Macron Frakklandsforseti vonast til að andstæðingar Þjóðfylkingarflokksins greiði atkvæði taktískt í seinni umferðinni sl. sunnudag.
Macron Frakklandsforseti vonast til að andstæðingar Þjóðfylkingarflokksins greiði atkvæði taktískt í seinni umferðinni sl. sunnudag. — AFP/Yara Nardi
Umdeilt útspil Emmanuel Macrons Frakklandsforseta um að boða til kosninga eftir afhroð í kosningum Evrópubandalagsins gæti ýtt honum út af hinu pólitíska sviði ef hann nær ekki samstöðu með vinstrimönnum.

Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is

Umdeilt útspil Emmanuel Macrons Frakklandsforseta um að boða til kosninga eftir afhroð í kosningum Evrópubandalagsins gæti ýtt honum út af hinu pólitíska sviði ef hann nær ekki samstöðu með vinstrimönnum.

Í gær var ljóst að Þjóðfylkingarflokkur Marie Le Pen fékk flest atkvæði í fyrstu umferð þingkosninganna, eða 33%, en vinstri flokkurinn Nýja alþýðufylkingin hlaut 28%.

Miðjubandalag Macrons var talsvert langt á eftir með 20% atkvæða.

Staðan er þó enn flókin og ekki ljóst að Þjóðfylkingarflokkurinn geti myndað stjórn. Hinn 28 ára gamli Jordan Bardella er leiðtogi flokksins og hann hefur sagt í fjölmiðlum að hann muni aðeins verða forsætisráðherra ef flokkurinn nær hreinum meirihluta. Svo það gangi eftir þarf hann 289 þingsæti af 577 sætum. Flestar kosningaspár telja að flokkurinn muni ekki ná þeim þingsætafjölda í seinni umferð kosninganna sem verður núna á sunnudaginn, 7. júlí.

Segja Frakka þrá breytingar

Kjörsókn hefur aldrei verið meiri í Frakklandi en 66,7% kusu í fyrri umferðinni en til samanburðar kusu aðeins 47,5% árið 2022.

Pólitískt landslag í Frakklandi er eins og víða annars staðar mjög skautað. Bæði vinstri- og hægrimenn segja ástæðuna vera þá að Frakkar þrái breytingar. Er útlit fyrir að niðurstaða kosninganna verði mikið högg fyrir sitjandi ríkisstjórn.

Að sögn Celiu Belin, háttsettrar stjórnmálakonu í utanríkismálaráði Evrópusambandsins, er hugsanlegt að miðjuflokkur Macrons haldi aðeins þriðjungi þeirra þingsæta sem hann hafði fyrir þremur vikum.

Almennt er talið af stjórnmálaskýrendum Frakka að það útspil Macrons að boða til kosninga hafi reynst slæm ákvörðun sem marki endalok flokksins.

„Heimshöfðinginn hefur kastað Frakklandi undir strætisvagninn,” sagði í ritstjórnargrein vinstrisinnaða dagblaðsins Liberation. Hægrisinnaða blaðið Le Figaro fullyrti að ákvörðun Macrons um að boða til kosninga yrði dæmd í sögubókum sem algjör hörmung.

Taktísk kosning?

Þegar úrslitin voru ljós í gær kallaði Macron eftir breiðu lýðræðisbandalagi gegn Þjóðfylkingarflokknum. Í herbúðum Macrons er vonast til að taktískar kosningar geti lokað leið hægrimanna til valda.