Hilmar Smári Henningsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er genginn til liðs við Stjörnuna en Garðabæjarfélagið skýrði frá því í gærkvöld.

Hilmar Smári Henningsson , landsliðsmaður í körfuknattleik, er genginn til liðs við Stjörnuna en Garðabæjarfélagið skýrði frá því í gærkvöld. Hilmar, sem er 23 ára bakvörður, lék áður með Stjörnunni fyrir tveimur árum, síðan með uppeldisfélaginu Haukum, og síðasta tímabil lék hann með Bremerhaven í þýsku B-deildinni. Áður var hann í röðum Valencia á Spáni og eitt tímabil með Þór á Akureyri.

Bandaríska fimleikadrottningin Simone Biles er á leið á Ólympíuleikana í París en hún hætti keppni á síðustu leikum vegna andlegra erfiðleika og tók sér frí í tvö ár af þeim sökum. Hún vann bandaríska úrtökumótið um helgina en Biles hefur unnið fern gullverðlaun á Ólympíuleikum.

Knattspyrnumaðurinn Andri Fannar Baldursson leikur áfram með Elfsborg í sænsku úrvalsdeildinni út tímabilið. Hann átti að snúa aftur úr láni til Bologna á Ítalíu núna í júlí en Svíunum tókst að sannfæra Ítalana um að fá að halda honum í hálft ár til viðbótar.

Stúlknalandslið Íslands í körfubolta, U18 ára, tapaði fyrir Eistlandi, 79:74, í fyrsta leik sínum á Norðurlandamótinu í Södertälje í Svíþjóð í gær. Kolbrún María Ármannsdóttir var stigahæst með 21 stig og Elísabet Ólafsdóttir skoraði 12.

Piltalandsliðið, U18 ára, tapaði sömuleiðis naumlega fyrir Eistlandi í Södertälje í gær, 81:79, eftir mikla spennu. Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 20 stig fyrir Íslands hönd og Kristófer Breki Björgvinsson 18. Bæði U18 ára liðin mæta Dönum í dag.

Hinn 17 ára gamli Nóel Atli Arnórsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við danska knattspyrnufélagið AaB. Nóel lék með liðinu í B-deildinni í vetur þar sem það endurheimti úrvalsdeildarsætið eftir árs fjarveru.

Knattspyrnumaðurinn Hlynur Freyr Karlsson er á förum frá Haugesund í Noregi til Brommapojkarna í sænsku úrvalsdeildinni, samkvæmt Aftonbladet í Svíþjóð. Hlynur kom til Haugesund í vetur frá Val en hefur fengið fá tækifæri með liðinu í norsku úrvalsdeildinni.

Aron Jóhannsson leikur ekki með knattspyrnuliði Vals á næstunni en Arnar Grétarsson þjálfari Vals staðfesti við fótbolta.net í gær að hann væri með slitið liðband í ökkla. Aron hefur aðeins náð að spila einn af síðustu fimm leikjum Vals vegna meiðslanna.

Gríski körfuboltamaðurinn Dimitrios Klonaras hefur samið við Álftanes um að leika með liðinu í úrvalsdeildinni næsta vetur. Klonaras er uppalinn hjá PAOK og hefur leikið með yngri landsliðum Grikklands en hann kemur frá California State East Bay-háskólanum í Bandaríkjunum.

Heimir Hallgrímsson er hættur sem þjálfari karlalandsliðs Jamaíku í knattspyrnu en hann sagði upp störfum fyrir lokaleik liðsins í Ameríkubikarnum í fyrrinótt. Jamaíka tapaði þá 3:0 fyrir Venesúela en átti fyrir leikinn ekki möguleika á að komast áfram. Til stóð að Heimir myndi þjálfa jamaíska liðið framyfir HM 2026.