Kristín Ása Ragnarsdóttir fæddist í Neskaupstað 2. mars 1928. Hún lést á Sólteigi Hrafnistu, 14. Júní 2024.

Hún var dóttir Þorbjargar Jónsdóttur, f. 16. júlí 1899, d. 14. janúar 1985 og Ragnars Kristjánssonar, f. 14. september 1907, d. 15. mars 1975.

Kristín Ása Ragnarsdóttir fæddist í Neskaupstað 2. mars 1928, dóttir Þorbjargar Jónsdóttur, f. 16. júlí 1899, d. 14. janúar 1985 og Ragnars Kristjánssonar, f. 14. september 1907, d. 15. mars 1975.

Systkini samfeðra: Kristján Eggert, f. 1. nóvember 1929, d. 16. febrúar 2009, Karl, f. 12. nóvember 1930, d. 9. nóvember 2007, Elín, f. 17. nóvember 1931, d. 7. október 2014.

Kristín Ása giftist 29. nóvember 1952 Guðfinni H. Péturssyni, f. 16. apríl 1929, d. 9. desember 2022 og eignuðust þau þrjú börn. Þau eru: 1) Ragnheiður, f. 17. desember 1955, sambýlismaður hennar er Sighvatur Kjartansson, f. 23. júní 1960. Synir Ragnheiðar eru: a) Guðfinnur Heiðar Hilmarsson, f. 10. febrúar 1976, maki Guðrún Ósk Þrastardóttir, f. 20. janúar 1981 og eiga þau Elínheiði og Andra. b) Gunnar Jónsson, f. 15. september 1992. 2) Kristján, f. 13. nóvember 1961. 3) Guðbjörg, f. 13. nóvember 1961, maki Þórlindur Hjörleifsson, f. 15. febrúar 1962. Börn þeirra: a) Egill, f. 23. september 1984, kvæntur Berglindi Sigurðardóttur, f. 12. janúar 1982, börn þeirra Kári og Hrafn en fyrir átti hann Ísold Orku og hún Emilíu Hlín Guðnadóttur. b) Hildur, f. 8. maí 1988, sambýlismaður Patrick Trahair, f. 12. júlí 1989. c) Guðlaug, f. 8. janúar 1991, maki Gunnar Hannesson, f. 16. ágúst 1982, synir þeirra Hákon Máni og Óliver Egill.

Kristín Ása ólst upp í Neskaupstað til 10 ára aldurs en fluttist þá til Reykjavíkur með móður sinni og ömmu. Hún gekk í Austurbæjarskóla og síðan í Ingimarsskóla og lauk þar gagnfræðaprófi. Fljótlega eftir skólagöngu hóf hún störf í Björnsbakaríi við Vallarstræti og vann þar í nokkur ár eða þar til hún stofnaði heimili með eiginmanni sínum og fór að sinna húsmóðurhlutverkinu. Síðar fór hún aftur út á vinnumarkaðinn, fyrst í versluninni Bílanaust og þar á eftir í nokkur ár í Breiðholtsskóla í athvarfi barna.

Kristín Ása var mjög félagslynd og var í kvenfélögunum Keðjunni og Kvenfélagi Breiðholts. Þá var hún sjálfboðaliði hjá í Rauða krossinum við vinnu og prjónaskap með öðrum konum. Þau hjónin voru vinmörg og sóttust eftir félagsskap með góðu fólki, meðal annars fastagestum í sundlaugum Reykjavíkur. Síðustu ár dvaldist hún í Sólteig í Hrafnistu við góða umönnun.

Útför Kristínar Ásu fer fram frá Áskirkju í dag, 3. júlí 2024, klukkan 13.

Amma var hæstmóðins kona fram til hinsta dags.

Það var þér alltaf mikilvægt að vera vel tilhöfð, hafðir mikinn áhuga á nýjustu tísku og hrósaðir yfirleitt öllum fyrir fallegar flíkur og lekkerheit.

Við systkinin eigum ótal góðar minningar um ykkur afa, úr Urðarbakkanum og seinna meir úr Sólheimum. Þið afi voruð miklir gestgjafar, höfðuð svo gaman af því að bjóða til veislu og hátíða.

Það var erfitt að sjá þig elsku amma á seinustu metrunum á þessari lífsleið en gott að vita að Gulli afi hafi komið og sótt þig á Gullfossi sjálfum og siglt með þig yfir móðuna miklu á meðan Sumarauki hljómaði í bakgrunni.

Söknuðurinn er mikill og erum svo þakklát fyrir þig elsku Ása amma. Við biðjum guð að geyma þig og varðveita.

Þín barnabörn,

Egill, Hildur og Guðlaug.