Markvarsla Diogo Costa fór á kostum í portúgalska markinu og varði víta-
spyrnurnar þrjár allar með tilþrifum.
Markvarsla Diogo Costa fór á kostum í portúgalska markinu og varði víta- spyrnurnar þrjár allar með tilþrifum. — AFP/Kirill Kudryavtsev
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Liðin sem mættust í úrslitaleik Evrópumóts karla í fótbolta árið 2016 í París, Portúgal og Frakkland, eigast við í átta liða úrslitum EM í Þýskalandi.

EM í fótbolta
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is

Liðin sem mættust í úrslitaleik Evrópumóts karla í fótbolta árið 2016 í París, Portúgal og Frakkland, eigast við í átta liða úrslitum EM í Þýskalandi.

Sú viðureign fer fram í Hamborg á föstudagskvöldið, 5. júlí, klukkan 19 að íslenskum tíma.

Bæði komust naumlega áfram úr 16-liða úrslitunum í gærkvöld. Frakkar unnu Belga á sjálfsmarki, rétt fyrir leikslok, 1:0, og Portúgalar sigruðu Slóvena í vítaspyrnukeppni eftir markalaust jafntefli þar sem markvörðurinn Diogo Costa var hetjan.

Costa bjargaði Portúgölum seint í framlengingunni þegar hann varði frá Benjamin Sesko úr dauðafæri.

Áður var það kollegi hans í marki Slóvena, Jan Oblak, sem átti sviðið með því að verja vítaspyrnu frá Cristiano Ronaldo í lok fyrri hálfleiks framlengingarinnar á glæsilegan hátt.

Varði allar vítaspyrnurnar

Í vítakeppninni varði Costa allar þrjár spyrnur Slóvena, allar með glæsilegum tilþrifum, á meðan félagar hans, Ronaldo, Bruno Fernandes og Bernardo Silva skoruðu úr sínum. Niðurstaða vítakeppninnar var því 3:0.

Portúgal verður þar með í átta liða úrslitum EM í sjöunda skipti á síðustu átta mótum, frá árinu 1996, en Slóvenar voru ótrúlega nálægt því að komast í fyrsta skipti í átta liða úrslit á stórmóti. Þeir fara taplausir heim eftir fjögur jafntefli í fjórum leikjum í Þýskalandi.

Sjálfsmark felldi Belgana

Frakkar voru ekki sérstaklega sannfærandi gegn Belgum og unnu að lokum á sjálfsmarki á 85. mínútu. Varamaðurinn Randal Kolo Muani sneri sér í vítateignum og reyndi skot að marki, boltinn stefndi fram hjá markinu en fór í hnéð á hinum reynda Jan Vertonghen og þaðan í markið fram hjá Koen Casteels sem gat ekkert við því gert.

Frakkar réðu þó ferðinni að mestu í leiknum og áttu 17 markskot en aðeins þrjú þeirra hittu á mark Belganna. Færi Belga voru fá en betri og Mike Maignan í marki Frakka varði mjög vel frá Kevin De Bruyne, aðeins tveimur mínútum áður en úrslitamarkið kom.

Belgar unnu þar með aðeins einn sigur í fjórum leikjum sínum á EM og þeirra árangur er því lakari en á tveimur síðustu Evrópumótum þar sem þeir féllu út í átta liða úrslitum, bæði 2016 og 2021. Á þeim tveimur mótum unnu Belgar samanlagt sjö leiki af tíu.

Eygja langþráðan titil

Frakkar eru hins vegar komnir í átta liða úrslit í sjötta sinn í síðustu átta Evrópumótum. Þeir féllu óvænt út í sextán liða úrslitum gegn Sviss á síðasta móti, eftir vítaspyrnukeppni. Þá dreymir um að vinna sinn fyrsta Evrópumeistaratitil í 24 ár en þrátt fyrir þrjá úrslitaleiki á stórmótum undanfarin átta ár hafa þeir ekki unnið EM frá árinu 2000 og það er titill sem þjálfarinn Didier Deschamps stefnir ótrauður á með sína menn.

Frakkar verða án lykilmanns í átta liða úrslitunum því Adrien Rabiot er kominn í eins leiks bann vegna gulra spjalda.

Sextán liða úrslitunum á EM lýkur í dag og kvöld með tveimur síðustu leikjunum. Rúmenía og Holland mætast í München klukkan 16 og Austurríki leikur við Tyrkland í Leipzig klukkan 19. Sigurliðin í þessum tveimur leikjum mætast síðan í átta liða úrslitunum í Berlín 6. júlí.