Willum Þór Þórsson
Willum Þór Þórsson
Birta Hannesdóttir birta@mbl.is Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segist vinna með Lyfjastofnun Íslands til að tryggja að skaðaminnkandi nefúðalyf, svokallað Naloxon, komist í lausasölu hér á landi. Kemur þetta fram í skriflegu svari ráðherrans til Morgunblaðsins.

Birta Hannesdóttir
birta@mbl.is

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segist vinna með Lyfjastofnun Íslands til að tryggja að skaðaminnkandi nefúðalyf, svokallað Naloxon, komist í lausasölu hér á landi. Kemur þetta fram í skriflegu svari ráðherrans til Morgunblaðsins.

Lausasala á lyfinu í apótekum hefur verið í skoðun hjá ráðuneytinu síðan í apríl í fyrra en ekki er útlit fyrir að svo verði á næstunni vegna hindrana sem snúa að markaðsleyfi. Samningsskuldbindingar markaðsleyfishafa lyfsins í Noregi við þriðja aðila eru stærsta hindrun þess að lyfið verði að lausasölulyfi hér.

Í svari ráðherrans segir að þessi hindrun hafi þó ekki áhrif á þá dreifingu sem þegar er til staðar.

„Markmiðið er greitt aðgengi einstaklinga, allra viðbragðsaðila og annarra þjónustuveitenda svo hægt sé að bregðast hratt við ef upp kemur ópíóðaskömmtun. Hindrun á lausasölu Naloxone-nefúðans í apótekum hefur því ekki áhrif á þá umfangsmiklu dreifingu sem nú þegar er til staðar,” segir í svari ráðherrans

Lyfið er nú aðgengilegt á Íslandi sem tvö lyf, annars vegar í nefúðaformi og hins vegar sem stungulyf. Er því þá sprautað í æð eða vöðva. Þau eru þó bæði lyfseðilsskyld og ekki eins aðgengileg og ef þau væru í lausasölu. Víða erlendis eru dæmi um að notkun lyfsins hafi dregið úr dauðsföllum vegna ofneyslu ópíóða eftir að aðgengi að nefúðanum var aukið.

Vinna starfshópsins dregist á langinn

Í september á síðasta ári skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp sem hefur það hlutverk að semja stefnu stjórnvalda í skaðaminnkun og leggja til aðgerðaáætlun sem byggist á stefnunni. Í hópnum eiga sæti 19 fulltrúar innri og ytri hagsmunaaðila sem hafa bein eða óbein áhrif á málaflokkinn.

Óskað var eftir því að starfshópurinn skoðaði aðgerðir sem fælu í sér úrræði eins og efnagreiningu vímuefna, fræðslu um örugga notkun vímuefna og fjölbreyttari viðhaldsmeðferðir. Starfshópurinn vinnur einnig að mati á stöðu skaðaminnkunar á Íslandi sem og rýnir þróun skaðaminnkunar á Norðurlöndunum og annars staðar í heiminum.

Skil á stefnu og aðgerðaáætlun starfshópsins hafa dregist á langinn, en í svari frá ráðherra er búist við því að hann skili af sér drögum í ágúst.