Hernaður Árásir hafa verið gerðar í Gasaborg og Khan Younis.
Hernaður Árásir hafa verið gerðar í Gasaborg og Khan Younis. — AFP/Ísraelsher
Ísraelskar hersveitir réðust á Khan Younis í suðurhluta Gasa í gær eftir eldflaugaárásir sem vígasveit herskáu samtakanna Íslamska jíhad lýsti yfir ábyrgð á.

Ísraelskar hersveitir réðust á Khan Younis í suðurhluta Gasa í gær eftir eldflaugaárásir sem vígasveit herskáu samtakanna Íslamska jíhad lýsti yfir ábyrgð á. Enginn lést því loftvarnakerfi Ísraelshers náði að stöðva flestar árásirnar.

Um 20 eldflaugum var skotið frá Khan Younis og sögðu Ísraelar að gagnárás þeirra væri beint að því svæði sem vígasveitirnar skutu eldflaugum sínum frá.

Íslömsku jíhad-samtökin sögðu árásirnar vera í hefndarskyni fyrir „glæpi Ísraels gegn palestínsku þjóðinni”.

AFP-fréttastofan hefur eftir sjónarvottum að loftárásir Ísraela hafi einnig verið við landamærastöðina Rafah og nálægt Nuseirat-flóttamannabúðunum.

Stöðugar landárásir frá skriðdrekum í Shujaiya-hverfinu í Gasaborg hafa nú staðið yfir í fimm daga þar sem Benjamín Netanjahú forsætisráðherra segir baráttuna gegn Hamas harða. Ísraelski herinn sagði að hermenn hefðu útrýmt fjölda hryðjuverkamanna í áhlaupum í Shujaiya, þar sem loftárásir hefðu einnig orðið 20 vígamönnum að bana.

Þá gaf Ísraelsher út tilkynningu í gær um að rýma yrði hluta af Khan Younis og Rafah.

Föngum skilað

Hópur palestínskra fanga sneri aftur til Gasa-svæðisins í gær, þ.á m. Mohammed Abu Salmiya, forstjóra al-Shifa-sjúkrahússins, stærsta sjúkrahúsið á svæðinu. „Fangarnir voru látnir þola líkamlega og sálræna niðurlægingu,” sagði hann við blaðamenn í gær. „Nokkrir fangar dóu í yfirheyrslum og voru sviptir mat og lyfjum.”