Í brúnni Þessar stúlkur voru ófeimnar við að taka sér stöðu við stýrið.
Í brúnni Þessar stúlkur voru ófeimnar við að taka sér stöðu við stýrið. — Ljósmynd/Helgi Snær Agnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þriðja vika Sjávarútvegsskóla unga fólksins hóf göngu sína í gær. Gert er ráð fyrir að um 70 ungmenni úr Vinnuskóla Reykjavíkur, Kópavogs og Seltjarnarness sæki skólann þetta sumarið.

Valgerður Laufey Guðmundsdóttir
vally@mbl.is

Þriðja vika Sjávarútvegsskóla unga fólksins hóf göngu sína í gær. Gert er ráð fyrir að um 70 ungmenni úr Vinnuskóla Reykjavíkur, Kópavogs og Seltjarnarness sæki skólann þetta sumarið. Skólinn er haldinn í fimmta sinn í Reykjavík og er starfræktur í fjórar vikur.

„Markmið skólans er að kynna sjávarútveg og starfsemi hans fyrir nemendum og þá menntunar- og atvinnumöguleika sem í boði eru í sjávarútvegi og tengdum greinum svo sem tækni- og iðngreinum og flutningum í kringum sjávarútveg,” segir Pálmi Hafþór Ingólfsson, verkefnastjóri fræðslu og heilbrigðis hjá Brimi.

Brim hefur verið aðalstyrktaraðili skólans frá stofnun hans í Reykjavík en auk Brims koma Háskólinn á Akureyri, Vinnuskólar Reykjavíkur, Kópavogs og Seltjarnarness, önnur sjávarútvegsfyrirtæki og aðilar tengdir sjávarútvegi víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu að honum. Skólinn hefur verið starfræktur á Austurlandi frá árinu 2013 og á Norðurlandi frá árinu 2017.

„Sjávarútvegsskólinn teygir anga sína um allt Ísland þar sem hann er kenndur víðs vegar um Ísland af núverandi eða útskrifuðum nemendum ísjávarútvegsfræði,” segir Helgi Snær Agnarsson sjávarútvegsfræðingur, en hann kennir við skólann ásamt Svandísi Dóru Jónsdóttur sjávarútvegsfræðingi.

„Síðasti kennsludagur hverrar viku er oft hve líflegastur þar sem heimsótt er bæði bolfiskvinnsla Brims og farið um borð í togara Brims og lýkur deginum á pítsuveislu,” segir Helgi.

Hann segir að krakkarnir sem sótt hafa skólann hafi hlotið fræðslu um hin ýmsu mál tengd sjávarútvegi auk þess að kíkja í heimsóknir í margvísleg fyrirtæki og stofnanir tengdar sjávarútvegi á einhvern hátt. Marel, matvælaráðuneytið og Iceland Seafood eru meðal þeirra fyrirtækja og stofnana sem halda erindi við skólann og ungmennin heimsækja meðal annars Slysavarnaskóla sjómanna, Tækniskólann, Sjávarklasann og Sjóminjasafnið í Reykjavík.