verulega ef forystumenn þeirra tengjast með óeðlilegum hætti hagsmunum einstakra fyrirtækja eða hagsmunahópa.

Mín ráð til Sjálfstæðisflokksins, sem ég hef tilheyrt og starfað fyrir með ýmsum hætti í áratugi, er að flokkurinn fari í ítarlega skoðun á starfsháttum sínum. Flokksmenn eiga það skilið.

Það er hægt að snúa vörn í sókn. Það á ekki síst við um stjórnmálastarf. Það gerði Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík í borgarstjórnarkosningum árið 1982, en frá 1978-1982 var borginni stjórnað af afleitum vinstri meirihluta. Undir forystu Davíðs Oddssonar, sem gegndi starfi borgarstjóra frá 1982-1991, vann Sjálfstæðisflokkurinn afgerandi meirihluta í borgarstjórn. Í framhaldinu hafði hann forystu um að fækka borgarfulltrúum úr 21 í 15, en vinstriflokkarnir sem voru í meirihluta í borgarstjórn frá 1978-1982 höfðu fjölgað þeim. Stjórnsýsla borgarinnar hefur síður en svo verið til fyrirmyndar undanfarin ár, en auðvitað myndu borgarbúar fagna því ef núverandi borgarstjóra tækist að stýra borgarsjóði með ráðdeild, sem fráfarandi borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, tókst aldrei.

Höfundur er fv. borgarstjóri.