Elísabet Einarsdóttir  
framkvæmdastjóri.
Elísabet Einarsdóttir framkvæmdastjóri.
Hagnaður lögfræðistofunnar BBA fjeldco nam tæpum 400 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 9% milli ára.

Hagnaður lögfræðistofunnar BBA fjeldco nam tæpum 400 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 9% milli ára, úr tæpum 367 milljónum króna árið áður. Þetta kemur fram í nýjum samstæðureikningi lögfræðistofunnar, en BBA Fjeldco rekur skrifstofur í Reykjavík og í London ásamt því að hafa fyrr á þessu ári opnað í Frakklandi.

Eigið fé samstæðunnar nam um 401 milljón króna í árslok en skuldir námu 303 milljónum króna. Þar af leiðir að eignir hennar námu samtals rúmum 704 milljónum króna.

Rekstrartekjur, það er seld þjónusta, jukust um tæpar 100 milljónir milli ára, úr 1,4 milljörðum 1,5 milljarða. Rekstrargjöld námu um milljarði króna á síðasta ári. Þar af reyndist launa- og starfsmannakostnaður vera stærsti útgjaldaliðurinn, en hann nam tæpum 760 milljónum eða 74% rekstrargjalda.

Félagið hyggst greiða út arð vegna síðasta árs, en stærstu hluthafar eru Bjarki H. Diego, Einar Árnason, Gunnar Þór Þórarinsson, Halldór Karl Halldórsson, Kári Ólafsson, Páll Jóhannesson og Þórir Júlíusson, sem allir eiga um 11,23% hlut í félaginu.

Í skýrslu stjórnar segir að þrátt fyrir að krefjandi markaðsaðstæður víða um heim hefðu haft áhrif á starfsemina, héldi verkefnaflóra félagsins áfram að vaxa með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á markaðshlutdeild félagsins.

Elísabet Einarsdóttir er framkvæmdastjóri BBA fjeldco.