Lántaka Carlo Monticelli, bankastjóri Þróunarbanka Evrópuráðsins, og Einar Þorsteinsson borgarstjóri, eftir að lánasamningurinn var undirritaður.
Lántaka Carlo Monticelli, bankastjóri Þróunarbanka Evrópuráðsins, og Einar Þorsteinsson borgarstjóri, eftir að lánasamningurinn var undirritaður. — Ljósmynd/Reykjavíkurborg
Borgarstjórn Reykjavíkur hefur samþykkt að taka að láni 100 milljónir evra frá Þróunarbanka Evrópuráðsins (CEB), en upphæðin nemur um 15 milljörðum íslenskra króna.

Baksvið
Óskar Bergsson
oskar@mbl.is

Eins og fram hefur komið hefur borgarstjórn Reykjavíkur samþykkt að taka að láni 100 milljónir evra frá Þróunarbanka Evrópuráðsins (CEB), en upphæðin nemur um 15 milljörðum íslenskra króna. Tilgangur lánsins er að fjármagna viðhaldsátak í skólahúsnæði borgarinnar.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri sagði við undirritun lánasamningsins að hann tryggði að hægt væri að halda áfram mikilvægu viðhaldsátaki og uppbyggingu á skólahúsnæði í borginni og það endurspeglaði forgangsröðun meirihlutans í þágu skólamála.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, sagði af þessu tilefni að lántakan lýsti alvarlegri stöðu í rekstri borgarinnar.

Dregið verður á lánið eftir framvindu

Í svari fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar til Morgunblaðsins kemur fram að dregið verði á lánið í áföngum eftir framvindu verkanna. Að lágmarki sé hægt að draga á lánið í tveimur hlutum og geti fyrsti ádráttur ekki orðið meira en 50% af lánsfjárhæð. Fjárfestingar ársins 2023 falla undir samninginn.

Lánið er tekið í afmörkuð og skilgreind verkefni er varða skólahúsnæði borgarinnar og nær til meiri háttar viðhalds bygginga, endurgerðar og viðbygginga. Samkvæmt lánasamningi er gert ráð fyrir að 128 byggingar falli undir meiri háttar viðhald, þ.e. 41 grunnskóli, 71 leikskóli og 16 byggingar sem hýsa frístund. Þá falli 22 byggingar undir endurgerð og sex undir viðbyggingar. Lánið verði notað í það sem fellur undir fjárfestingar en ekki rekstur.

Áhersla á fyrirbyggjandi viðhaldsaðgerðir

Stýrihópur sem var skipaður af borgarráði 7. apríl 2022 lagði fram forgangsröðun framkvæmda með skilabréfi. Til grundvallar er ástandsskoðun húsnæðis sem fram fór árin 2020 – 2021 og kynnt var í borgarráði í nóvember 2021. Síðan hafa verið gerðar frekari úttektir til að forgangsraða verkefnum, kostnaðarmeta og tímasetja framkvæmdirnar. Áætlunin verður endurskoðuð eftir þörfum og mun taka breytingum hvað varðar forgangsröðun, umfang og fjárþörf.

Húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar í eigu Reykjavíkurborgar er alls rúmlega 265 þúsund fermetrar að stærð í 136 eignum.

Í þeirri áætlun sem liggur fyrir hefur eignum verið skipt upp í fimm forgangsflokka með hliðsjón af þeim áherslum, að tryggja öryggi notenda, tryggja heilnæmt umhverfi, bæta aðgengi fyrir alla, fyrirbyggja skemmdir mannvirkja og tryggja hagkvæma nýting fjármuna.

Framkvæmdum verður forgangsraðað

Við endanlega forgangsröðun framkvæmda er einnig horft til áforma borgarinnar um breytingar, viðbyggingar og endurnýjunaráform. Eftir atvikum verða tillögur að frekari útfærslu, samningum eða málsmeðferð varðandi einstök verkefni lögð fyrir borgarráð. Komi önnur verkefni fram á síðari stigum, eða ef forsendur breytast kann það að hafa áhrif á forgangsröðun, segir í svari borgarinnar. Þar verði tekið tillit til sjónarmiða skóla- og frístundasviðs vegna mögulegra áhrifa framkvæmda á starfsemi á hverjum stað. Þá verði einnig lögð áhersla á að koma í veg fyrir mögulegar skemmdir síðar á húsnæði með fyrirbyggjandi viðhaldsaðgerðum. Eignir kunna því að raðast ofar í forgangi með tilliti til þess.

Í forgangi 1 eru 37 eignir, 25 eignir eru í forgangi 2, 27 í forgangi 3 og í forgangi 4 og 5 eru alls 24 eignir. Forgangsröðunin var unnin í samstarfi við Intellecta ráðgjöf og byggir á því hvernig á að úthluta takmörkuðu fjármagni til innviðauppbyggingar. Þróunarbanki Evrópu leggur áherslu á félags- og umhverfislegar forsendur við mat sitt á lánshæfi verkefna og er aðferðafræði borgarinnar sögð ríma vel við stefnu bankans um lánveitingar til framkvæmda.