Lyf Berglind veltir upp hvort fjöldi 
apóteka bitni á vinnuumhverfinu.
Lyf Berglind veltir upp hvort fjöldi apóteka bitni á vinnuumhverfinu. — Morgunblaðið/Frikki
Elínborga Una Einarsdóttir elinborg@mbl.is Deildarforseti lyfjafræðideildar Háskóla Íslands, Berglind Eva Benediktsdóttir, tekur ekki undir áhyggjur Lyfjastofnunar af fækkun nemenda sem hefja grunnnám við deildina og veltir því upp hvort of mörg apótek á höfuðborgarsvæðinu bitni á vinnuumhverfi lyfjafræðinga.

Elínborga Una Einarsdóttir
elinborg@mbl.is

Deildarforseti lyfjafræðideildar Háskóla Íslands, Berglind Eva Benediktsdóttir, tekur ekki undir áhyggjur Lyfjastofnunar af fækkun nemenda sem hefja grunnnám við deildina og veltir því upp hvort of mörg apótek á höfuðborgarsvæðinu bitni á vinnuumhverfi lyfjafræðinga.

Í Morgunblaðinu sl. mánudag var greint frá áhyggjum Lyfjastofnunar af fækkun nemenda sem hefja grunnnám í lyfjafræði og lágu hlutfalli faglærðs starfsfólks í lyfjabúðum. Til að bregðast við stöðunni lagði stofnunin til að náminu yrði breytt þannig að nemendur fengju einhver starfsréttindi strax að loknu grunnnámi.

Berglind tekur ekki undir áhyggjur Lyfjastofnunar um nemendafjöldann og bendir á að talan milli ára sé mjög breytileg. Þá skipti ekki höfuðmáli hve margir nemendur hefja nám heldur hve margir haldi því áfram og útskrifist sem lyfjafræðingar.

Um er að ræða krefjandi nám og minnihluti þeirra sem skrá sig í það útskrifast á endanum með starfsréttindi. Ýmsir þættir hafa áhrif á brottfall úr náminu en Berglind nefnir m.a. að kennarar í HÍ hafi haft orð á því að nemendur mæti verr undirbúnir til háskólanáms eftir styttingu framhaldsskólanáms og fleiri falli nú á fyrsta ári.

Lyfjafræðingar leita á önnur mið

Varðandi tillögu um að breyta náminu þannig að einhver starfsréttindi fáist fyrr segist Berglind jákvæð gagnvart hugmyndinni og að málið sé í skoðun.

„Við getum þó engu lofað í þeim efnum því að við verðum að tryggja gæði námsins og öryggi sjúklinga,” segir Berglind og bætir við að breytingin muni einnig krefjast reglugerðarbreytingar.

Þá veltir hún upp hvort fleiri þættir en fyrirkomulag námsins valdi skorti á faglærðu starfsfólki í lyfjabúðum. Starfsvettvangur lyfjafræðinga liggi víðar en í apótekum og margir sækist frekar eftir vinnu til dæmis á spítölum og í lyfjafyrirtækjum.

„Það má spyrja sig hvers vegna lyfjafræðingar sem hefja störf í apótekum eftir útskrift kjósa í framhaldinu stundum annan starfsvettvang, hvort það geti að hluta til verið vegna starfsaðstæðna í apótekum. Í því samhengi mætti virkilega spyrja sig hvort það séu ekki of mörg apótek, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.”