Hveragerði Mikið hefur verið byggt 
þar og í nágrannasveitarfélögum.
Hveragerði Mikið hefur verið byggt þar og í nágrannasveitarfélögum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Gríðarmikil uppbygging hefur átt sér stað í sveitarfélögunum fyrir austan fjall síðastliðin tíu ár, þ.e. í Hveragerði, Ölfusi og Árborg.

Óskar Bergsson
oskar@mbl.is

Gríðarmikil uppbygging hefur átt sér stað í sveitarfélögunum fyrir austan fjall síðastliðin tíu ár, þ.e. í Hveragerði, Ölfusi og Árborg. Alls hafa verið reistar hátt í 2.700 íbúðir á þessum tíma og íbúum hefur fjölgað um 6.300 manns. Íbúafjöldi svæðisins er í dag um 17.500, þar af um 11.500 í Árborg.

Mest hefur verið byggt af einbýlishúsum, par- og raðhúsum. Bygging íbúða í fjölbýlishúsum hefur síðan aukist á undanförnum árum. Í Árborg er búið að byggja 1.500-2.000 íbúðir og hefur íbúum fjölgað um 4.300, eða 35%. Í Hveragerði er búið að byggja 376 íbúðir og íbúum fjölgað um 1.000 eða um 42%. Í Þorlákshöfn er búið að byggja 348 íbúðir og íbúum hefur fjölgað um 1.000 eða um 30% frá 2019

Hagstætt húsnæði og leikskólapláss

Bragi Bjarnason bæjarstjóri í Árborg segir skýringuna vera hagstæðara íbúðaverð en á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélagið hafi þurft að fara í mikla innviðauppbyggingu sem reynt hafi verulega á fjárhagsstöðuna.

Pétur G. Markan bæjarstjóri í Hveragerði segir sveitarfélagið vera með skýra sýn á hvernig umhverfið eigi að vera og byggðin sé látin taka mið af séreinkennum Hveragerðis.

Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss segir að í Þorlákshöfn finni fólk hagstætt húsnæði, nægt leikskólapláss, öfluga skóla, fjölbreytt íþróttalíf og fleira sem skapi aðdráttaraflið. Hann furðar sig á því hvernig ákveðin sveitarfélög hafa komist upp með að leggja á nýja skatta sem kallast ýmist lóðaverð eða innviðagjöld.