Sumarveður Sjaldgæfir blíðviðrisdagar kalla á slökun í sólinni.
Sumarveður Sjaldgæfir blíðviðrisdagar kalla á slökun í sólinni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Veðrið í júlí gæti orðið fremur daufgert, svalt og þurrt, segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við Morgunblaðið.

María Hjörvar
mariahjorvar@mbl.is

Veðrið í júlí gæti orðið fremur daufgert, svalt og þurrt, segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við Morgunblaðið.

Horfur í fyrri hluta júlí, að sögn Einars, benda til lítillar úrkomu sunnan og vestan til en talsverðri úrkomu sé spáð á Austfjörðum.

Til að byrja með verði skúraleiðingar á Suðurlandi en kólna muni fyrir norðan.

Norðanlands verði fremur svalt með hægari norðaustanátt og þoku við sjóinn þar sem vindur stendur af hafi.

Þokusuddi algengur

Hægfara breytingar fara að sjást á fimmtudag þegar hæg norðlæg átt verður ríkjandi fram á sunnudag. Þá mun verða sólríkt en þó eru síðdegisskúrir ekki útilokaðar.

Hiti sunnanlands mun ná allt að 16-18 stigum en svalt verður fyrir norðan og austan, eða um sex til tíu gráður. Að jafnaði verður fremur þungbúið og þokusuddi verður algengt veðurlag.

Vestur af Bretlandseyjum er spáð lágþrýstifráviki í næstu viku en minni háttar háþrýstifráviki vestur af Íslandi og yfir Grænlandi. Því fylgja líklega ríkjandi vindar á milli austurs og norðurs en oftast verða þeir þó hægir.

Gæti orðið sólríkt

Fremur svalt verður umhverfis landið vikuna 15. til 22. júlí og þá gæti orðið sólríkt. Norðanátt verður þó í grunninn og almennt séð þurrt.

Einar segir spágetu vera litla fyrir síðustu vikuna í júlí en þangað til verði að jafnaði hæglátt veður með ríkjandi vindi á milli austurs og norðurs.

Hiti á landinu muni vera um eða undir meðallagi, þó gætu sólardagar sunnan og vestan til lyft meðalhitanum upp.

Hlýja frá suðri telst ólíkleg, að sögn Einars, með ríkjandi háloftadragi við landið.