María Jóhanna Lárusdóttir fæddist í Reykjavík 14. október 1946. Hún lést á bráðadeild Borgarspítalans í Reykjavík 20. júní 2024.

Foreldrar Maríu voru Lárus Pálsson leikari, f. 1914, d. 1968, og Mathilde Marie Ellingsen, f. 1912, d. 1980.

Hálfbræður Maríu eru Othar Smith, f. 1937, d. 2019, og Paul R. Smith, f. 1940.

María fæddist á Víðimelnum í Reykjavík og gekk í Melaskóla fyrstu árin en svo lá leiðin í Kvennaskólann í Reykjavík þaðan sem hún lauk gagnfræðaprófi. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og BA-prófi í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1971.

María giftist Ólafi Ragnarssyni hæstaréttalögmanni árið 1968 og eignuðust þau þrjá syni: 1) Lárus Páll lögfræðingur, f. 28.12. 1968. Sonur Lárusar og Jóníar Jónsdóttur er Freyr, f. 2013. 2) Ragnar Ólafsson húsasmíðameistari, f. 19. júlí 1971. Sonur Ragnars og Guðrúnar Margrétar Jóhannsdóttur er Flóki, f. 1995. Dætur Ragnars og Lilju Marteinsdóttur eru Rebekka Sól, f. 2007, og Viktoría Nótt, f. 2009. 3) Ólafur Björn tónlistarmaður, f. 7. febrúar 1978. Börn Ólafs og Maríönnu Clöru Lúthersdóttur eru Dýri, f. 2011, og Mía Snæfríður, f. 2016.

María var virk í friðarhreyfingu og kvenréttindabaráttu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Hún var einn af stofnendum friðarhreyfingarinnar Uppeldi til friðar sem og Friðarhreyfingar íslenskra kvenna árið 1983. Þá var hún einn af stofnendum Kvennaframboðsins og Kvennalistans. María var varaþingmaður Kvennalistans og sat nokkrum sinni á þingi. Þá tók hún einnig sæti í Útvarpsráði fyrir hönd Kvennalistans.

María Jóhanna kenndi íslensku við Verzlunarskóla Íslands nær alla sína starfsævi á árunum 1972 til 2007.

María og Ólafur bjuggu lengst af á Klapparási 6 í Seláshverfi Árbæjar en frá árinu 2014 bjó María á Hjúkrunarheimilinu Mörk.

Útförin fer fram í Háteigskirkju í dag, 3. júlí 2024, klukkan 13.

Himinninn var grár og skuggalegur 19. júní eins og oft þegar tilkynning kemur í fréttum að fara varlega og viðkvæmir skuli halda sig innandyra vegna goss frá Suðurnesjum. Esjan var samt þokkalega hrein, það fjall sem ég dáist að og sé út um gluggann minn.
Ég fann að eitthvað var öðruvísi og fann mig knúna til þess að heimsækja mágkonu mína í hádeginu. Hún tók á móti mér með sínu fallega brosi en föl og kaldsveitt. Ég tók utan um hana og við föðmuðumst, héldum hvor utan um aðra dágóða stund. Eins og endranær var ekkert að, jákvæð og æðrulaus með sína áraraða sjúkdómssögu sem ég tel ekki upp hér. Daginn eftir hringir Ólafur maki hennar og bróðir minn og segir mér að hún hafi kvatt klukkan þrjú um nóttina 20. júní!
Hanna Maja var falleg, góð, vel greind, skemmtileg með góðan húmor og að sjálfsögðu vel menntuð. Hún var vinsæll íslenskukennari við Verslunarskóla Íslands. Hún átti stóran vinahóp, var mjög pólitísk, var ein af stofnendum Kvennalistans með meiru. Á þessum tíma var barátta um kvenréttindi sem og fyrr sem karlheimurinn víða átti erfitt með að skilja. Ólafur stóð þétt við hennar hlið. Fundir voru iðulega á heimili þeirra þar sem Óli lagaði kaffi. Þetta voru góðir, uppbyggjandi og skemmtilegir tímar.
Við systkini og makar áttum góðar stundir, hittumst reglulega þau ár sem heilsan leyfði og fórum í ferðalög. Ein ferð er mér sérstaklega í minni. Þá var frænka frá Vancouver-eyju stödd hér. Farið var í Veiðivötn. Við lentum í sjálfheldu á hálendinu og vorum hrædd um að jeppinn myndi velta. Þá heyrðist syngjandi rödd Hönnu Maju: „We will overcome some day” og allir tóku undir. Við komumst á leiðarenda og við dömurnar lögðumst í sandinn við vatnið og stóðum á haus í um hálfa mínútu. Liðugar þá!

Dag í senn, eitt andartak í einu
eilíf náð þín, faðir gefur mér.
Mun ég þurfa þá að kvíða neinu
þegar Guð minn fyrir öllu sér?
Hann sem miðlar mér af gæsku sinni
minna daga skammti af sæld og þraut
sér til þess að færa leið ég finni
fyrir skrefið hvert á lífs míns braut.

(Sigurbjörn Einarsson)

Elsku Óli minn, Lárus Páll, Ragnar, Óli Björn, makar og barnabörn. Megi góðir vættir fylgja ykkur og hjálpa í því sorgarferli sem fylgir missi. Börn mín og fjölskylda votta innilega samúð sína. Minning góðrar konu mun lifa í hjörtum ykkar/okkar.

Oddný M. Ragnarsdóttir.

Látin er kær svilkona mín eftir langa baráttu við sjúkdóm sem herjað hefur á hana í fjölda ára og hafði loks betur aðfaranótt 20. júní sl. Eins og gefur að skilja höfðu veikindin mikil áhrif á fjölskyldu hennar og samferðafólk. Hún átti svo sannarlega góða að og fjölskyldan stóð við bakið á henni allan tímann.
Hanna Maja var glaðlynd og bjartsýn. Hún var félagslynd og áhugasöm um menn og málefni. Hún laðaði að sér fólk og var vinamörg. Hún var sjarmerandi og skemmtileg og það var alltaf gaman að hitta hana því húmorinn var aldrei langt undan.
Sjúkdómur tók að gera vart við sig skömmu eftir miðjan aldur. Langan tíma tók að finna um hvers konar sjúkdóm var að ræða. Þá datt engum í hug að hlutskipti Hönnu Maju yrði að búa á hjúkrunarheimili – Hjúkrunarheimilinu Mörk – þar sem hún naut góðrar umönnunar það sem eftir var ævinnar. Hún tók hlutskipti sínu með æðruleysi og ró.
Hanna Maja var mjög góð vinkona mín. Við sátum stundum saman og drukkum kaffi og ræddum um málefni kvenna sem voru okkur báðum hugleikin. Hún var framsækin og áræðin og ekki hrædd við að segja sína skoðun á málefnum sem hún brann fyrir. Mér var hún trygg og góð vinkona sem gott var að eiga að. Hún helgaði líf sitt baráttu kvenna og lét ekki sitt eftir liggja þegar kom að þeim sem minna máttu sín. Hún var mér mikill innblástur og styrkur þegar á móti blés. Það er mér svo sannarlega mikil gæfa að hafa átt samleið með Hönnu Maju og njóta vináttu hennar.
Hugurinn fyllist sorg og söknuði þegar ég kveð Hönnu Maju. En minningin um hana mun ætíð lifa í hjörtum okkar sem eftir lifum.
Ég sendi fjölskyldu hennar mínar dýpstu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Dóra Steinunn Ástvaldsdóttir.

Komið er að kveðjustund eftir 65 ára samfylgd og vináttu sem aldrei bar skugga á. Eftir fyrsta skóladag í Kvennaskólanum haustið 1959 hittum við Hönnu Mæju í fyrsta sinn. „Má bjóða ykkur í afmælið mitt 14. október?” Smá skrítin fannst okkur og kom okkur í opna skjöldu en 14. október reyndist skemmtilegur dagur og traust vináttubönd voru hnýtt fyrir lífstíð. Hanna Mæja var skemmtileg og heillandi manneskja, trú og trygg en einnig skeleggur talsmaður allra sem á einhvern hátt stóðu höllum fæti. Átta ára kallar hún úr öftustu röð: „Það er sæti hérna.” Fullur þakklætis man nýi nemandinn þetta enn 70 árum síðar. Ef einhver var beittur órétti í kennslustofunni gátum við hinar treyst á að Hanna Mæja stæði upp og berðist fyrir hinum „rétta málstað”. Hún sá alltaf sólargeisla hvernig sem viðraði og húmorinn brást henni aldrei.
Æskuheimilið var fjörugt menningarheimili en líka áskorun. Við munum laugardagskvöld þegar faðir hennar kom heim úr leikhúsinu. Við sátum við hannyrðir eins og kvennaskólastúlkum sæmdi en Lárus tók sér ljóðabók í hönd og síðan hófst mögnuð menningarstund. Eftirminnileg er ferð að Bifröst í Borgarfirði þar sem Hanna Mæja var í sumarvinnu. Vinkonunum var boðið með og á leiðinni fór Lárus með kvæði Tómasar um Hönnu litlu: „Hanna litla! Hanna litla! / Heyrirðu ekki vorið kalla?” Alþjóð þekkir kvæðið og flutninginn en þarna í bílnum var listfengið hafið í æðra veldi því hin eina sanna Hanna Mæja sat við hliðina á flytjandanum og gæddi stundina ógleymanlegum töfrum.
Árin í Menntaskólanum á Akureyri voru dýrmætur gæðatími. Þar lét hún að sér kveða í félagsmálum, flutti m.a. hátíðarræðu 1. desember 1965 í skautbúningi. Þegar hún hitti Óla sinn snemma á háskólaárunum hafði hann lokið lögfræðinámi nokkrum árum fyrr. Örlögin höguðu því þannig að allar fjórar gengum við í hjónaband á einum mánuði sumarið 1968. Hanna og Óli kunnu listina að rækta vini sína. Alls konar hópar mættu heim til þeirra í Klapparásinn til að leysa lífsgátuna og til að hryggjast og gleðjast. Kvennalistinn með Hönnu Mæju sem einn af stofnendum átti þar oft bækistöð.
Veikindi vörpuðu skugga á hið frjóa og gjöfula líf Hönnu Mæju síðustu árin. Alvarlegir fylgikvillar komu fram eftir heilahimnubólgu sem hún hafði fengið um tvítugt. Þá lágu eftir hana mikil afköst við íslenskukennslu í Verslunarskóla Íslands, öfluga þátttöku í fjölbreyttum félagsstörfum sem leiddu til setu bæði í borgarstjórn og á Alþingi, svo ekki sé minnst á móðurhlutverkið og húsmóðurhlutverkið sem hún rækti með heitu hjarta. Veikindin voru þungbær en slökktu aldrei neista persónutöfranna né mannkostanna. Og áfram sá Hanna Mæja sólina hvernig sem viðraði. Ást og vinátta sonanna skipti þar sköpum, og Óli var kletturinn sem aldrei gaf eftir. Þau sóttu menningarviðburði, leikhús, tónleika og oft var borðað á Jómfrúnni.
Við kveðjum yndislega vinkonu með söknuði og djúpu þakklæti fyrir gjöfula samferð en einnig með virðingu fyrir allt það sem hún fékk áorkað hvar sem hún kom að verki.

Fríða, Björg og Bryndís.

Mér stendur ljóslifandi fyrir hugskotssjónum þegar ég sá Hönnu Maju í fyrsta skipti. Það var 1983 á fundi hjá Kvennaframboðinu í Reykjavík á Hótel Vík. Inn sveif glæsileg heimskona í ljósbrúnum Burberry-frakka. Eitthvað í framkomu hennar og yfirbragði benti til þess að þar færi engin venjuleg kona.
Við urðum strax góðar vinkonur og áttum eftir að ferðast mikið saman innan lands og utan. Sex sumur héldum við ásamt Ingibjörgu Hafstað og fjórum börnum okkar suður á bóginn. Þetta voru ævintýraferðir. Samband hennar og Óla Björns yngsta sonar hennar var einstaklega fallegt. Milli þeirra ríkti gagnkvæm virðing og þau voru iðulega í heimspekilegum samræðum um lífið og tilveruna.
Hún hafði ríka frásagnargáfu og húmor og lagði út af hvunndagslegum atburðum þannig að úr urðu hinar kostulegustu sögur. Hún var vinsæl og mikið hlegið í hennar félagsskap.
Hanna Maja hélt þétt utan um sitt fólk og þau Óli áttu fallegt heimili. Oft funduðum við þar. Mér er minnisstætt þegar þar var rætt hvort Kvennaframboð ætti að bjóða fram til Alþingis 1983. Skoðanir voru skiptar. Í huga Hönnu Maju var enginn vafi. Við yrðum að bjóða fram til þings. Hennar rök voru að þingleiðin myndi greiða götuna enn frekar fyrir baráttumálum kvenna. Lögum þyrfti að breyta og einnig umræðunni á þinginu. Fylgið í sveitarstjórnarkosningum benti einnig til þess að við ættum hljómgrunn. Við buðum fram og orð hennar sönnuðust.
Hanna Maja var femínisti í orðsins fyllstu merkingu, sem endurspeglaðist í skoðunum hennar og afstöðu til lífsins. Hún var frjó í hugsun og mikill femínískur hugmyndafræðingur sem vildi komast upp úr hjólförunum. Hún innleiddi hugtakið skilgreiningardauði. Hún taldi að það væri stöðnun að skilgreina hlutina út í hörgul. Hugtak eins og kvenfrelsi yrði aldrei skilgreint í eitt skipti fyrir öll, það bæri í sér skilgreiningardauða. Alltaf ætti að endurskoða málin, finna ný hugtök, þróa áfram hugmyndir og kenningar.
Hún var ófeimin við að taka viðteknar hugmyndir til gagngerrar endurskoðunar. Á þessum tíma var mikil dýrkun á tækninni í umhverfismálum. Hanna Maja taldi að tæknin hefði þegar ýtt okkur út á ystu nöf. Nú væri komið að því að húmanistar leiddu umræðuna, skoða þyrfti siðferðilegar hliðar málsins og mikilvægi náttúruverndar.
Hanna Maja var friðarsinni, var ein af stofnendum Uppeldis til friðar og Friðarhreyfingar íslenskra kvenna, árið 1983. Sama ár gekk hún frá New York til Washington í friðargöngu norrænna kvenna.
Hún sat nokkrum sinnum á þingi fyrir Kvennalistann. Þar flutti hún m.a. frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Lagði hún til að sveitarstjórnir gætu efnt til atkvæðagreiðslu um einstök mál og boðað til borgarafunda um málefni sveitarfélagsins. Nú þykir það sjálfsagt.
Það er mikill missir að elsku Hönnu Maju sem nú er farin frá okkur og hennar verður sárt saknað. Mestur er söknuðurinn hjá fjölskyldunni, Óla og sonunum þremur, sem alltaf styðja hver annan.

Kristín Jónsdóttir.

Hanna Mæja er ein af einstökum og eftirminnilegum vinkonum mömmu sem við hugsum alltaf til með hlýju. Hún hafði góðan húmor og sagði mjög skemmtilega frá. Hún bjó í Árbænum eins og við fjölskyldan og kom með fallegustu kransakökur sem við höfum séð í fermingarnar okkar, skreyttar blómum úr vel hirtum garðinum hennar.
Við kynntumst henni best þau sex sumur sem við fórum í frí saman á meðan við vorum í grunnskóla og byrjun menntaskóla. Þegar hún, mamma og Imba (Ingibjörg Hafstað) fóru með fjögur börn, okkur systkinin, Óla Björn og Þórunni, í frí erlendis. Óli, maður Hönnu Mæju, var yfirleitt með okkur síðustu vikuna í fríinu. Þetta voru dásamleg frí með Litla ferðaklúbbnum eins og við kölluðum okkur. Við fórum m.a. til Mallorca, Egyptalands, Ísraels, Svarfaðardals, Costa del Sol, Þýskalands, Grikklands og Portúgals. Og Hanna Mæja var félagsskapur sem maður sótti í, með sínar skemmtilegu sögur og smitandi hlátur.
Við eyddum miklum tíma á ströndinni á þeim stöðum sem það var hægt. Prufuðum sjóskíði, sjósleða, lágum á vindsængum eða stungum okkur í öldurnar. Risastóru öldurnar í Portúgal eru sérstaklega minnisstæðar. Við krakkarnir gátum verið tímunum saman að stinga okkur í þær dag eftir dag eða synda með þeim aftur í land. Þarna kynntumst við yndislegu fólki, æskuvinum og hugsjónum sem allt mótaði okkur fyrir lífið.
Á kvöldin í þessum ferðum var yfirleitt setið á veitingastöðum þar til búið var að ganga frá öllum stólum og borðum nema okkar og þjónarnir farnir að líta á okkur bænaraugum með von um að við myndum segja þetta gott. Mömmur okkar höfðu bara alltaf svo mikið að tala um og við krakkarnir sátum með þeim og hlustuðum á sögurnar eða fórum í pool eða pílukast. Stundum grétu þær örlítið og Hanna Mæja kallaði það „að tappa af sér eftir veturinn”. Síðan fylgdi bros og hlátur í kjölfarið. Það var alltaf stutt í brosið hjá henni og allt þetta hjálpaði manni að læra á sínar eigin tilfinningar.
Fyrir svefninn voru stundum sagðar kvöldsögur (það voru engir farsímar komnir til sögunnar). Imba las fyrir okkur sögu eftir Dostojevskí og Hanna Mæja Litla prinsinn sem var í sérstöku uppáhaldi hjá henni. Þessar ferðir eru allar sveipaðar ævintýraljóma því félagsskapurinn var svo góður. Þar lék Hanna Mæja stórt hlutverk enda með eindæmum skemmtileg og sjarmerandi kona. Minningarnar um hana og galdrarnir í loftinu þegar hún var nálægt gleymast aldrei. Við verðum alltaf þakklát fyrir þann ógleymanlega tíma sem við áttum saman. Hvíl í friði elsku Hanna Mæja og við vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Arna Björk Jónsdóttir og Örvar K. Jónsson

Við Hanna Maja kynntumst 1982, áttum syni í sama skóla, vorum nágrannar. Hún hvatti mig til að slást í hóp Kvennaframboðs sem ég hafði þegar gert en ekki haft mig í frammi. Hún var hress, glaðleg og gestrisin, heimili hennar alltaf opið þegar þurfti að ræða málin eða gleðjast. Og brátt var undirbúningur að Kvennalista hafinn og þá þurfti oft að funda. Hanna Maja var eindregin kvenfrelsiskona, hugmyndarík, frjó, með kímnigáfu, hláturmild og skemmtileg. Lífsreynslan hafði fært henni djúpan skilning á mannlegri náttúru og hún var fordómalítil og hjartahlý. Hún var góður kennari. Kvennalistinn varð til og fékk þrjár konur kosnar á Alþingi vorið 1983. En þetta var ekki bara þegar þörfin fyrir aukið frelsi kvenna var knýjandi, þetta var einnig á dögum kalda stríðsins og kjarnorkuvopnakapphlaupið milli hernaðarbandalaganna vakti ugg og jók kvíða margra, ekki síst barna og unglinga. Við höfðum báðar miklar áhyggjur af þróun mála og gerðum okkur grein fyrir því að friðurinn byrjar hjá þér sjálfri, þú getur ekki ferjað frumkvæðið til annarra. Við fréttum af norrænni friðargöngu þar sem mótmæla átti byggingu, tilraunum og dreifingu kjarnorkuvopna um víða veröld, og sérstaklega því að Bandaríkin (BNA) sendu nýjar eldflaugar til Þýskalands, og slógumst í hópinn. Í byrjun ágúst 1983 hittust um 103 norrænar konur í New York og nokkrir karlar. Markmiðið var að ganga um 500 km frá NY til Washington. Norrænar konur höfðu gengið frá Kaupmannahöfn til Parísar 1981 og Stokkhólmi til Moskvu 1982 í sama tilgangi. Ýmsar friðarhreyfingar og kirkjudeildir í BNA tóku þátt í skipulagi göngunnar og var gist í safnaðarheimilum, kirkjum, skólum, heimilum fólks eða jafnvel undir beru lofti. Gangan var skrautleg, litrík og glaðleg, syngjandi konur klæddust fagurlega skreyttum kjólum með friðartáknum, fjöldi friðarfána bornir og marglitir silkiborðar, með friðarkveðjum og nöfnum vina og kunningja heima, flögruðu af bakpokum og höttum og við gáfum þá þeim sem við hittum á göngunni líka dreifimiða með upplýsingum. Tilgangur göngunnar var bæði að vekja almenning til vitundar um ógnir kjarnorkuvopna og hafa áhrif á afstöðu stjórnmálamanna. Við hittum marga á fundum víða og ýmsa stjórnmálamenn og ráðamenn eins og Perez de Cuellar og sendifulltrúa hjá SÞ. Einnig voru mörg viðtöl við ýmsa fjölmiðla þar og við hringdum inn pistla heim í RÚV. Veður var heitt og rakt og gengið um 25 km á dag. Viðbrögð fólks voru yfirleitt jákvæð, sumir vildu fræðast meira en örfáir lýstu yfir vanþóknun. Göngunni lauk svo í Washington 27. ágúst á geysifjölmennum fundi til minningar um mótmæli Martins Luthers Kings þar 20 árum áður. Þetta varð okkur báðum mikilvæg lífsreynsla. Hanna Maja veiktist fyrir 24 árum en átti gott líf þó að hreyfigeta hennar væri ekki söm. Hún lenti svo í slysi fyrir níu árum sem skerti færni hennar og flutti þá á Mörkina þar sem hún fékk góða umönnun. Þá kom vel í ljós hið góða lundarfar hennar, hún var áfram hugprúð og jákvæð, sá jafnan björtu hliðarnar. Blessuð sé minning merkrar góðrar konu.

Guðrún Agnarsdóttir.

Í dag kveðjum við einn af máttarstólpum og hugmyndafræðingum Kvennalistans Maríu Jóhönnu Lárusdóttur. Hún var líka „þokkastýra” samtakanna sem átti að sjá til þess að við litum sæmilega út í fjölmiðlum og veitti ekki af.
Það var snemma árs 1982 sem Hanna Maja sigldi undir fullum seglum, í Burberry-frakkanum, inn á Hótel Vík til að taka þátt í tilraun til byltingar – kvennaframboði í Reykjavík. Þar með varð ekki aftur snúið.
Fyrst var það kvennaframboðið og síðan var stefnan tekin á Alþingi sem Hanna Maja studdi en um það mál var ekki eining í hópnum.
Hanna Maja var vel lesinn róttækur femínisti, hugmyndarík, skemmtileg og dramatísk eins og hún átti ættir til. Þegar bækur voru bornar saman eftir alls konar kosningafundi úti í bæ var segin saga að þar sem Hanna Maja hafði verið og tekið til máls „lá salurinn” eins og hún orðaði það. Það var vinsælt að fara með henni á fundi því hún hafði margt að segja og var afar sannfærandi.
„Við erum hér til að velta um stólum,” minnti Hanna Maja okkur margsinnis á. Hún, eins og við margar, vildi sjá samfélag jafnréttis, jöfnuðar, raunverulegs lýðæðis og réttlætis, samfélag þar sem kerfinu hafði verið snúið á haus, feðraveldið kveðið í kútinn, að ekki sé minnst á hernaðarhyggjuna og ofbeldið sem nú ræður ríkjum, því miður.
Heimili Hönnu Maju og Óla var okkur alltaf opið. Þar var stundum setið við að semja stefnuskrá og þar var fundin leið til að brjótast upp úr þeim skotgröfum sem umræða um frið og öryggi var föst í á tímum þegar kjarnorkuvopn ógnuðu Evrópu. Við vildum hætta að láta herinn á Miðnesheiði stjórna allri pólitískri umræðu, þar með talið kvennabaráttunni. Málið snerist um að sameinast gegn hernaðarhyggju og vígbúnaði.
Ekki stóð á Óla að bera í okkur veitingar meðan hugmyndaumræðan geisaði. Þau voru líka mörg partíin sem haldin voru heima hjá þeim, t.d. vorið 1983 þegar við biðum frétta af tölum úr alþingiskosningunum.
Hanna Maja var oftast ofarlega á framboðslistum Kvennalistans í Reykjavík og hún tók sæti á Alþingi 1986 sem varamaður. Þar flutti hún stórmerka tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslur og almennar atkvæðagreiðslur í sveitarfélögum sem betur hefðu verið samþykktar. Það skal tekið fram að við unnum flest mál saman en oft komu góðar hugmyndir héðan og þaðan og þar lét Hanna Maja ekki sitt eftir liggja.
Flestar baráttuhreyfingar eiga sér blóma- og hnignunarskeið. Þar kom að tíma Kvennalistans lauk en endalokin voru Hönnu Maju afar sár eins og okkur fleirum. Kvennalistinn breytti lífi okkar og þrátt fyrir átök í lokin lifir vináttan og baráttuandinn enn.

Síðustu árin átti Hanna Maja við veikindi að stríða en í þeirri baráttu stóð Óli sem klettur við hlið hennar. Að lokum þökkum við Hönnu Maju fyrir dásamleg kynni, góðar stundir í kvennabaráttunni, í gleði og sorgum. Við sendum Óla og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur. Öflug baráttukona kveður þetta jarðlíf.

Kristín Ástgeirsdóttir,
Kristín Einarsdóttir.

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
Eg veit einn
að aldrei deyr:
dómur um dauðan hvern.
(Úr Há­va­mál­um)

Árið er 1985, Kvennalistinn á Vesturlandi, stofnaður á haustdögum 1984, fer í kynningarferð um sveitir Vesturlands á vordögum. Ég var þar. Um haustið komin til Reykjavíkur. Sveitastelpa sem gengur inn í Víkina, hreiður Kvennalistans. Óþekkt, feimin og utangátta. Minningin er sterk. Þar sat Hanna Mæja, í minningabrotinu er hún er sterkust allra kvennanna sem þar sátu. Sú sem heilsaði hressilega og bauð í bæinn.

Ég steig ekki oftar fæti mínum inn í Víkina en gleymi aldrei konunni með rauða hárið sem tók brosandi og fagnandi á móti ókunnugu sveitastelpunni og bauð til sætis. Á meðan Kvennalistinn starfaði kaus ég hann og Hanna Mæja var mín kona. Það er nefnilega ekki öllum gefið að taka vel á móti gestum en það kunni hún, henni var gestrisni í blóð borin. Sumir bera gæfu til að snerta líf annarra óafvitandi og það gerði Hanna Mæja, hafi hún þökk fyrir.
Seinna á lífsleiðinni birtist hún aftur í lífi mínu gegnum fjölskyldutengsl. Sá þá aftur þessa merku konu kvennasögunnar, svo glæsileg, hress og hlý eins og í minningunni. Eiginleikar sem aldrei hurfu henni þrátt fyrir langvarandi og erfið veikindi.

Elsku Lalli og fjölskylda, blessuð sé minning Hönnu Mæju, og megi allar góðar vættir vaka yfir og sefa sorg.

Þorgerður Ásdís Jóhannsdóttir.

Elsku Hanna Mæja.
Nú þegar þú hefur kvatt jörðina og ert farin á nýjan stað, þar sem þér líður vel og þú heldur áfram að skína þínu skærasta ljósi, hugsa ég til þín og okkar jarðvistartengsla.
Frá fyrsta augnabliki sem við hittumst gafst þú mér styrk og kenndir mér að sjá hlutina í jákvæðu ljósi, þú vissir alltaf hvað þú söngst.
Minningarnar með þér eru margar, fallegar og stórbrotnar.
Allar stundirnar við eldhúsborðið á Klapparásnum, þar sem við hlógum okkur máttlausar, ræddum um menningu og listir eða tókum pólitíkina í bakaríið.
Þegar við sátum á ferðatöskunum, búin að missa af fyrsta farrými, og þú tókst strax upp jákvæðu hanskana, alveg óborganleg, og sagðir okkur skemmtisögur alla leið frá Mílanó til Torríni. Fyrsta farrými alla leið mætti segja mér.
Þegar við gengum um götur Parísar þar sem okkur fannst best að sitja á fallegu kaffihúsi eða veitingastað og fylgjast með fólkinu, sem var auðvitað meira stuð en að skella sér í katakombur. Það segir sig sjálft, sagðir þú, og blikkaðir auga.
Allar yndislegu jólastundirnar, þegar eldamennska rjúpunnar var rökrædd og niðurstaðan var auðvitað alltaf sú að gamla lagið lifir. Ég smakkaði í fyrsta sinn rjúpu með þér, eldaða eftir uppskrift formæðra þinna, og það sló í gegn.
Öll fallegu augnablikin, þegar við horfðumst í augu og vissum báðar nákvæmlega hvað við vorum að hugsa, við þurftum sko engin orð hvort sem lítið eða mikið lá við.
Það var erfitt að sjá þig veikjast og missa orðin, en alltaf jafngott að halda í höndina þína og knúsa þig, alltaf svo hlý, góð og falleg manneskja.
Ég var heppin að fá tíma með þér og leiðsögn sem ég verð ævinlega þakklát fyrir. Minning þín og ljós lifir í hjarta mínu, börnum þínum og barnabörnum.
Ps: Takk fyrir rauða blómið sem þú færðir mér þegar þú kvaddir mig.
Hlýjar samúðarkveðjur til Óla, Lalla, Ragga, Óla Björns og fjölskyldna.
Þín vinkona,

Jóní.

Látin er kær vinkona og skólasystir eftir langvarandi baráttu við mikinn heilsubrest. Það er með miklum söknuði og trega sem ég kveð okkar kæru og traustu vinkonu til rúmlega 60 ára. Við Hanna Mæja kynntumst fyrst haustið 1962 þegar við 16 ára gömul hófum nám á fyrsta ári eða í 3. bekk eins og það hét þá í Menntaskólanum á Akureyri. Strax þá bundumst við vináttu- og tryggðaböndum sem aldrei hefur borið skugga á.
Hanna Mæja var frá fyrstu kynnum afar félagslynd, hafði sterka og góða kímnigáfu og einstaka leiðtogahæfileika.
Sá vinahópur sem þarna myndaðist hefur haldið tengslum alla tíð síðan. Makar bættust síðar við og með árunum varð sú tilfinning ríkjandi að við hefðum öll verið samferða í MA, svo þéttur var hópurinn.
Hanna Mæja og Óli voru ávallt höfðingjar heim að sækja og voru samhent hjón sem ræktuðu vinatengslin af kostgæfni.
Það er sárt að horfa á eftir Hönnu Mæju. Hún var okkur í hópnum mjög kær, mikil fjölskyldukona og sannur vinur vina sinna. Hanna Mæja var mikill fagurkeri sem unni fallegri tónlist og menningu. Hún hafði einnig ríka réttlætiskennd og var ötul baráttukona þegar kom að réttindum kvenna og lék stórt hlutverk í stofnun Kvennalistans á sínum tíma.
Við fráfall Hönnu Mæju er höggvið stórt skarð í okkar vinahóp og söknuðurinn er sár. Fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum með Hönnu Mæju erum við þakklát, þær ljúfu minningar munu lifa með okkur og sefa sorgina.
Elsku Óli, Lalli Palli, Raggi, Óli Palli og fjölskyldur. Megi algóður Guð gefa ykkur styrk og megi minningin um ljúfa og góða konu bregða birtu á óbærilega sorg ykkar.
Blessuð sé minning Maríu Jóhönnu Lárusdóttur.
Kristófer Þorleifsson,

einn úr MA-vinahópnum.

Fimmtán ára, ung og óhörnuð, settist ég á skólabekk í Verslunarskóla Íslands. Þar tóku á móti mér margir góðir og eftirminnilegir lærimeistarar. Fremst meðal jafningja var ung, kraftmikil, skemmtileg og glaðlynd kona sem ég kveð nú með virðingu og þökk. Þetta var hún Hanna Mæja. Hún kenndi íslensku og myndi ég segja að þarna hafi hún opnað fyrir mér töfraheima Íslendingasagnanna sem ég hef æ síðan haft mikla unun af.

En það voru ekki bara hin góðu tök hennar á því að koma efninu til skila heldur voru það ekki síður mannkostir hennar og sýn á lífið sem heilluðu mig. Hún var kvenréttindakona eða eigum við kannski frekar að segja mannréttindakona. Hún lét sér annt um velferð nemenda sinna, var kærleiksrík og mikill viskubrunnur.

Síðar átti ég eftir að kynnast þessari konu á nýjan hátt þegar við urðum samstarfskonur í Verslunarskólanum til margra ára. Þá var hún Hanna Mæja allt í einu orðin vinkona mín og fyrirmynd á margan hátt. Ég fylgdist með spennandi lífi hennar og fallegu fjölskyldunni hennar þar sem alltaf virtist ríkja gleði, einlægni og samheldni.

Þrátt fyrir erfið veikindi hin síðustu ár virtist sem hún sæi alltaf björtu hliðarnar á lífinu enda var hún umvafin elsku og umhyggju fjölskyldunnar fram á síðasta dag. Hún var einfaldlega stór manneskja og mikil fyrirmynd þessi kona.

Ég þakka fyrir að hafa átt Hönnu Mæju sem vin í gegnum lífið og geymi með mér fallega brosið hennar sem alltaf mætti manni.

Ásdís Rósa Baldursdóttir.

Ég sá hana fyrst í MA haustið 1963 þegar hún sveif inn ganginn á heimavistinni með glampa í augum og bros á vör. Hún bar með sér ferskan andblæ heimskonunnar enda alin upp í Reykjavík á gestkvæmu heimili menningar og lista.
Í heimavist skólans urðu til vinabönd sem varað hafa alla tíð. Hanna Maja varð fljótt manna vinsælust og mörg vorum við sem sóttumst eftir félagsskap hennar og vináttu. Hún hafði mikla útgeislun og hún var dásamlega skemmtileg. Kímnigáfa hennar var einstök og hún var eldsnögg í tilsvörum. Eitt sinn á leið niður í bæ að kíkja á lífið barst talið að nokkrum bekkjarfélögum sem oft sátu á KEA á bókmenntaskrafi. Ég skyldi ekki hvernig þessir strákar vissu svona mikið. „Iss Dísa,” sagði Hanna Maja „við getum nú lesið á bókakilina eins og þeir.” Karlpeningurinn þvældist aldrei fyrir Hönnu Maju hvorki þá né síðar. Hún hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. Hún var mikil kvenréttindakona og einn stofnenda Kvennalistans. Hún var ræðusnillingur og eftir því skemmtileg. Þegar mikið lá við var leitað til Hönnu Maju. Hún lagði stund á íslensk fræði við Háskóla Íslands og kenndi í marga áratugi við Verslunarskóla Íslands.
Hönnu Maju var margt gefið. Hún hafði djúpan skilning á fólki og átti auðvelt með að setja sig í spor annarra. Við hana var hægt að ræða alla hluti. Hún fann upp á ótrúlegustu hlutum til að gleðja okkur vinkonurnar. Eitt vorið rákum við Anna Sigga upp stór augu þegar upp spruttu túlípanar í öllum regnbogans litum í görðunum okkar. Þar hafði Hanna Maja okkur óafvitandi verið að verki haustið áður og potað niður ógrynni lauka. Hún var lífskúnstner og hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi. Margar voru veislurnar í boði þeirra Óla. Í einni slíkri vorum við samankomin mörg úr hópi vina. Hanna Maja fór fram í eldhús að sækja forréttinn og svo heyrðist hátt brothljóð. Það sló þögn á gestina. Þá birtist Hanna Maja brosandi í eldhúsgættinni og sagði: „Elsku vinir, nú höfum við lokið við forréttinn og komið að aðalrétti.” Svo hlógum við öll og forrétturinn gleymdur.
Ég naut samvistanna við Hönnu Maju eitt fallegt vor í Kaupmannahöfn. Við vorum báðar í námi komnar á miðjan aldur. Hanna Maja leigði pínulitla íbúð á Amager og hjólaði eins og drottning um alla borg ung í anda og drakk í sig mannlífið. Saman fórum við í skrúðgarða borgarinnar og nutum blómfegurðar trjánna. Inn á milli þurfti að hressa upp á andann rölta um slóðir gömlu skáldanna og njóta lífsins veiga.
Það er mikil gæfa að kynnast og eignast að vinum fólk eins og Hönnu Maju. Hún var kona sem auðgaði líf okkar hinna sem hana þekktu og gaf því lit og gleði.
Síðustu mörg árin voru henni og hennar nánustu erfið vegna veikinda. Öll þessi ár stóð hann Óli eins og klettur við hlið hennar og synirnir þrír, Lalli Palli, Raggi og Óli Björn, sem allir bera persónuleika mömmu sinnar fagurt vitni. Sjarmatröll allir, hver á sinn hátt.
Ég veit að vinkonan góða varð hvíldinni fegin og um hana á vel við hið fornkveðna „Orðstírr deyr aldregi”.
Herdís Einarsdóttir.

Ein af stofnendum Samtaka um kvennalista, María Jóhanna Lárusdóttir, er fallin frá. Hanna Maja var alla tíð virk og aðsópsmikil í grasrótarstarfi Kvennalistans. Hún var kvenfrelsiskona, friðar- og lýðræðissinni með djúpar rætur í íslenskum menningararfi.

Hanna Maja tók einu sinni sæti á Alþingi sem varaþingkona, haustið 1986. Í jómfrúarræðu sinni mælti hún fyrir frumvarpi um aukið íbúalýðræði í sveitarfélögum. Þar sagði hún m.a.: „Aukin valddreifing og samábyrgð er krafa samtíðarinnar og angi þeirrar hugarfarsbreytingar er hefur skotið rótum víða vegna þeirrar sameiginlegu hættu er mannkynið horfist í augu við. Nýjar leiðir til lausnar ágreiningsmála og breyttar starfsaðferðir í stjórnun eru nýjungar sem vel rekin fyrirtæki, skólar og þjónustustofnanir hafa tekið upp. Styrkur sérhverrar stofnunar felst í því að sem flestir séu þátttakendur en ekki þolendur. Það sama gildir um fjölskyldur, samfélög og þjóðir.”

Frumvarpið og ræðan endurspegla pólitískar hugsjónir Hönnu Maju þar sem hún leggur áherslu á að hvert og eitt okkar beri ábyrgð á lýðræðislegri þátttöku til að stuðla að friði og samábyrgð og hindra samþjöppun valds og auðs, sem þá eins og í dag eru öflugustu valdatækin, oftar en ekki nýtt í þágu sérhagsmuna. Hanna Maja nýtti þingsetuna vel og flutti einnig tillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur, auk fyrirspurnar um endurmat á virði kennarastarfa.

Að öllum öðrum kvennalistakonum ólöstuðum var Hanna Maja í okkar huga mesta skvísan og töffarinn. Hún var líka óskoruð þokkastýra Kvennalistans, embætti sem kom sterkt inn í kosningabaráttu og lifir með ýmsu móti áfram meðal stjórnmálakvenna. Hún var allt í senn fræðilega þenkjandi, stórskemmtileg, fluggáfuð og á stundum fullkomlega óþolandi.

Samtök um kvennalista voru ekki hefðbundinn stjórnmálaflokkur og því engin sem átti hann eins og stundum er í hefðbundnum flokkum. En Hanna Maja tryggði alltaf jarðtenginguna, við upprunann og hugsjónirnar.

Undirritaðar gengu ásamt fleiri konum til liðs við Kvennalistann snemma á tíunda áratugnum. Við létum til okkar taka, fengum mikið rými og stuðning en mættum líka, skiljanlega, andstöðu þeirra sem höfðu borið kyndilinn frá upphafi. Hanna Maja tók vel á móti okkur og lagði okkur lífsreglurnar. Hún lagði áherslu á að konur ættu að vera gerendur á eigin forsendum í stjórnmálum og hvorki láta karla né fastmótaðar hefðir stjórna vali á málefnum og aðferðum.

Að leiðarlokum kveðjum við Hönnu Maju með djúpu þakklæti. Það munaði um framlag hennar til kvenfrelsisbaráttunnar. Eiginmanni hennar, sonum og öðrum aðstandendum vottum við samúð okkar.

Drífa Hrönn Kristjánsdóttir,

Nína Helgadóttir,

Ragnheiður Sigurjónsdóttir,

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,

Steinunn Valdís Óskarsdóttir,

Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Árið 1968 giftust þau María Jóhanna Lárusdóttir og Ólafur Ragnarsson, bernskuvinur minn, eða Hanna Maja og Óli, eins og þau voru alltaf kölluð.
Ég bjó þá í Danmörku með konu minni Kirsten sem er látin fyrir löngu. Hanna Maja og Óli komu í brúðkaupsferð til okkar og þar hófst vinátta okkar Hönnu Maju sem styrktist enn frekar þegar við Kirsten fluttumst til Íslands.
Hanna Maja var íslenskukennari við Verslunarskólann í áratugi, þangað til hún veiktist. Hún tók virkan þátt í kvennabaráttunni og starfaði bæði með Kvennaframboðinu og Kvennalistanum.
Hanna Maja og Óli voru góð hjón heim að sækja. Þar bauð Hanna Maja alltaf upp á frábæran mat og ræddi um það sem efst var á baugi í samfélaginu.
Síðustu árin bjó hún á hjúkrunarheimili og var þá nokkuð af henni dregið. En ég minnist hennar glaðrar og virkrar, að tala um það nýjasta í bókmenntum og stjórnmálum – og að stjórna Óla og strákunum þeirra.

Eggert Briem.

Hanna Mæja kom inn í Kvennaframboðið eins og stormsveipur. Hún vakti athygli allra og lét strax til sín taka svo um munaði. Kraftur hennar og gleði var smitandi og það var hlustað þegar hún talaði enda frumlegur, gáfaður eldhugi; femínisti fram í fingurgóma. Óborganlegur húmoristi að auki. Hanna Mæja var ótæmandi brunnur hugmynda, sá oft óvæntar hliðar á málum og tillögur hennar oftar en ekki djarfar, frumlegar og ögrandi. Hún var afar vel lesin og fylgdist vel með umræðunni innan lands og utan og miðlaði ótæpilega af þeirri þekkingu. Hún lagði ómældan skerf til hugmyndafræði, vinnubragða og stefnu Kvennaframboðsins og seinna Kvennalistans.
Heimili Hönnu Mæju og Óla í Klapparásnum var eiginlega annað heimili Kvennalistans. Þar voru margar vistarverur og því gátu margir hópar verið að störfum ef því var að skipta og stofan rúmaði okkur allar. Auk þess átti Hanna Mæja tölvu en þær voru nú ekki á hverju strái í þá daga. Þarna voru haldnir endalausir fundir, málin rædd, skipst á skoðunum, kafað í mál og stundum þráttað, en aldrei hætt fyrr en lendingu var náð. Þarna voru frumvörp samin og tillögur af ýmsu tagi, farið með himinskautum og vakað fram undir morgun. Þegar sköpunargáfan er í algleymingi þarf ekki mikinn svefn. Alltaf voru höfðinglegar veitingar í föstu og fljótandi formi og húsfreyjan í essinu sínu, óþreytandi og gjöful bæði á veraldleg gæði og andleg. Þarna héldum við kosningahátíðir og komum saman til að gleðjast. Ég held að flestar konur sem komu til landsins til að kynnast Kvennalistanum, og þær voru margar, stundum heilir hópar, hafi notið gestrisni Hönnu Mæju, gistu jafnvel og hún var ævinlega til í að slá í partí eða fund svo þær gætu hitt okkur og við þær.
Það er svo sannarlega af nógu að taka þegar hugurinn leitar til Hönnu Mæju og væri hægt að segja margar skemmtilegar sögur ef tími og rúm leyfðu, enda var ekki lognmollan eða leiðindin þegar hún var annars vegar. Við, ásamt fleirum, fórum í eftirminnileg ferðalög, á landsfundi, vorþing og í sumarbústaði. Ógleymanlegt er þegar hún, ásamt Kristínu Jóns og Imbu, keyrði mig frá Frankfurt til Bayreuth, en þangað var ég að fara til að undirbúa mig undir Niflungahringinn. Hönnu Mæju var margt til lista lagt, en að aka bíl var ekki hennar sterka hlið. Hún ók ævinlega löturhægt. Á hraðbrautum Þýskalands ók hún á 40 km hraða og fannst öruggast að hafa hvítu línuna mitt á milli hjólanna. Það gerði ekki lukku hjá þýskum ökumönnum. En Hanna Maja haggaðist ekki og hélt sínu „hvíta” striki og komst á leiðarenda – loksins!
Hanna Mæja hvarf alltof fljótt úr hópnum vegna veikinda, en hún hvarf sannarlega ekki úr huga okkar sem nutum krafta hennar, hugmyndaauðgi, vináttu, gleði og gestrisni.
Í veikindum Hönnu Mæju vakti það aðdáun allra sem til þekktu hversu vel og fallega Óli annaðist hana. Við Arnar sendum honum og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúðarkveðjur. Þau hafa mikils að sakna, en einnig margs að minnast sem þau geta með tímanum glaðst yfir og yljað sér við.

Þórhildur Þorleifsdóttir.

María Jóhanna eða Hanna Maja eins og hún var alltaf kölluð fæddist í Reykjavík 14. október 1946 og lauk hún stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1966. Hanna Maja stundaði nám í íslensku við Háskóla Íslands og hóf svo störf við Verzlunarskóla Íslands sem íslenskukennari árið 1972 og kenndi við skólann allt til ársins 2007. Hanna Maja var einstakur karakter, sem kemur meðal annars fram í því að allir sem kynntust henni, hvort sem voru nemendur, kennarar, samstarfsmenn eða á hinu pólitíska sviði, muna allir vel eftir henni.
Hanna Maja var mjög farsæll kennari og mjög umhugað um hvoru tveggja, nemendur og íslenskuna. Hún var frumleg í sínum kennsluháttum og átti mjög gott með að glæða áhuga nemenda. Það var til að mynda ekki óalgengt að heyra Maístjörnuna sungna hástöfum í tímum hjá henni svo að vel heyrðist fram á gang. Þegar skáldsögur voru greindar í kennslustundum hjá henni voru bókaklúbbar gjarnan stofnaðir í kjölfarið, sem svo héldu áfram löngu eftir að nemendur brautskráðust.
Við minnumst Hönnu Maju með hlýhug og erum þakklát fyrir það mikla starf sem hún vann fyrir Verzlunarskólann. Innilegar samúðarkveðjur sendum við Ólafi Ragnarssyni eftirlifandi eiginmanni og fjölskyldunni allri.

Guðrún Inga Sívertsen skólastjóri.

Nú er hún Hanna Maja öll, elsku vinkona mín frá Kvennalistaárunum. Ég

hef saknað hennar árin mörgu eftir að hún hvarf í mistur veikindanna.

Hanna Maja var geislandi og skemmtileg og hún kunni að varalita sig með

því að spegla sig í gylltu lokinu á YSL-varalitnum sínum. Þegar hún “tók

blaðið frá munninum” máttu menn vara sig. Örlát var hún með afbrigðum en

slíkt fólk er ekki á hverju strái.

Hún var ein af þeim mörgu konum sem báru uppi kvennabaráttuna á Íslandi

á ofanverðri síðustu öld og sem sjaldan er minnst á á tyllidögum.

Kvennabaráttan hefur frá upphafi verið háð af fjöldahreyfingu kvenna. Það

voru ekki einstakar konur sem unnu sigrana heldur var það samstaða og

óeingjörn vinna fjölda kvenna fyrir kvenfrelsi og réttlæti sem það gerði.

Hanna Maja var ein slíkra kvenna, máttarstólpi í baráttu Kvennaframboðs og

Kvennalista á níunda áratug síðustu aldar, alltaf reiðbúin til að gera það

sem þurfti að gera, staðföst og hvetjandi. Og algjört sjarmatröll.

Ég kveð þig nú, kæra baráttusystir og vinkona. Ástvinum þínum votta ég

innilega samúð. Far þú í friði.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir

Hanna Maja var glæstur fyrirliði á skólaárum í MA og menntaði sig í íslenskugreinunum eins og margir skólafélagar okkar. Góðra stunda er að minnast, sérstaklega frá háskólaárum, kaffibolli og mas, rifjuð upp vísa eða lítil saga. Ég kveð góða vinkonu og skólasystur með orðum Huldu skáldkonu:

Á bak við blávötn og akra
rís borgin með þys og ljós
en skóggyðjan felur í faðmi
friðarins hvítu rós.

Ingi Heiðmar Jónsson.