Breytingar Endurvinnslustöðinni við Dalveg í Kópavogi verður lokað í
september á næsta ári.
Breytingar Endurvinnslustöðinni við Dalveg í Kópavogi verður lokað í september á næsta ári. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þessi þjónusta er gríðarlega mikið nýtt af íbúum og mikilvægt að hún sé fyrir hendi. Það er það sem við viljum tryggja og ég tel að þetta sé skynsamleg leið,” segir Orri Hlöðversson, bæjarfulltrúi í Kópavogi og stjórnarmaður í Sorpu.

Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is

„Þessi þjónusta er gríðarlega mikið nýtt af íbúum og mikilvægt að hún sé fyrir hendi. Það er það sem við viljum tryggja og ég tel að þetta sé skynsamleg leið,” segir Orri Hlöðversson, bæjarfulltrúi í Kópavogi og stjórnarmaður í Sorpu.

Ákveðið hefur verið að fresta lokun endurvinnslustöðvar Sorpu við Dalveg um eitt ár. Stjórn Sorpu hefur samþykkt drög að samkomulagi þessa efnis og er nú stefnt að því að stöðin verði opin fram til 1. september 2025. Enn á þó eftir að leggja samkomulagið fyrir fund bæjarráðs Kópavogs og verður það gert á fimmtudag.

Þungaflutningar ekki æskilegir

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu hefur undirbúningsvinna vegna byggingar nýrrar endurvinnslustöðvar Sorpu í Kópavogi frestast. Niðurstöðu starfshóps sem vinnur að því að finna staðsetningu hefur seinkað og niðurstöðu ekki að vænta fyrr en síðsumars eða í haust. Bæjaryfirvöld í Kópavogi tilkynntu stjórnendum Sorpu árið 2022 að loka þyrfti móttökustöðinni við Dalveg og skila lóðinni eigi síðar en 1. september 2024. Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, sagði í viðtali við Morgunblaðið nýverið að umferð fyrir þungaflutninga væri ekki æskileg á svæðinu og skapaði auk þess mikla slysahættu. Áformað er að annars konar starfsemi komi í staðinn á lóðinni en skipulagsáform bæjarins í Kópavogsdal miða að því að dalurinn verði fyrst og fremst nýttur á grundvelli sjónarmiða útivistar, lýðheilsu og íþróttastarfs.

Ný stöð í Kópavogi eða Garðabæ

Vonir stóðu til að lokun stöðvarinnar við Dalveg nú í haust myndi ganga saman við áform Sorpu um byggingu nýrrar endurvinnslustöðvar við Lambhagaveg en til stóð að hún yrði klár seint á þessu ári. Dregist hefur að koma byggingu stöðvarinnar í útboð og nú er gert ráð fyrir að hún verði tekin í notkun haustið 2025. Í drögum að áðurnefndu samkomulagi kemur fram að ekki sé fyrirséð að ný stöð í Kópavogi eða Garðabæ verði tilbúin haustið 2025. Til að bregðast við því ástandi verði gripið til ýmissa ráðstafana á öðrum endurvinnslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Þannig verður endurvinnslustöðin við Sævarhöfða, sem Lambhagi á að taka við af, höfð áfram í rekstri þótt opnað verði í Lambhaga og afgreiðslutími á öðrum stöðum verður lengdur.