Þakkir Jeannette Menzies sendiherra Kanada færði Hrafnhildi, til vinstri, 
bókina Sprakka eftir Elizu Reid forsetafrú, fyrir ánægjuleg samskipti.
Þakkir Jeannette Menzies sendiherra Kanada færði Hrafnhildi, til vinstri, bókina Sprakka eftir Elizu Reid forsetafrú, fyrir ánægjuleg samskipti. — Morgunblaðið/Steinþór Guðbjartsson
Hrafnhildur Vilhelmsdóttir hefur starfað fyrir sendiherra og þjónað gestum sjö sendiráða í Reykjavík í aukavinnu undanfarin 27 ár. Þjónusta í garðveislu hjá Jeannette Menzies sendiherra Kanada í liðinni viku var síðasta starfið.

Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is

Hrafnhildur Vilhelmsdóttir hefur starfað fyrir sendiherra og þjónað gestum sjö sendiráða í Reykjavík í aukavinnu undanfarin 27 ár. Þjónusta í garðveislu hjá Jeannette Menzies sendiherra Kanada í liðinni viku var síðasta starfið. Hún var fastur starfsmaður forsætisráðuneytisins í sjö ár og sá þá meðal annars um kaffi og veitingar á ríkisstjórnarfundum 2000 til 2007, þegar hún fór á eftirlaun. „Nú er kominn tími til að slaka á enda er ég orðin 83 ára.”

Áður en Hrafnhildur hóf störf hjá breska sendiráðinu 1997 rak hún snyrtivöruverslunina Sápuhúsið og síðar Sælgætis- og konfektbúðina á Laugavegi. „Eftir að ég seldi konfektbúðina sá ég fyrir tilviljun auglýsingu frá breska sendiráðinu þar sem óskað var eftir aðstoð við að þjóna í veislum á heimili sendiherrahjónanna. Ég sótti um, fékk starfið og eitt leiddi af öðru. Ég þurfti að vinna fyrir mér og því var starfið ekki köllun sem slíkt en það var skemmtilegt.”

Konur sækja á

Lengi vel voru eingöngu karlar sendiherrar. Sigríður Snævarr var fyrsta íslenska konan sem skipuð var sendiherra, þegar hún tók við starfinu í Svíþjóð 1991. „Þegar ég byrjaði í breska sendiráðinu voru bara karlar sendiherrar í erlendum sendiráðum í Reykjavík,” segir Hrafnhildur. Hún bætir við að mikill samgangur og samskipti hafi verið á milli sendiráðanna. Eiginkonur sendiherranna hafi gjarnan skipulagt veislur og annað slíkt og ráðið þjónustufólk til að þjóna og sinna gestum. Þær hafi verið vinkonur og hist reglulega, til dæmis í bókaklúbbum og veislum. Hún hafi því kynnst þessum konum og fljótlega verið beðin að taka að sér þjónustustörf í öðrum sendiráðum. „Ég hef samtals unnið fyrir um 30 sendiherra og nú eru yfir tíu konur sendiherrar hérna.”

Hrafnhildur segir að gaman hafi verið að kynnast öllum þessum sendiherrum sem séu upp til hópa afskaplega elskulegt fólk. „Þetta er fjölbreyttur og skemmtilegur hópur og sérstaklega hefur verið gaman að kynnast öllum þessum konum sem hafa tekið við stjórninni í sendiráðunum. Karlarnir voru mest á skrifstofunni og ég kynntist þeim minna.” Ánægjulegt sé líka að sjá að í hópi íslenskra sendiherra séu fyrrverandi samstarfsmenn í forsætisráðuneytinu. Ólafur Davíðsson hafi verið ráðuneytisstjóri allan sinn tíma og síðan orðið sendiherra. „Hann var afskaplega elskulegur og góður drengur. Sama má segja um strákana Albert Jónsson og Kristján Andra Stefánsson, sem unnu í ráðuneytinu, þáðu kaffi hjá mér og eru nú sendiherrar.”

Þrátt fyrir að hafa unnið í mörgum sendiráðum samtímis segir Hrafnhildur að veislur hafi aldrei rekist á. „Yfirleitt er frekar rólegt á sumrin en síðan er þetta töluverð törn á veturna.” Ekki hafi verið erfitt að hætta, því hún hafi verið búin að ákveða það. Aðalatriðið sé að hún sé sátt. Lykilorðin í svona starfi séu þagmælska og trúnaður og hún hafi haft þau í heiðri. „Ég er alltaf varkár og hef lagt áherslu á að umgangast sendiherra, starfsfólk þeirra og gesti án þess að blaðra um það eða annað og haldið fullum trúnaði við það. Þagmælskan er númer eitt, tvö og þrjú.”