Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Skýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir júnímánuð er fróðleg aflestrar. Staðan á húsnæðismarkaði er fyrstu kaupendum og lágtekjufólki erfið.

Þórunn Sveinbjarnardóttir
tsv@althingi.is

Skýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir júnímánuð er fróðleg aflestrar. Staðan á húsnæðismarkaði er fyrstu kaupendum og lágtekjufólki erfið. Ungum kaupendum heldur áfram að fækka. Það er sannkölluð öfugþróun. 85% íbúða á markaði á höfuðborgarsvæðinu eru verðlögð á meira en 60 milljónir króna. Það sér hver manneskja að einstaklingur eða par á þrítugsaldri reiðir útborgun í slíkri íbúð ekki fram hjálparlaust og á í ofanálag erfitt með að fá greiðslumat hjá lánastofnunum. Efnahagsumhverfið er ekki hagfellt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, stýrivextir búnir að vera 9,25% í tæpt ár og verðbólgan enn rúmlega 6%.

Fyrir fjórum árum var meðalverð 3ja herbergja íbúðar 44 milljónir króna. Það hefur hækkað um helming og er nú 66 milljónir króna. Meðalverð fermetra í nýju húsnæði á höfuðborgarsvæðinu er 844 þúsund krónur. Ofan á þetta bættist samkvæmt skýrslu HMS að rúmlega fimmtungur íbúða er seldur á yfirverði. Framboð hefur aukist á milli ára en hefur ekki áhrif til lækkunar verðs. Þá vekur athygli að lúxusíbúðum á húsnæðismarkaði, sem kosta meira 150 milljónir króna, fer fjölgandi. Það virðist góð spurn eftir þeim.

Staða leigjenda veldur miklum áhyggjum. Vísitala leiguverðs hækkar um 13,3% á milli ára á sama tíma og vísitala húsnæðisverðs hækkar um 8,4%. Það eru 34 þúsund heimili á leigumarkaði og mörg í þeim hópi með lágar tekjur. Margir á leigumarkaði eygja enga von um að geta tryggt húsnæðisöryggi sitt með íbúðakaupum. Sum þeirra hafa hvorki áhuga á né forsendur til að gerast kaupendur. Þau eiga skilið húsnæðisöryggi á leigumarkaði, líkt og þekkist í nágrannalöndunum. HMS segir 2.500 Airbnb-leigueiningar á höfuðborgarsvæðinu, þar af 2.200 íbúðir. Helmingur þeirra er í skammtímaleigu á 90 daga reglunni. En tæplega þúsund heimagistingaríbúðir eru í langtímaútleigu og setja sinn þrýsting á húsnæðismarkaðinn.

Það vekur sérstaka athygli að þessi misserin er kaupendahópurinn síður háður fjármögnun á íbúðalánamarkaði. Þeir eru fjármagnseigendur. Enn er spurt „hverra manna ertu?” á Íslandi. Fjárhagslega sterkir foreldrar styðja uppkomin börn sín til kaupa eða kaupa jafnvel fyrir þau fyrstu íbúðina. Innbyggður ójöfnuður í húsnæðiskerfinu flyst þannig á milli kynslóða. Í þessu ljósi vekur athygli að allt síðasta ár voru um 180 lán veitt í hlutdeildarkerfinu sem er sérstaklega hugsað fyrir fyrstu kaupendur. Það dugar engan veginn. Til að rétta af ójöfnuðinn í húsnæðiskerfinu þarf skýr inngrip stjórnvalda með auknum stofnframlögum til almenna íbúðakerfisins, fjölgun hlutdeildarlána og miklu betri húsnæðisstuðningi við leigjendur og nýja kaupendur. Annars á ungt fólk ekki séns á húsnæðismarkaði en húsnæðisöryggi er eins og allir vita forsenda velferðar.

Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands.

Höf.: Þórunn Sveinbjarnardóttir