Margt er kúnstugt við þær kosningar sem nú standa yfir

ESB-kosningar urðu fyrstar í röðinni þegar kosningaveislan byrjaði. Má segja að þar hafi smáþúfa velt þungu hlassi, því að þær kosningar hafa að jafnaði sáralítil áhrif eða engin og fara oftast hjá í felulitunum. En nú brá svo við að Emmanuel Macron forseti Frakklands móðgaðist mjög þegar að hann áttaði sig á að flokkur Marine Le Pen var orðinn helmingi stærri á Evrópuþinginu en flokkur sjálfs forseta Frakklands. Klukkustund eftir að Macron fékk þessa niðurlægjandi frétt, hafði hann sent þjóðþingið í sveitina og boðað kosningar innan skamms og það frekar tvennar en einar.

Fyrri kosninguna vann gyðjan Marine Le Pen með töluverðum yfirburðum og vann meira en aðrir þá því hún fékk yfir 30 þingmenn, sem þurftu ekki að leita á þau mið í seinni umferðinni. Það var engu líkara en að kosningarnar væru enn að leika sér að forsetanum, því að flokkur hans tryggði sér aðeins tvo þingmenn, sem þurftu ekki að sækjast eftir þingsæti í seinni umferðinni.

En nú hafa flokkur forsetans og bandalagsflokkar hans á vinstri kantinum ákveðið að beita brögðum í seinni umferðinni, með því að beita sömu aðferðum og gert var nýlega hér á landi, og nýttist svo vel, þegar brýnast alls þótti vera að bregða nú fæti fyrir Katrínu Jakobsdóttur. Það bragð hefur mörg nöfn, „tæknikosning,” „klofbragðið” eða „að kjósa með klókindum-afbrigðið” sem hvergi er bannað, en kosningakerfið gerði þó ekki beint ráð fyrir því. En það gengur út á að kosið sé „taktískt”. Þá er skorað á trygga kjósendur annarra flokka, sem ekki styðja flokk Marine Le Pen, að þeir í „þágu heildarhagsmuna” reyni í seinni atkvæðagreiðslunni að kjósa flokka sem þeir eiga ekki endilega margt sameiginlegt með og stundum minna en ekki neitt, þar sem þeir leggja fæð á suma þeirra. En réttlætingin er sú, að flokkur Marine Le Pen sé verri en allt sem vont er. Þetta gekk upp hér á landi, en það er þó ekki endilega víst að það muni gera það nú í baráttunni við Le Pen, þegar hún er komin á svona líka siglingu.

En í biðröð vegna kraðaks kosninga nú eru Bretarnir komnir í fyrsta sætið, því að þar er kosið á morgun. Eitthvað hefur dregið saman með erkióvinunum, Íhaldsflokknum og flokki verkamanna, frá því að bilið var mest og svo er hinn nýi flokkur Farage ekki mjög langt undan. En hvað sem öllu því líður er enn líklegt að Íhaldsflokkurinn fái mjög mikla útreið, en Verkamannaflokkurinn muni á ný njóta „Blair-ævintýra” frá 1997, en hann er eini leiðtogi þess flokks til að vinna þrennar kosningar í röð og sitja lengi á valdastóli. Ekki er víst og varla líklegt að Starmer formaður nái slíkum árangri.

Og svo eru það kosningarnar í Bandaríkjunum, sem er stutt í, að sögn Kanans, en eru þó heilir fjórir mánuðir. Eftir kappræður þeirra Bidens og Trumps leit næstu daga þannig út, að alls konar stórveldi tengd Demókrataflokknum sæju nú sitt óvænna um Biden. „Stórblaðið New York Times,” eins og það var kallað í áratugi í Morgunblaðinu, tilkynnti í leiðara sínum að óhjákvæmilegt væri að Biden hyrfi frá áformum um að verða í framboði. Fjöldi annarra áhrifamanna í sama flokki tók þá í sama streng. Í almennri umræðu í fjölmiðlum og sérstaklega í sjónvarpi var talað eins og þetta væri frágenginn veruleiki.

Biden boðaði fjölskyldu sína í Camp David (sem heitir eftir barnabarni Dwights D. Eisenhowers, 34. forsetans) og var niðurstaða þess fjölskyldufundar, frá Hunter og niður úr, að Biden færi hvergi. Þá loks áttuðu NYT og fleiri spekingar sig á því að kerfið væri það, að Biden einn réði því í raun og veru hvort hann yrði eða færi. Þá loks áttaði „stórblaðið” sig á að lokadómur þess í málinu væri því að mestu óviðkomandi.