Margrét Pálsdóttir fæddist á Skúfslæk í Villingaholtshreppi 22. febrúar 1954. Hún lést á Hrafnistu Nesvöllum í Reykjanesbæ 8. júní 2024.

Foreldrar Margrétar voru Halla Magnúsdóttir, f. 29. janúar 1934, d. 7. október 2022, og Páll Axel Halldórsson, f. 24. október 1928, d. 9. ágúst 2014. Systkini Margrétar eru: Lilja, f. 28.10. 1955, d. 4.6. 2024, Bjarni, f. 1.6. 1958, Guðríður Ingibjörg, f. 21.3. 1960, d. 22.5. 1998, og Magnús Halldór, f. 25.8. 1978.

Börn Margrétar eru: 1) Halla, f. 1976, maki Ingiberg Þór Kristjánsson, f. 1973. Börn þeirra eru: a) Arna Margrét, f. 1995, b) Ástþór Andri, f. 1999, c) Vilberg Darri, f. 2004, d) Lára Björk, f. 1994), e) Heiðrún Björk, f. 1996, f) Kristján Þórarinn f. 1999, g) Brynjar Þór, f. 2003, h) Salvar Gauti, f. 2006, i) Snorri Freyr, f. 2010. Barnabörnin eru fjögur, Natan Leó, Dagur Trausti, Isabella Rós og Díana Rós. 2) Páll Axel, f. 1978, eiginkona er Margrét Birna Valdimarsdóttir, f. 1985. Börn þeirra eru a) Gísli Matthías, f. 2007, b) Ásdís Vala, f. 2012, c) Páll Valdimar, f. 2014, d) Valur Ingi, f. 2020. 3) Ármann Örn, f. 1985, maki Árný Björk Birgisdóttir, f. 1996, dóttir þeirra er Ásthildur Yrsa, f. 2021.

Margrét fæddist á Skúfslæk en ólst upp að Syðri-Gróf í Villingarholtshreppi ásamt systkinum. Margrét fór ásamt vinkonu 19 ára á vertíð í Grindavík. Ævintýrið átti að vera stutt en það breyttist skjótt þegar hún kynntist lífinu og ástinni í litla sjávarplássinu Grindavík. Hún settist þar að og giftist Vilbergi M. Ármannssyni árið 1976. Árið 2000 skildu þau eftir 24 ára hjónaband. Lífið í Grindavík var ekkert alltaf dans á rósum og oft lítið til á milli handanna.

Lengst af bjó Magga ásamt fjölskyldu sinni að Efstahrauni 4 í Grindavík. Þar ól hún upp börnin sín, sinnti heimilisstörfum og skar af netum. Hún vann hin ýmsu verk á vegum Grindavíkurbæjar. Hún var lengi vel flokksstjóri og sá til þess að bærinn væri í blóma. Árið 2003 ákvað Margrét að hvíla sig frá bæjarvinnunni og hóf störf hjá Hérastubbi bakara og starfaði þar til 2010 þegar hún hóf störf við umönnun á heimili fyrir fatlað fólk á Túngötu og starfaði þar til 2014.

Útförin fer fram í Keflavíkurkirkju í dag, 3. júlí 2024. klukkan 13.
Margrét verður jarðsett í Grindavíkurkirkjugarði.

Nú kveðjum við mömmu og tengdamömmu.
Konu sem var okkur svo kær. Sveitastelpu af Suðurlandi sem skaust á vertíð til Grindavíkur og settist þar að. Eignaðist okkur þar og gerði okkur að þeim sem við erum í dag.
Lífið í Grindavík var ekkert alltaf dans á rósum, oft ofsalegt bras og lítið á milli handanna. En mamma sá alltaf til þess að við börnin værum í fallegum heimasaumuðum fötum og var hún mjög hreykin af sínum verkum, þótt við værum ekkert alltaf sátt við heimasaumuðu settin í stíl. Mamma var alltaf með á prjónunum. Hún prjónaði sokka á öll börn og barnabörn systkina sinna, börn og barnabörn vinkvenna og barnahóp vina okkar. Þetta var orðinn stór hópur sem hafði fengið sokka frá mömmu (Möggusokka).
Lengst af bjuggum við fjölskyldan í Efstahrauni 4 í Grindavík. Þar ól hún okkur upp, sinnti heimilisstörfum og skar af netum. Hún vann hin ýmsu verk á vegum Grindavíkurbæjar. Var lengi vel flokksstjóri og sá til þess að bærinn væri í blóma. Hún var stolt af sinni vinnu á vegum bæjarins og er það haft eftir henni og vinkonum að bærinn hafi aldrei verið jafn blómum skreyttur og á þeim tíma. Árið 2003 ákvað mamma að hvíla sig á bæjarvinnunni og hóf störf hjá Hérastubbi bakara og starfaði þar til 2010 þegar hún hóf störf á heimili í umönnun fyrir fatlað fólk á Túngötu og starfaði þar til 2014. Mamma vingaðist við heimilisbúa og voru þau í góðum samskiptum allar götur síðan.
Föstudags- og laugardagskvöldin voru heilög stund hjá mömmu því þá var á dagskrá Lífið er ljúft með Kristjáni Alberti á Útvarpi Suðurlandi og Næturvaktin á Rás 2. Mamma hafði mikla unun af því að hlusta á og fá kveðjur.
Hún var mikill tónlistarunnandi og örugglega fáir sem áttu jafn mikið magn af geisladiskum og hún en hennar eftirlæti voru Rúnar Þór, Halli Reynis, Magnús Kjartans og Stuðlagabandið.
Ljósmyndun átti alltaf hug hennar og hjarta. Mamma átti mikið safn ljósmynda sem hún tók í gegnum tíðina. Myndir hennar ættu líklega heima best á Sögusafni Grindavíkur því hún var alltaf uppi með myndavélina í gegnum sinn starfsferil, hvort sem það var á vertíð, íþróttaviðburðum eða sem bæjarstarfsmaður Grindavíkur.
Mamma var afar stolt af afkomendum sínum og var dugleg að státa sig af sínu fólki þá sérstaklega á facebook. Seinustu ár hefur facebook átt mikinn þátt í hennar lífi því hún komst lítið úr húsi vegna veikinda og einangraðist mikið í covid en þá gat hún fylgst með öllu á facebook og verið í góðum samskiptum við vini og vandamenn á messenger.
Þökkum öllum þeim sem voru dugleg að vera í samskiptum við hana mömmu seinustu ár, þökkum fólkinu á Hrafnistu í Reykjanesbæ fyrir hlýhug og góða umönnun, okkur þykir afar vænt um ykkar störf.
Þangað til næst.
Elskum þig, kæra mamma og tengdamamma.

Halla og Ingiberg,
Páll Axel og Margrét Birna,
Ármann Örn og Árný Björk.

Elsku amma Magga.
Við elskum þig svo heitt, það er svo skrítið að þú sért ekki enn hjá okkur.
Minningarnar í garðinum heima hjá þér í garðvinnu þar sem við fengum að fræðast um blómin og gróðurinn hvaða blóm væru fjölær og hver ekki. Svo settum við alltaf niður nokkrar stjúpur í öllum litum.
Spilastundirnar voru ófáar og þú varst alltaf til í spil þegar vinir okkar voru ekki heima eða á meðan við biðum á milli æfinga.
Það var líka alltaf hægt að hringja í ömmu þegar mann vantaði far eða nennti ekki að labba heim, þá var líka í boði að stoppa í bakaríinu og fá kleinupoka eða súkkulaðiköku. Hjá ömmu þurfti heldur ekki að borða hollt áður.
Sunnudagarnir voru líka okkar stundir eftir sunnudagaskólann. Því þá var farið til ömmu í makkarónugraut og klárað að lita myndina sem við fengum í kirkjunni og amma geymdi þær síðan allar í skúffunni inni í stofu.
Eurovisionkvöldin voru okkar stærstu kósíkvöld. Þá gáfum við stjörnur með stjörnusnakki og borðuðum síðan stjörnurnar.
Kvöldverðarstundirnar þegar þú komst heim, borðaðir með okkur kvöldmat og hlustaðir á okkur lesa. Ég man hvað þér þótti það gaman að hlusta á okkur og kvitta fyrir.
Takk fyrir allt og allar góðu stundirnar.
Elsku amma þú verður alltaf hjá okkur í hjartanu.

Gísli Matthías, Ásdís Vala, Páll Valdimar og Valur Ingi.

Magga systir lést einungis fjórum dögum eftir að Lilja systir féll frá eftir erfið veikindi. Við áttum góða stund á miðvikudeginum, þó tilefnið væri þungbært, og ræddum ýmislegt. Við ákváðum að ég myndi skrifa nokkur minningarorð og hún myndi aðstoða mig við það, en af því varð svo ekki og þetta varð okkar síðasti fundur.
Margrét var elst í systkinahópnum. Hún fæddist á Skúfslæk í Villingaholtshreppi, og fæddist Lilja um haustið árið eftir. Mamma bjó þar fyrstu árin með börnin, hjá afa og ömmu, en pabbi var í vinnu sem ýtumaður hjá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða. Þegar stelpurnar voru um tveggja og þriggja ára fluttist fjölskyldan á Selfoss og bjó þar í um það bil tvö ár. Þar fæddist Bjarni bróðir og var Möggu ennþá minnisstætt þegar það gerðist, því þegar hún varð vör við að eitthvað væri í gangi settist hún upp og var sagt strax að leggjast niður aftur og hafa sig hæga.
Foreldrar okkar tóku sig síðan upp og fengu á leigu jörðina á Loftsstöðum, eitt af gömlum höfuðbýlum í Gaulverjabæjarhreppi. Jörðin fékkst ekki seld úr ættinni svo úr varð að þau festu kaup á Syðri-Gróf í Villingaholtshreppi og fluttust þangað tveimur árum síðar. Ingibjörg systir okkar var þá um árs gömul, en ég sjálfur rak lestina tæpum tveimur áratugum síðar.
Magga og Lilja fylgdust að og gerðu alla hluti saman, hvort sem það var að fara á böll eða sitja og dytta að einhverju handverki og spjalla. Ekki voru þær fyrir neitt útisport, eins og til dæmis Inga systir okkar sem var virk í íþróttum. Eitt af störfunum þeirra var að mjólka kýrnar og fór Lilja tímanlega til verka, en það gat komið fyrir að hún væri að mjólka síðustu kúna sín megin þegar Magga kom í fjósið. Hún mun hafa fengið að klára sinn part ein, því Lilja fór þegar hún hafði lokið sínu starfi.
Magga fór ekki í húsmæðraskóla eins og hinar tvær systur okkar, en mamma sagði stolt frá því að hún hefði sjálf menntað frumburðinn í húsmæðrafræðum. Það var heldur ekki að finna að neitt vantaði upp á kunnáttu hennar. Hún eldaði oft mat þegar hún kom í Syðri-Gróf og mamma var ef til vill í fjósaverkum. Í veislum og boðum reiddi hún fram dýrindis hnallþórur. Allt handverk og skreytingar lék í höndunum á henni og pakkar og kort frá henni voru snyrtilega skrifuð með afar fallegri skrautskrift. Ég átti nokkrar VHS-spólur með efni sem hún hafði tekið upp fyrir mig, gjarnan skemmtiþættir og gamanmál sem ég gat horft á aftur og aftur.
Strax í æsku var hún nokkuð stríðin og gamansöm, sem hélt sér alla hennar tíð. En hún hafði mikið yndi af því að umgangast fólk og spjalla, segja sögur. Hún tók líka upp hanskann fyrir fólk sem minna mátti sín. Hún var ættfróð og gat rakið ættir hjá öllum svo mér var stundum um og ó, en þessar upplýsingar allar rúmuðust ekki alltaf í hausnum á mér.
Það er þungbært að þurfa nú að kveðja þriðju systur mína sem er fallin frá langt fyrir aldur fram. En ég get verið þakklátur fyrir fólkið þeirra og fjölskylduna okkar sem er alltaf að stækka og dafna.

Magnús Halldór Pálsson.