Ingibjörg Jónsdóttir fæddist á Siglufirði 25. apríl 1956, hún lést á taugalækningadeild Landspítalans 18. júní 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Soffía Jónsdóttir, f. 29. apríl 1916, frá Nýpukoti í Víðidal, d. 29. júlí 2004, og Jón G. Þórðarson, f. 10. desember 1910, á Siglunesi við Siglufjörð, d. 29. desember 1987. Systkini Ingibjargar eru: Þórður, f. 1942, Margrét, f. 1944, Björn Búi, f. 1947, Snorri, f. 1952, Ásmundur Jón, f. 1955, og Sigríður, f. 1962.

Ingibjörg giftist Þráni G. Gunnarssyni, f. 4. desember 1950, d. 28. september 2023, og bjuggu þau sér ánægjulegt heimili í Brúnagerði á Húsavík. Þau skildu eftir áratuga hjónaband. Börn þeirra eru: 1) Þorgerður Kristín, f. 24. júlí 1975, búsett í Garðabæ, var gift Ingvari Jóhanni Kristjánssyni. Börn þeirra eru: Þórey, f. 31. ágúst 2007, Kristján, f. 4. júlí 2009, og Vala, f. 4. júlí 2009. 2) Jón Skúli, f. 20. apríl 1982, búsettur í Finnlandi, kvæntur Milu Koponen. Börn þeirra eru: Elísabet Rose, f. 18. júní 2013, Ian Hrafn, f. 5. febrúar 2016, Móeiður Lily, f. 6. júlí 2018, Noel Örn, f. 11. desember 2020, og Antero Valur, f. 16. febrúar 2023. 3) Ásmundur Ýmir, f. 11. ágúst 1988, búsettur á Húsavík.

Fyrsta eina og hálfa árið ólst Ingibjörg upp í vitavarðarhúsinu við Siglunesvitann en fluttist með fjölskyldunni inn á Siglufjörð að Hvanneyrarbraut 3 haustið 1957. Hún gekk í Barna- og gagnfræðaskóla Siglufjarðar og veturinn 1972-73 í Vogaskóla í Reykjavík. Eftir að hún settist að á Húsavík vann hún við aðhlynningu og sem móttökuritari á sjúkrahúsinu og heilsugæslunni uns þau hjónin hófu verslunarrekstur á eigin vegum og ástunduðu um árabil. Ingibjörg bjó síðustu árin í Kópavogi og undi sér vel nærri barnabörnunum, sem voru hennar líf og yndi.

Ingibjörg verður jarðsungin frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 3. júlí 2024, klukkan 13.

Elsku amma.
Það er sárt, erfitt og ósanngjarnt að þurfa að kveðja þig svona fljótt. Við eigum fallegar og góðar minningar um þig sem við ætlum að passa að varðveita vel. Minningar úr skemmtilegum ferðalögum og ævintýrum en líka frá daglegum hlutum og stússi. Hjá þér var gott að vera og hjá þér fengum við að gera alls konar spennandi hluti sem við máttum jafnvel ekki gera heima hjá okkur.
Þú varst yndisleg amma, hlý og góð og vildir allt fyrir okkur gera og varst alltaf til staðar ef á þurfti að halda.
Takk amma fyrir allar góðu stundirnar. Þín verður sárt saknað en minning þín lifir í hjörtum okkar.

Þórey, Vala, Kristján, Elísabet, Ian, Móeiður, Noel og Antero.

Minningar okkar systkina eru allar ljúfar af Diddu systur. Hún var glaðvær, dugleg til starfs og náms. Þegar eldri bræðurnir, sem voru með ólæknandi áhuga á ljósmyndun, komu heim í litla húsið heima á Sigló í fríum var ekki alltaf létt fyrir þá að reyna að stilla yngstu systkinunum upp fyrir myndatökur. Það var ár á milli Diddu og Dengsa og þau voru stöðugt að kýta en það risti ekki djúpt. Það hafði stundum skondnar hliðar og eitt sinn þegar Didda var alveg búin að fá nóg þeytti hún hálffullu mjólkurglasi í höfuðið á Dengsa þannig að hann varð alhvítur í framan. Þegar rauðleitar rákir blönduðust saman við mjólkurfossinn sem rann niður andlitið á honum var Didda fljót til og hlúði að honum svo honum varð ekki meint af. Í uppvextinum á Sigló eignaðist hún góðar vinkonur, sá vinskapur var henni kær og efldist með árunum.
Eftir að Didda stofnaði heimili á Húsavík með Þrása sínum stóð það öllum opið. Þar eignuðust þau fjölskyldu og kæra vini og var mikill samgangur þeirra á milli. Hún var mikil húsmóðir og lék á als oddi við undirbúning veisluhalda og passaði alltaf upp á að allir væru með. Saumaskapur lék í höndunum á henni og saumaði hún margar dragtir og fatnað á fjölskylduna. „Könguló, könguló vísaðu mér á berjamó” var fastur liður á haustin, Didda bjó til bestu berjapæin og allskonar fínerí.
Alla tíð naut hún þess að halda sér til og vera fín til fara. Hún var fædd að vori til og hreifst af dökkbleikum litum. Oft bar afmæli hennar upp á sumardaginn fyrsta. Í skógrækt Siglfirðinga hanga vísur á grenitré eftir frumkvöðul í skógrækt, Jóhann Þorvaldsson, ein þeirra heitir Sumardagurinn fyrsti:

Gleðilegt sumar grannar og hinir,

gæfa og gleði fylgi á leið.

Velkomnir allir vorsins vinir

þó vegferðin sé yfir höfin breið.

Vegferð Diddu var ekki alltaf létt, ekki frekar en farfuglanna í vísunni. Til að mynda glímdi hún árum saman við krabbamein sem skaut upp kollinum hér og þar í líkamanum. Hún var þakklát fyrir stuðninginn og félagsskapinn sem hún fékk hjá Krabbameinsfélaginu og hjá starfsfólki og samferðafólki í Ljósinu. Síðustu misserin naut hún þess að vera laus við heimsóknir þessa vágests og vildi lítið tala um veikindin en því meira um börnin sín og barnabörnin sem voru hennar líf og yndi.
Snorri heimsótti Diddu 11. júní sl., hún hafði verið að passa Rocky hundinn hans og var svo hress og glöð. Hún var önnum kafin við að undirbúa heimsókn til fjölskyldu Nonna síns í Finnlandi þann 2. júlí og var að prjóna kjól sem hún ætlaði að færa Elísabet Rose í afmælisgjöf. Hún talaði um hvað hún hlakkaði mikið til að hitta barnabörnin og þau Milu og Nonna. Við alvarlega heilablæðingu hjá Diddu og fráfall hennar í kjölfarið vorum við minnt á að tíminn er afstæður og við ráðum ekki alltaf okkar næturstað. Í stað ferðarinnar til Finnlands var henni úthlutað annarri ferð þegar hún hélt til móts við ljósið þann 18. júní.
Um leið og við kveðjum kæra systur, vottum við og fjölskyldur okkar börnum hennar, tengdadóttur og barnabörnum okkar dýpstu samúð.

Sigríður, Ásmundur Jón, Snorri, Björn Búi og Þórður.

Það er erfitt að vera fjarri og geta ekki kvatt elsku Ingu frænku í jarðarförinni. Ekki óraði mig fyrir að þegar við Daniel komum í heimsókn á páskadag þá væri það síðasta skiptið sem við hittumst. Mikið var það indæl stund og það hlýjar mér um hjartaræturnar að mér gafst tækifæri til að kynna þig fyrir Daniel. Gaman var að hlusta á ykkur tala saman á íslensku og norsku. Eins og þér einni var lagið tókstu á móti okkur með þvílíku morgunkaffi með tilheyrandi kræsingum, kertum og skreyttu borði.

Þér fylgdi ávallt vandað handbragð og auga fyrir fegurð og smekklegheitum. Dæmi um það eru kærar minningar mínar af því að vera með þér í búðinni ykkar Þráins, Tákn, þegar ég var lítil. Ég fylgdist með þér full aðdáunar nostra við að pakka svo fallega inn gjöfum viðskiptavinanna. Þú sagðir mér líka frá því og sýndir mér hversu mikilvægt það væri að raða flott upp fötunum í rýminu, passa að herðatrén sneru rétt, ekkert væri á rúi og stúi, þetta skipti svo miklu máli þegar maður ræki verslun. Það var svo gaman að vera í Tákn með þér og þú varst mér fyrirmynd. Það sem mér fannst kúl að frænka mín ræki íþróttafataverslun bæjarins. Þú fórst skemmtilega leið að því að láta mig vinna fyrir því sem mig langaði í. Þannig var að þegar ég var 12 ára þá kom svo flott vorsending frá Puma. Ekkert smá flottur hvítur stakkur sem mig langaði ekkert smá í. Á þeim tíma var Tákn á annarri hæð kaupfélagshússins. Þú samdir við mig að ef ég ryksugaði stigann á milli anddyrisins og upp í Tákn í hverri viku út vorið fengi ég stakkinn að launum. Þetta er svo skemmtileg minning því ég tók þetta verkefni svo alvarlega og fannst vera svo fullorðins að fá svona verkefni gegn svona flottu kaupi! Ekki hugsaði ég út í það þá að ekki þyrfti svo sem að ryksuga þennan stiga, enda fólk sem sinnti ræstingum í húsinu, heldur værir þú að kenna mér mikilvægi þess að vinna fyrir því sem maður vill áorka og ganga samviskusamlega til verka.
Mér fannst þú vera svo mikil gella. Ávallt svo vel til fara, með fallega hringa, góð í að mála þig, fín föt, flott um hárið, paraðir alltaf saman hálsmen (sem er núna aldeilis í tísku), pússaðar neglur. Það var viðeigandi að þú gafst mér mína fyrstu förðunarvöru á fermingardagsmorguninn minn. Þú varst mikil skvísa en líka hörð af þér. Ég dáist að þeim styrk sem þú sýndir gegnum þær áskoranir og baráttur sem fyrir þig voru settar.
Ég umvef mig minningum okkar góðu frænknastunda og verð með ykkur í anda á jarðarfarardaginn.
Ég votta frændsystkinum mínum þeim Dæju, Jóni Skúla og Ása og þeirra börnum mína dýpstu samúð.

Ásta Soffía Þorgeirsdóttir.