Þorsteinn Kristján Guðmundsson, Steini í Hlíð, fæddist 27. júlí 1931 á Merkurgötu 7 í Hafnarfirði. Hann lést á Hrafnistu Hraunvangi 22. júní 2024.

Foreldrar hans voru Þórunn Matthildur Þorsteinsdóttir frá Tungu í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi, f. 30. janúar 1896, lést 24. júní 1934, og Guðmundur Bergmann Guðmundsson eldsmiður, f. 8. febrúar 1897 á Setbergi við Hafnarfjörð, d. 16. desember 1977. Þau bjuggu í Hlíð í Hafnarfirði ásamt foreldrum Guðmundar Bergmanns, Guðmundi og Guðrúnu, sem ólu Þorstein upp eftir að móðir hans lést af barnsförum er hann var einungis þriggja ára.

Seinni kona Guðmundar Bergmanns var Sigurbjörg Vigdís Guðbrandsdóttir, f. 14. desember 1909, d. 21. júlí 1988.
Systkini Þorsteins eru Gunnar, f. 1925, sem lifir bróður sinn, Halldóra, f. 1927 en hún lést 2019. Uppeldisbróðir þeirra er Hjörtur, f. 1942.

Eiginkona Þorsteins er Anna María Paulsen fædd í Ahrensburg Þýskalandi 8. febrúar 1935. Foreldrar hennar voru Hertha og Otto Paulsen og systkini Uschi, Ulli og Rita sem öll eru látin.
Anna María kom til Íslands 1956 að vinna og kynntist Steina. Þau giftu sig 20. maí 1958 og eignuðust tvö börn. Börn þeirra eru: 1) Hertha Matthildur, f. 11. nóvember 1958, maki Kristín Davíðsdóttir. Dóttir þeirra Anna María Bjarnadóttir, f. 6. janúar 1990, eiginmaður hennar Martin Hermannsson, synir þeirra Manúel, f. 30. maí 2018, og Marinó, f. 12. mars 2024. 2) Guðmundur Ottó, f. 7. apríl 1966.

Þau hófu búskap á Vífilsgötunni, bjuggu svo í Mosfellsbæ í um 30 ár, Kópavogi frá 1997 þar til þau fluttu á Hrafnistu í Hafnarfirði í september á síðasta ári. Þar hafa þau notið sín með öllu því góða starfsfólki sem þar starfar.

Steini fór fyrst á sjó 15 ára gamall sem hjálparkokkur á Júpíter, einnig á Kötlu og Öskju og fleiri skipum. Fór í jómfrúarferð Surprise frá Hafnarfirði strax eftir stríð til Hamborgar. Tók námskeið fyrir matsveina á fiskiskipum 1951, þá tvítugur að aldri. Var á sjó í um 15 ár en hóf þá nám í Matsveina- og veitingaskólanum, tók sveinspróf 1962, fékk meistararéttindi 1966.
Vann með námi á Hótel Borg, Hótel Valhöll, Matstofu Austurbæjar og sem matreiðslumeistari lengst af hjá Flugfélagi Íslands og í Straumsvík.
Steini og Anna María keyptu sér hús á Spáni 1993, Hlíðarbæ nefndu þau staðinn og bjuggu þar 6-8 mánuði ársins í um 20 ár.

Útför Þorsteins fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 3. júlí 2024, klukkan 13.

Við andlátsfregn þína,
allt stöðvast í tímans ranni.
Og sorgin mig grípur,
en segja ég vil með sanni,
að ósk mín um bata þinn,
tjáð var í bænunum mínum,

en Guð vildi fá þig,
og hafa með englunum sínum.

Við getum ei breytt því
sem frelsarinn hefur að segja.

Um hver fær að lifa,
og hver á svo næstur að deyja.

Þau örlög sem við höfum hlotið,

það verður að skilja.
Svo auðmjúk og hljóð,

Þó sorgin sé sár,
og erfitt er við hana að una.

Við verðum að skilja,
og alltaf við verðum að muna,

að Guð hann er góður,
og veit hvað er best fyrir sína.

Því treysti ég nú,
að hann geymi vel sálina þína.

Þótt farin þú sért,
og horfin ert burt þessum heimi.

Ég minningu þína,
þá ávallt í hjarta mér geymi.
Ástvini þína, ég bið síðan

Guð minn að styðja,
og þerra burt tárin,
ég ætíð skal fyrir þeim biðja.

(Bryndís Halldóra Jónsdóttir)

Takk fyrir allt. Minning elsku besta pabba lifir í hjörtum okkar.

Guðmundur Ottó og Hertha Matthildur.

Þorsteinn Kr. Guðmundsson matreiðslumeistari hefur kvatt þessa jarðvist

92 ara að aldri. Steini kokkur, eins og hann var ávallt kallaður á milli okkar matreiðslumanna, lærði meðal annars á Matstofu Austurbæjar og lauk sveinsprófi 1962 og fékk meistararéttindi þremur árum síðar. Steini kom víða við á matreiðsluferli sínum, meðal annars hjá Flugfélagi Íslands, Klúbbnum við Borgartún, Glaumbæ og Múlakaffi en lengst vann hann í mötuneyti Straumsvíkur, í tæp þrjátíu ár.

Steini var einstaklega ljúfur maður, duglegur til vinnu og hafði gott skopskyn. Eftir að Steini hætti að vinna dvaldi hann stóran hluta á ári hverju á Spáni ásamt konu sinni og atti þar góðar stundir sem hann talaði oft um. Eftir að hann hætti að dvelja á Spáni hafði hann samband við okkur eldri

matreiðslumeistara sem höfðum þá stofnað lávarðadeild innan Klúbbs matreiðslumeistara. Steini var boðinn velkominn í félagsskapinn og smellpassaði í hópinn, mætti á alla fundi, hafði sig kannski ekki mikið í frammi en hlustaði því betur og naut þess að vera í félagsskapnum.

Steini var ljúflingur fram í fingurgóma, góður vinur og félagi sem gott var að umgangast. Hann vildi fylgjast með öllum, einkum ef einhver veikindi herjuðu á félagsmenn, þá var hugur hans hjá þeim og vildi alltaf vita um stöðu þeirra.

Það var yndislegt að hafa Steina í þessum félagsskap okkar og munum við sakna hans á fundum en minningin um góðan og einlægan vin mun lifa með okkur.

Að lokum viljum við matreiðslumeistarar í lávarðadeild KM þakka Steina samfylgdina. Við vottum fjölskyldu hans samúð og biðjum góðan Guð að styrkja þau við fráfall hans.

Hvíl í friði kæri vinur.

Fyrir hönd lávarðadeildar KM,

Lárus Loftsson.