Menntun Sveigjanlegt nám hefur skilað sér í því að nemendur af landinu öllu, jafnvel erlendis frá, velja HA í auknum mæli, segir Áslaug sem  nú kemur til starfa við hákólann nyðra eftir um 30 ára starf í Bandaríkjunum.
Menntun Sveigjanlegt nám hefur skilað sér í því að nemendur af landinu öllu, jafnvel erlendis frá, velja HA í auknum mæli, segir Áslaug sem nú kemur til starfa við hákólann nyðra eftir um 30 ára starf í Bandaríkjunum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Starfið er spennandi, þetta er áhugaverð og vaxandi menntastofnun og mig langaði einfaldlega að taka þátt í því,” segir Áslaug Ásgeirsdóttir sem er nýr rektor Háskólans á Akureyri.

Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is

„Starfið er spennandi, þetta er áhugaverð og vaxandi menntastofnun og mig langaði einfaldlega að taka þátt í því,” segir Áslaug Ásgeirsdóttir sem er nýr rektor Háskólans á Akureyri. Hún kom til starfa við skólann í gær, 1. júlí, og sneri nýlega aftur heim til Íslands eftir störf um langt árabil í Bandaríkjunum. Var hún prófessor hjá Bates College í Lewiston í Maine-ríki frá árinu 2001. Þar var hún meðal annars aðstoðarrektor í fimm ár og fékk þar áhuga á stjórnunarstörfum. Sé svo farið langt aftur rifjar Áslaug upp að hún starfaði um 1990 á Morgunblaðinu; var þá hönnuður og blaðamaður. Hún valdi þó að hasla sér völl í hinu akademíska umhverfi og hefur náð langt.

„Háskólinn á Akureyri hefur þá sérstöðu að bjóða upp á mjög sveigjanlegt nám, þar sem nemendur eru í fjölbreyttu námsformi. Þegar litið er yfir söguna hefur þetta skilað sér í mikilli þekkingaraukningu á landsbyggðinni, sérstaklega hvað varðar menntun hjúkrunarfræðinga og kennara. Einnig hefur sveigjanlegt nám skilað sér í því að nemendur eru í æ meira mæli frá öllu landinu, jafnvel erlendis með kennslu yfir netið. Í raun er þetta í vaxandi mæli háskóli alls Íslands,” segir Áslaug og bætir við:

„Þegar starf rektors var auglýst ákvað ég að kynna mér starfið og skólann á Akureyri betur. Ég áttaði mig fljótlega á því hversu framsækinn skólinn er og hversu mikilvægu hlutverki hann gegnir í íslensku samfélagi. Ég ákvað því að senda inn umsókn; rektorsstaðan var rétta tækifærið til að taka stökkið.”

Rúmlega 2.600 nemendur eru í dag við Háskólann á Akureyri sem skiptist í tvö fræðasvið. Annað er á sviði hug- og félagsvísinda og hitt er heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið. Nú er boðið upp á grunnnám við skólann í félagsvísindum, fjölmiðlafræði, hjúkrunarfræði, iðjuþjálfun, kennarafræði leik- og grunnskóla, líftækni, lögfræði, lögreglufræði, nútímafræði, sálfræði, sjávarútvegsfræði, tæknifræði, tölvunarfræði og viðskiptafræði. Starf HA er í stöðugri þróun og segja má að skólinn hafi orðið fullvaxta þegar heimild fékkst til þess að bjóða upp á doktorsnám. Fyrsta doktorsvörnin við skólann fór fram haustið 2022.

Starf HA tekur eðlilega að nokkru mið af háttum og aðstæðum úti á landi, svo sem í námsframboði. Rannsóknastarf við skólann er mjög vaxandi svo og margvíslegt fræðastarf sem tengist norðurslóðum. Slíkt tengist svo fræðistörfum Áslaugar í alþjóðlegri stjórnmálahagfræði og rannsóknum á því hvernig þjóðir í Norður-Atlantshafi hafa samið um skiptingu deilistofna. Einnig hefur hún rannsakað hvernig lönd heims hafa samið um skiptingu sameiginlegra hafsvæða sem mynduðust eftir að 200 mílna efnahagslögsaga strandríkja kom til.

Nú er mikið talað um öfgahyggju í samfélaginu eða skautun, það er umskipti í viðhorfum, og að fólk raði sér í fylkingar á pólana sem eru hvor á móti öðrum. Einnig að lýðræðið eigi undir högg að sækja. Þessu hafa margir áhyggjur af, samanber þjóðhátíðarræðu forsætisráðherra á dögunum. Geta stjórnmálafræðin og akademían lagt þarna eitthvað af mörkum og þar með kannski lægt storminn?

„Stjórnmálafræðin sem slík hjálpar okkur að skilja bæði orsakir og afleiðingar öfgahyggju og getur þannig gefið fólki tól og tæki til að styrkja lýðræðið. Háskólasamfélagið gegnir lykilhlutverki í að miðla þekkingu sem byggð er á vísindum og rannsóknum. Skautun þrífst oft þar sem ónægar eða misvísandi upplýsingar liggja fyrir og menntun gerir öllum kleift að nálgast og skilja niðurstöður rannsókna. Slíkt er gríðarlega mikilvægt. Háskólinn á Akureyri vinnur í stefnu varðandi opin vísindi og að skoða möguleika sína á frekari vísindamiðlun, sem til dæmis endurspeglar breytta upplýsingaöflun ungs fólks og vekur athygli á því að menntun er öllum aðgengileg.”

Sameining Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst stendur nú fyrir dyrum. Viðræður þar um hafa staðið yfir síðustu mánuði og hefjast aftur í haust. Ef af sameiningu verður fylgja slíku tækifæri fyrir kennara, starfsfólk og nemendur skólanna. Að sama skapi sé mikil vinna að samþætta ólíkar stofnanir og enn mikil vinna fram undan við að leysa áskoranir svo allir geti unað við niðurstöðu.

„Háskólinn er í stöðugri þróun sem mótast af samfélaginu í kring. Til dæmis erum við að byrja með framhaldsnám í ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun, og einnig erum við í samstarfsverkefnum sem eiga að auka þekkingu á málefnum innflytjenda.

Sömuleiðis á þáttum sem hafa áhrif á skammdegisþunglyndi. Þá stendur til að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, þar sem unnið er að umhverfis- og norðurslóðamálum, verði hluti af HA frá og með áramótum. Slíkt á eftir að styrkja áherslur HA vegna heimskautamála verulega. Sjálf myndi ég síðan vilja sjá sýnilegri áherslur á nýsköpun og vísindarannsóknir,” segir Áslaug og að síðustu:

„Helsta áskorunin sem háskólasamfélagið í heild þarf að leggja áherslu á er að skilja og skoða áhrif gervigreindar á nám og störf. Hvernig getum við nýtt gervigreind til framfara, kennt stúdentum okkar að nota hana, og skilið betur áskoranirnar sem gervigreindin hefur í för með sér. Þá er alveg ljóst að nýtt reiknilíkan háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins um fjárveitingar til háskóla á eftir að hafa áhrif, meðal annars hvað varðar stuðning við auknar rannsóknir, með tilheyrandi áherslu á meistaranám og frekari uppbyggingu doktorsnáms.”

Hver er hún?

Áslaug Ásgeirsdóttir fæddist árið 1966 og ólst upp í Garðabæ. Hún hefur starfað við Bates College í Lewiston í Maine í Bandaríkjunum og gegnt þar ýmsum stjórnunarstörfum, svo sem starfi aðstoðarrektors og starfi deildarforseta. Hún er með doktorsgráðu í stjórnmálafræði frá Washington University í St. Louis í Bandaríkjunum.

Auk þess að hafa unnið við kennslu og rannsóknir hefur Áslaug víðtæka stjórnunarreynslu. Hefur einnig starfað sem gestaprófessor við Háskólasetur Vestfjarða og sem Fulbright-fræðimaður hjá Háskóla Íslands.