Ellý Katrín Guðmundsdóttir fæddist 15. september 1964. Hún lést 13. júní 2024.
Útför Ellýjar fór fram 25. júní 2024.

Ellý var ein yndislegasta manneskja sem ég hef kynnst og starfað með. Leiðir okkar lágu fyrst saman þegar hún kom til starfa hjá Reykjavíkurborg til að stýra umhverfis- og samgöngumálum en ég var á þeim tíma formaður umhverfis- og samgöngunefndar borgarinnar. Samstarf okkar var því afar náið á kjörtímabilinu 2002-2006. Milli okkar ríkti alltaf traust og með okkur tókst góð vinátta sem ekki rofnaði þótt ég hætti störfum á vettvangi borgarstjórnar. Ekki spillti fyrir að í gegnum Ellý kynntist ég fyrst Magnúsi Karli frænda mínum.

Ellý reyndist afbragðs stjórnandi, framsýn og ráðagóð, vinnusöm og vel liðin. Hún var fylgin sér, lét vel að starfa með kjörnum fulltrúum þvert á flokka, en fór aldrei leynt með skoðanir sínar og faglegt mat. Hún var hrein og bein í samskiptum og sanngjörn, glaðsinna og búin ríkri kímnigáfu og þannig ávann hún sér virðingu og traust samferðafólks. Henni lét líka vel að fræða og hún átti létt með að koma yfirburðaþekkingu sinni á umhverfismálum á framfæri. Skemmtilegur ferðafélagi var hún, en hafði þó orð á því sjálf að hún væri ekki sérlega ratvís á framandi slóðum. Umhverfismálin virtust vera henni í blóð borin, allt sem að þeim laut var henni eiginlegt og hún varð fyrirtaks forystukona og leiðtogi í þeim málum svo eftir var tekið. Þannig varð hún einnig fyrirmynd margra annarra á því sviði eins og hún átti reyndar eftir að verða víðar og síðar.

Það var mikið áfall fyrir alla sem til þekktu þegar hún greindist með alzheimer aðeins liðlega fimmtug að aldri, en í glímu sinni við þann óvægna og óboðna gest varð reisn hennar mest. Þau Magnús tókust í sameiningu á við þann vágest og veittu öðrum í svipuðum sporum ómældan innblástur með hugrekki sínu og einlægni og áttu drjúgan hlut í að opna umræðu í samfélaginu um heilabilun. Það er ekki hægt annað en að fyllast aðdáun yfir því æðruleysi sem einkennt hefur framgöngu þeirra hjóna á undanförnum árum í þeirri baráttu. Sjálfum fannst mér erfitt að sjá hvernig sjúkdómurinn lék þessa vel gerðu og kraftmiklu konu þegar ég heimsótti þau hjón fyrir nokkru en varla hægt að gera sér í hugarlund hversu þungbært það hefur verið fyrir Magnús og börnin þeirra tvö, Ingibjörgu og Guðmund. Þeim og öðrum ástvinum votta ég innilega samúð en veit að líf og starf Ellýjar og allt það sem hún var og gleðin sem hún gaf er huggun í sorg og söknuði. Ég kveð Ellý Katrínu í virðingu og þökk.

Árni Þór Sigurðsson.

Ekkert í heimi ætti að vera auðveldara en að skrifa um Ellý – engum dylst hversu falleg hún var að innan sem utan. Engu að síður skortir mann orð en ótal minningar um lítil og stór augnablik fylla hugann – smitandi hláturinn sem við gleymum aldrei, bækurnar sem hún valdi af alúð fyrir hvert okkar, næmnin sem hún hafði fyrir fegurðinni í hversdeginum, væntumþykjan og stoltið sem hún bar til foreldra sinna og systkina.

Ein dásamleg minning um Ellý er sambandið sem hún átti við Matta. Þegar hann var tveggja til þriggja ára urðu hann og Ellý alveg einstakir vinir. Matti bað samfellt um að fá að heimsækja Ellý á Flókagötu og þar spjölluðu þau endalaust og hún las bók eftir bók fyrir hann. Á þessum tíma teiknaði hann allar fjölskyldumyndir þannig að við vorum sex – hann, við foreldrarnir og systur hans tvær – og svo Ellý. Þetta var svo sérstakt og krúttlegt, miðaldra konan og litli strákurinn sem náðu saman í heimspekilegum umræðum og bókaást. Ellý var engri lík.

Við minnumst Ellýjar samt örugglega eins og flest – fyrst og fremst fyrir ástina. Maggi og Ellý eiga einstaka ástarsögu, hvað þau voru hrifin hvort af öðru, náin og samstiga frá fyrsta degi til þess síðasta. Ellý var svo einlægt stolt af börnunum sínum – hvað Ingibjörg er hjartahlý og skörp og hvað Guðmundur er hæfileikaríkur og sannur sér. Það var hennar lífsins lukka að eiga þau og þeirra að eiga hana.

Síðasta minningin sem við eigum af Ellý er af litla nafna hennar, Almari Elí, í faðminum á ömmu sinni síðustu dagana. Það er ómetanlega dýrmætt að hún hafi fengið að hitta hann og vera svo umvafin öllu sínu fólki þegar hún kvaddi.

Elsku Maggi, Guðmundur, Ingibjörg, Bea, Almar Elí, Pétur, Gunna og fjölskyldur, hugurinn er samfellt hjá ykkur og hjörtu okkar slá með ykkar.

Við erum öll ríkari sem fengum að hafa Ellý í lífi okkar.

Steinunn Gestsdóttir og Atli F. Magnússon.