Helgi R. Einarsson sendi mér góðan póst: Forsetakosningar nálgast fyrir „vestan”, ekki eru allir ánægðir með kappana tvo.

Helgi R. Einarsson sendi mér góðan póst: Forsetakosningar nálgast fyrir „vestan”, ekki eru allir ánægðir með kappana tvo:

Kappræður

Meðan að fúkyrðin falla
fagmennsku sína þeir skjalla.
Aumt er að sjá
á sínum skjá
aðra eins rugludalla.

Ég fann þessa ferskeytlu á skrifborðinu mínu:

Heilsu og þrek ég þakka má,
þó að undan halli,
því fjölmargt slaknað hefur hjá
hálf-níræðum karli.

Anton Helgi Jónsson skrifar á Boðnarmjöð: Ein dularfyllsta varða á Íslandi stendur við Skógarkot og hlýtur að tilheyra flokki beinakerlinga. Það eru vörður sem fá ortar um sig vísur sem iðulega mana karla til afreksverka. Ég stóðst ekki mátið og orti vísu í orðastað beinakerlingarinnar sem ég hitti í dag.

Beinakerling manar strák sem stendur staður;
sértu hvorki lús né lítill maður
leggðu mig þá niður glaður.

Limra eftir Sigurlínu Hermannsdóttur:

Lúsmý er komið á kreik
á kvöldin sér bregður á leik.
Fer strax að leita
að fólkinu heita
og fær sér einn blóðugan sjeik.

Eyjólfur Ó. Eyjólfsson yrkir:

Hér áður fyr unnust þau heitt
en ekki það gekk sem er leitt
svo karlinn tók búsið
og kerlingin húsið
en kötturinn fékk ekki neitt.

Ólafur Stefánsson skrifar: Í „Sveit til sælu” í gær fór ég langt aftur í óhaminni fortíðarþrá, næstum aftur til vistarbands svo að frænku blöskraði. Eyddi því færslunni en læt viðbótina um hafísinn standa út daginn.

Hafísárunum hafði' ekki gleymt,
í hugarins leynum er tíðum reimt,
margt sem að mæðir landa.
Basl og harðindi' í bókum er geymt,
barist við draug og fjanda.

Friðrik Steingrímsson um kappræður vestra:

Bölvanlega Biden gekk
brothætt er hans vígi,
Trump af vana trylltur fékk
að tæta af sér lygi.


Halldór Blöndal (halldorblondal@simnet.is)