Eva Gunnarsdóttir
Eva Gunnarsdóttir
Ég var búin að vera með virk einkenni í heilt ár en það hvarflaði ekki að neinum að ég væri með krabbamein.

Þegar ég var fertug fékk ég óvænt ristilkrabbamein. Ég var þá búsett í London og fór í gegnum meðferð á Royal Free Hospital í Hampstead í Norður-London. Krabbameinið var aldrei greint þar sem ég var mörgum áratugum undir meðalaldri og passaði auk þess ekki við neina þekkta

áhættuþætti fyrir ristilkrabbamein.
Það var ekki fyrr en ég fór mjög veik á slysavarðstofu spítalans með ristilstíflu að æxlið kom í ljós og það þurfti að framkvæma neyðaraðgerð samdægurs. Fjórum dögum síðar þurfti að endurtaka aðgerðina og setja upp tímabundið stóma sem var síðan fjarlægt ári síðar.
Krabbameinið reyndist staðbundið en engu að síður var mælt með lyfjameðferð út af því hversu ung ég var og af því að líkurnar á
endurkomu ristilkrabbameins er hærri í neyðartilvikum.
Ég var búin að vera með virk einkenni í heilt ár en það hvarflaði ekki að neinum að ég væri með krabbamein. Sérfræðingar nefndu hluti eins og
heilsukvíða og órólegan ristil (IBS) og ég breytti mataræðinu og fór að
borða heilsufæði. Það jók á hraustlegt útlit og enginn gerði sér grein fyrir
hvaða þróun var að eiga sér stað þar til ristilstíflan myndaðist. Meira að segja var ég send aftur heim með laxerolíu þar til ég sneri aftur á
spítalann nokkrum dögum síðar enn veikari.
Þessa dagana er ég að leggja lokahönd á bók þar sem ég skrifa um reynslu mína og flétta inn í söguna sálfræði, núvitund og samkennd í
eigin garð en ég er sálfræðingur að mennt með meistaragráðu í núvitund. Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins fagnar framtakinu og segir að það sé einstakt þegar saman kemur persónuleg reynsla og fagleg þekking. Slík bók geti aukið verulega lífsgæði fólks með sjúkdóminn og jafnvel bjargað mannslífum. Hún fagnar útkomu bókarinnar sem ber titilinn Staðráðin í að vera og er væntanleg fyrir jólin.

Höfundur er sálfræðingur og núvitundarkennari.