Umdeilt Slökkt hefur verið á auglýsingaskilti á vegg Ormsson síðustu mánuði eftir að dagsektum var hótað.
Umdeilt Slökkt hefur verið á auglýsingaskilti á vegg Ormsson síðustu mánuði eftir að dagsektum var hótað. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is For­svars­menn versl­un­ar­inn­ar Orms­son hafa stefnt Reykjavíkurborg vegna vinnubragða byggingafulltrúans í Reykjavík í tengslum við umdeilt auglýsingaskilti á húsi fyr­ir­tæk­is­ins við Lág­múla. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 20. júní síðastliðinn.

Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is

For­svars­menn versl­un­ar­inn­ar Orms­son hafa stefnt Reykjavíkurborg vegna vinnubragða byggingafulltrúans í Reykjavík í tengslum við umdeilt auglýsingaskilti á húsi fyr­ir­tæk­is­ins við Lág­múla. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 20. júní síðastliðinn.

Eins og komið hefur fram í fréttum Morgunblaðsins af málinu krafðist Reykjavíkurborg þess að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir umrætt skilti. Þeirri umsókn var svo hafnað og dagsektum hótað ef framkvæmdum í tengslum við skiltið yrði ekki hætt. Til að flækja málið svo var forsvarsmönnum Ormsson tilkynnt að byggingarleyfi hefði verið samþykkt en síðar var staðhæft að sú tilkynning hefði verið send fyrir mistök. Úr­sk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála hafnaði kröfum Ormsson um að fella úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa vegna skiltisins.

Vilhjálmur Þ.Á. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur, sem fer með málið fyrir hönd Ormsson, segir að málið sé í grunninn tvíþætt. Annars vegar telji Ormsson að reglur Reykjavíkurborgar um skilti feli í sér að Ormsson hafi ekki þurft á sérstöku samþykki að halda, veita hafi átt byggingarleyfi. Ormsson hafi verið með skilti á þessum vegg í áratugi og samþykktar teikningar þar að lútandi. Túlkun Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sé þá ekki rétt, vafi sé túlkaður stjórnvaldinu í hag og stjórnsýsluframkvæmd borgarinnar ekki í samræmi við stjórnsýslureglur.

„Málið varðar einnig dagsektir þær sem voru lagðar á en þær eru svo háar og fordæmalausar að Ormsson getur ekki tekið áhættuna á því að vera með kveikt á skiltinu, því ef svo ólíklega færi að ekki yrði fallist á kröfur Ormsson þá yrði tjónið of mikið, enda 150.000 króna dagsektir á hvern dag sem kveikt er á skiltinu,” segir hann og bætir við að Ormsson hafi starfað í sátt við borgaryfirvöld frá stofnun fyrirtækisins og því sé leiðinlegt að málið þurfi að fara í farveg dómstóla.