Fjártækni Bjarni Gaukur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Blikks og Jónína Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri Blikks.
Fjártækni Bjarni Gaukur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Blikks og Jónína Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri Blikks. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hugbúnaðarfyrirtækið Blikk býður upp á nýja greiðslulausn þar sem greiðsla er framkvæmd með millifærslu í gegnum greiðslugátt í vefverslun eða smáforriti í verslun.

Magdalena Anna Torfadóttir
magdalena@mbl.is

Hugbúnaðarfyrirtækið Blikk býður upp á nýja greiðslulausn þar sem greiðsla er framkvæmd með millifærslu í gegnum greiðslugátt í vefverslun eða smáforriti í verslun. Lausnin nefnist reikning í reikning greiðslulausn og virkar þannig að millifærsla er framkvæmd á sama tíma og sala er kláruð.

Jónína Gunnarsdóttir rekstrarstjóri Blikks segir að með lausninni fari peningurinn ekki í sama ferðalag og hann fer í gegnum ef kort eru notuð.

„Við komum ekki við peninginn og erum í raun eins og umferðarlögregla. Millifærslan er framkvæmd á sömu sekúndunni,” segir Jónína.

Munurinn á lausn Blikks og hefðbundnum greiðslukortalausnum er að peningurinn fer ekki í gegnum marga milliliði og jafnvel út úr landi og aftur inn í landið með tilheyrandi kostnaði.

Seðlabankinn hefur tekið saman kostnað í smágreiðslumiðlun og samkvæmt þeirri skýrslu kostar það heimilin í landinu 5 milljarða króna á ári að nota kortin og fyrirtækin 10 milljarða að taka á móti kortunum.

Jónína segir að sá kostnaður fari í vöruverðið að nánast öllu leyti.

„Það þýðir að heimilin í landinu borgi 15 milljarða á ári fyrir að nota kortin sín innanlands,” segir Jónína.

Vilja bjóða upp á nýjan valkost

Bjarni Gaukur Sigurðsson framkvæmdastjóri Blikks segir að markmið Blikks sé að bjóða upp á nýjan valkost samhliða kortanotkun.

„Okkar lausn er sambærileg kortanotkun en að einhverju leyti líka öðruvísi. Okkar rekstrarmódel byggir á því að við rukkum söluaðila um ákveðið mánaðargjald og færslugjald. Við hyggjumst síðan endurgreiða færslugjaldið að stærstu leyti til samfélagsins, annaðhvort til neytenda eða styrkja gott málefni. Við tökum þóknun sem er á bilinu 0,3-0,5% og það er um helmingi ódýrara en gengur og gerist á markaðnum,” segir Bjarni Gaukur.

Kreditkort bankanna bjóða mörg hver upp á tryggingar og vildarpunkta hjá Icelandair. Bjarni Gaukur segir að mikilvægt sé að neytendur séu meðvitaðir um kostnaðinn sem fylgir kortanotkun.

„Til að það borgi sig fjárhagslega að vera með kort sem safnar vildarpunktum þarf veltan að vera um 500-800 þúsund á mánuði. Meðalveltan á kortum er um 300 þúsund þannig að það er ekki hægt að segja að kortin séu fýsilegasti kosturinn fyrir hinn almenna neytanda,” segir Bjarni Gaukur.

Blikk hefur nú þegar gert samninga við fjölmarga aðila um notkun greiðslulausnarinnar. Má þar helst nefna Dominos, Heimkaup, IKEA og Acro-verðbréfa-appið. Bjarni Gaukur segir að lausnin hafi fengið afar góðar viðtökur bæði hjá neytendum og söluaðilum.

„Fólki finnst tími til kominn á nýjan valkost til viðbótar við kortin. Okkar markmið er ekki að skipta út kortunum heldur stefnum við á að ná ákveðinni markaðshlutdeild. Auðvitað eru margir sem vilja heldur nota kortin og það er allt í góðu. Við viljum auka fjölbreytni á þessum markaði,” segir Bjarni Gaukur.

Stefna út fyrir landsteinana

Lausnir sambærilegar Blikki þekkjast víða erlendis þótt þær hafi ekki náð útbreiðslu í Bretlandi og Bandaríkjunum. En í löndum eins og Hollandi, Póllandi og Finnlandi þekkjast þær. Í þessum löndum eru upp undir 60-70% af netverslun greidd með reikning í reikning greiðslulausnum. Lausnir af þessu tagi eru einnig vel þekktar á Filippseyjum, Indlandi og í Brasilíu.

Jónína segir að Blikk sé þó ólík erlendum lausnum að því leytinu til að þar hafi bankar tekið sig saman um að útbúa slíkar lausnir.

„Við erum einkaframtak í grunninn. Þó við verðum að tengjast bönkunum til að geta framkvæmt millifærslur. Við erum í raun bæði í samstarfi og í samkeppni við bankana,” segir Jónína og bætir við að tækifæri séu til hagnýtingar á lausn Blikks víða þar sem kostnaðurinn við greiðslumiðlun sé hár í mörgum löndum, ekki aðeins á Íslandi.

Bjarni Gaukur segir að þegar fram líði stundir stefni fyrirtækið á að útvíkka starfsemi sína til annarra landa. Fyrst um sinn vilji þau þó einblína á að koma lausninni á fót innanlands. Leyfið sem Blikk starfar eftir nær yfir allt Evrópska efnahagssvæðið.

„Við viljum hafa augun á boltanum og taka eitt skref í einu. En það eru klárlega tækifæri þarna úti og aðilar hafa sýnt lausninni áhuga í samtölum. Við ætlum þó að einbeita okkur að innanlandsmarkaðnum eins og sakir standa,” segir Bjarni Gaukur að lokum.