Í Pýreneafjöllum Stefanía og Vilhjálmur á tindi Pedraforca.
Í Pýreneafjöllum Stefanía og Vilhjálmur á tindi Pedraforca.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefanía Júlíusdóttir fæddist 2. júlí 1944 að Hrísateigi 25 í Reykjavík, í húsi foreldra sinna. Seinna bjó fjölskyldan um skeið á Njálsgötu og Fossvogsbletti en frá sex ára aldri ólst Stefanía upp í vesturbæ Kópavogs.

Stefanía Júlíusdóttir fæddist 2. júlí 1944 að Hrísateigi 25 í Reykjavík, í húsi foreldra sinna. Seinna bjó fjölskyldan um skeið á Njálsgötu og Fossvogsbletti en frá sex ára aldri ólst Stefanía upp í vesturbæ Kópavogs að Kópavogsbraut 25, nú númer 49. „Þá var Kópavogurinn að byggjast upp og gaman að alast þar upp. Ég fór í sveit á sumrin eins og alsiða var. Einnig vann ég við afgreiðslu- og verksmiðjustörf og eitt sumar við heimilisstörf í Dalhousie School of English í Bexhill-on-Sea.”

Stefanía gekk í barna- og gagnfræðaskóla í Kópavogi og í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. „Eftir stúdentspróf frá MR 1964 fór ég í arkitektanám til Rúmeníu en hætti vegna þess að ég giftist bandarískum námsmanni þar og flutti með honum til Bandaríkjanna. Sumarið 1970 flutti ég heim til foreldra minna í Kópavogi og við hjónin skildum. Ég lauk BA-prófi í bókasafnsfræði og líffræði 1974 frá Háskóla Íslands, MS prófi í bókasafnsfræði frá Columbia University in the City of New York (megináhersla á tölvuvæðingu og upplýsingaþjónustu) 1984 og doktorsprófi í bókasafns- og upplýsingafræði frá Háskóla Íslands 2013. Doktorsritgerðin fjallar um áhrif þjóðfélagsbreytinga og tækniþróunar á atvinnumöguleika, vinnuumhverfi og eðli starfa í bóka- og skjalasöfnum. Við Columbia-háskóla bauðst mér aðild að heiðursfélaginu Beta Phi Mu, International Library Science Honor Society. Beta Phi Mu stendur fyrir grísku orðin Bibliothekarios philax mathesis og merkir bókasafnsfræðingar gæta þekkingarinnar.”

Fyrsta staðan var forstöðumannsstaða Bókasafns Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Lengst af var Stefanía lektor í bókasafnsfræði, síðar bókasafns- og upplýsingafræði, nú upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Áður var hún stundakennari í greininni. Störf hennar við kennslu þar spanna tæp 30 ár. Auk þess tók Stefanía þátt í að skipuleggja og kenna í fjölda endurmenntunarnámskeiða á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands, Félags um skjalastjórn og fleiri aðila, innlendra og erlendra. Á þessum tíma tók hún virkan þátt í þróun og uppbyggingu greinarinnar og starfaði um skeið áfram við rannsóknir og stundakennslu.

Stefanía var forstöðumaður bókasafna á heilbrigðisvísindasviði, þ.e. Bókasafns Landlæknisembættisins og Bókasafns Landspítala – háskólasjúkrahúss 1996-2001. Hún var bókafulltrúi ríkisins í menntamálaráðuneytinu 1985-1987, í þjóðdeild Landsbókasafns Íslands við skráningu 1978-1985 og sjálfstætt starfandi meðfram doktorsnámi í nokkur ár. Hún tók virkan þátt í félags- og trúnaðarstörfum á sviði fagsins innanlands og erlendis, var m.a. einn af hvatamönnum að stofnun Félags um skjalastjórn og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir það félag og önnur fagfélög. Hún vann við undirbúning ráðstefna á vegum innlendra og erlendra aðila, sótti faglegar ráðstefnur og vinnufundi og fór í kynnisferðir í bóka- og skjalasöfn víða innanlands og utan.

„Rannsóknir mínar beindust m.a. að mannaflaþörf og þróun þjónustueininga bóka- og skjalasafna hér á landi, áhrifum tölvuvæðingar á störf í bóka- og skjalasöfnum, þróun útgáfumála hérlendis, upphafi íslenskra lestrarfélaga, bókasafnsþjónustu fyrir íslenskan almenning og væntingum almennings hérlendis til þjónustu almenningsbókasafna.” Eftir Stefaníu birtist fjöldi greina og bókarkafla í innlendum og erlendum tímaritum og bókum.

„Auk mikils faglegs áhuga og metnaðar höfðum við hjónin mjög gaman af fjallgöngum, dansi og ferðalögum. Ég tilheyrði tveimur gönguhópum sem hittust vikulega, gönguhópi skólasystra minna úr MR sem enn hittist vikulega og Kramhúsgönguhópi sem enn hittist en án mín. Við hjónin tókum námskeið í margs konar dansi, vorum í dansleikfimi í Kramhúsinu hjá Hafdísi Árnadóttur og í Balkandönsum hjá Vesku Jónsdóttur. Þær eru báðar einstakir dansstjórar. Við vorum í Þjóðdansafélagi Reykjavíkur og dönsuðum þar þjóðdansa og gömlu dansana. Með danshópunum tókum við þátt í danssýningum heima og erlendis á dansmótum.” Þau hjónin ferðuðust víða um lönd í Evrópu, Asíu, Norður-Ameríku og Afríku sunnan Sahara þar sem Vilhjálmur vann um skeið við þróunarstörf. Helstu áhugamál Stefaníu auk þess að sinna fjölskyldunni eru ennþá ferðalög og útivist ásamt lestri.

Gaman er að geta þess að Jóhanna Júlíusdóttir systir Stefaníu var bókasafns- og upplýsingafræðingur við Hólabrekkuskóla, Brjánn sonur hennar er bókasafns- og upplýsingafræðingur við Borgarbókasafn, og Helga Halldórsdóttir kona hans er bókasafns- og upplýsingafræðingur og skjalastjóri, Hulda Ásgrímsdóttir fyrrverandi mágkona Stefaníu er bókasafns- og upplýsingafræðingur. Trausti bróðir hennar hugði um skeið á nám í greininni en hvarf frá því ráði. Einnig má nefna Egil Arnór Halldórsson bókasafnsfræðing og ritstjóra í New York og New Jersey. Þau eru skyld í þriðja og annan lið og Jón Ólafsson, ritstjóra, blaðamann, alþingismann og bókavörð sem sá fyrstur manna um spjaldskráningu prentaðra bóka í Landsbókasafni og innleiddi flokkunarkerfi Deweys hérlendis. Þau Stefanía eru skyld í sjöunda og þriðja lið.

Fjölskylda

Eiginmaður Stefaníu var Vilhjálmur Þorsteinsson, f. 9.9. 1943, d. 12.5.2016, fiskifræðingur. Foreldrar Vilhjálms voru Þorsteinn Bergmann Loftsson, f. 17.2. 1911, d. 20.5. 1946, garðyrkjubóndi á Stóra-Fljóti, og Vilhelmína Theodora Loftsson f. Tijmstra, f. 26.1. 1912, d. 28.10. 1998, húsfreyja, síðar í Reykjavík. Fyrri maður Stefaníu var Roy Alan Wright, f. 15.5. 1941, d. 18.5. 2018, málvísindamaður.

Börn: Þóra Vilhjálmsdóttir, f. 18.5. 1966, listfræðingur í Kópavogi, og Eva Vilhjálmsdóttir, f. 24.10. 1970, bús. í Bandaríkjunum. Börn Vilhjálms af fyrra hjónabandi: Iða Brá Vilhjálmsdóttir, f. 4.3. 1964, tæknimaður, Loftur Kristinn Vilhjálmsson, f. 5.2. 1967, matreiðslumaður í Reykjanesbæ, og Árni Vilhjálmsson, f. 18.6. 1968, rafvirki í Reykjanesbæ. Afkomendur Stefaníu og Vilhjálms eru tuttugu og þrír.

Systkini Stefaníu: Jón Emanúel Júlíusson hálfbróðir, f. 19.12. 1942, d. 4.8.2022, leikstjóri og leikari í Reykjavík, Þórormur Júlíusson, f. 26.12. 1947, d. 12.5. 1987, var bús. í Kópavogi, Hörður Júlíusson, f. 12.1. 1950, bílstjóri í Kópavogi, Jóhanna Júlíusdóttir, f. 25.11. 1951, bókasafns- og upplýsingafræðingur í Reykjavík, Sigrún Júlíusdóttir, f. 2.12. 1959, verkakona í Kópavogi, og Trausti Júlíusson, f. 26.12. 1963, þroskaþjálfi og þýðingafræðingur í Reykjavík.

Foreldrar Stefaníu voru Júlíus S. Júlíusson, f. 20.3. 1920, d. 23.5. 2011, leigubílstjóri, og Þóra Karólína Þórormsdóttir, f. 2.5. 1922, d. 24.12. 2009, húsfreyja í Kópavogi og iðnverkakona.