Tónlist „Það verða til einhverjir töfrar á milli tónlistarmannanna og áheyrenda innan um stórfengleg listaverkin í rýminu,“ segir Hlíf Sigurjónsdóttir.
Tónlist „Það verða til einhverjir töfrar á milli tónlistarmannanna og áheyrenda innan um stórfengleg listaverkin í rýminu,“ segir Hlíf Sigurjónsdóttir. — Morgunblaðið/Eggert
Árleg sumartónleikaröð  í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar hefst í kvöld klukkan 20.30  og stendur fram í miðjan ágúst.

Snædís Björnsdóttir
snaedis@mbl.is

Árleg sumartónleikaröð í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar hefst í kvöld klukkan 20.30  og stendur fram í miðjan ágúst. Þetta sumar telst hið þrítugasta og fjórða sem sumartónleikar hafa verið haldnir í safninu og verður boðið upp á klassíska tónleika af margvíslegum toga vikulega á þriðjudögum.

„Ég var einmitt að fara yfir dagskrá sumarsins áðan og þá sló það mig hvað hún er ofboðslega fjölbreytt og spennandi,” segir Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari spurð að því við hverju tónleikagestir megi búast. Hún heldur utan um tónleikana ásamt manni sínum Geirfinni Jónssyni og hefur gert undanfarin ár. „Það munu koma fram gamalreyndir tónlistarmenn og nýútskrifaðir og allt þar á milli. Það verður frumflutningur á splunkunýjum verkum og líka leikin eldri verk. Þetta verður sannkölluð sumarveisla.”

Færri tónlistarmenn komast að á hverju ári en vilja. „Við fáum mun fleiri umsóknir en við getum tekið á móti og það er alltaf með sorg í hjarta sem við vísum hljóðfæraleikurum og tónlistarmönnum frá. Þess vegna skiptir okkur líka máli að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi þegar við setjum saman dagskrána,” segir Hlíf.

Engin þjóð án sögu

Á meðal þess sem er á efnisskrá tónleikanna í sumar eru lög byggð á þjóðsögum og gömlum munnmælum, vísur úr sagnadönsum, söngdúettar um sumar, ást og mat og tónverk sem spanna sögu klarínettunnar og forvera hennar. Þá verður einnig dansaður ungverskur dans og hinn 23. júlí verður heilt kvöld helgað lögum um eða eftir konur. Í kvöld, 2. júlí, flytja Freyr Sigurjónsson flautuleikari og Arnaldur Arnarsson gítarleikari suðræna tóna og í næstu viku má meðal annars heyra glænýtt verk eftir John Speight sem nefnist Bútasaumur. Þriðjudaginn 16. júlí flytur tónlistartríóið Tríó Sól síðan nýtt verk sem ber heitið O3 og er samið af Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur. Það er því sannarlega af mörgu að taka á tónleikaröðinni í ár.

„Það verða til einhverjir töfrar á milli tónlistarmannanna og áheyrenda innan um stórfengleg listaverkin í rýminu,” segir Hlíf. „Fyrir mér er þessi tenging tákn húmanismans á öld gervigreindar. Þetta sem maður upplifir í þessum sal, það getur engin gervigreind búið til.” Í tónleikaröðinni fléttast þannig höggmyndalist, myndlist, tónlist og saga saman svo úr verður heildræn upplifun. „Nú er verið að skera niður og leggja niður ýmis söfn og það finnst mér ekki nógu gott. Við erum það sem minningarnar gefa okkur og við verðum að eiga í samtali við fyrri kynslóðir. Ég vitna alltaf í Gylfa Þ. Gíslason, en hann sagði eitt sinn að sú þjóð sem þekkti ekki sína sögu væri engin þjóð. Þetta finnst mér vera setning dagsins í dag.”

Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns Ólafssonar, stofnaði listasafnið 1. desember 1984, tveimur árum eftir andlát manns síns. Safnið var síðan opnað almenningi á áttræðisafmæli Sigurjóns, 21. október 1988, og var fyrsta tónleikaröðin haldin sumarið eftir. „Við börnin erum öll tónlistarfólk og það var alltaf músík á heimilinu. Hugsjón mömmu var sú að tónleikarnir næðu til fólks sem annars myndi ekki láta sér detta í hug að fara á safn með þrívíðum verkum. Þetta var eitthvert öflugasta PR sem hægt var að hugsa sér. Flestir sem þekkja til Listasafns Sigurjóns þekkja það af því að þeir hafa komið hingað á tónleika frekar en að að þeir hafi komið á sýningu,” segir Hlíf. Hún bætir við að aðgengi almennings að listaverkum föður síns sé sér hjartans mál. „Ég er með þennan menningararf sem eru listaverk föður míns á herðum mér. Og ef það er ekki aðgengi að verkum hans þá gleymist hann líka. Verkin verða bara geymsluvandamál.”

Undanfarin ár hefur aðsókn á tónleikana verið góð og Hlíf segist búast við því að það verði hún líka í sumar. „Við reynum að halda miðaverði í lágmarki, því reynsla okkar er sú að þá kemur fólk ekki bara á eina tónleika heldur á marga. Ég hef stundum saknað þess að fólk sé meira að mæta á tónleika einfaldlega vegna þess að það finnur fyrir þörf á að hlusta á lifandi tónlist en ekki vegna þess að það upplifir að það sé skyldumæting. En það er menningarmynstur sem við Íslendingar erum kannski ekki alveg komin með inn í sálina.”

Hún bætir við að lokum. „Það skiptir máli að skapa vettvang þar sem allt þetta vel menntaða og flotta tónlistarfólk getur komið og flutt efni sem er því hugleikið. Við verðum ávallt að vera vakandi fyrir því að við þurfum að hlúa að grasrótinni.”

Myndatexti: Tónlist „Það verða til einhverjir töfrar á milli tónlistarmannanna og áheyrenda innan um stórfengleg listaverkin í rýminu,” segir Hlíf