Grafarvogur Hér má sjá hús við Hamravík en borgin hefur til skoðunar þéttingu á grasblettinum sem blasir við.
Grafarvogur Hér má sjá hús við Hamravík en borgin hefur til skoðunar þéttingu á grasblettinum sem blasir við. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valgerður Laufey Guðmundsdóttir vally@mbl.is „Fólk líkir þessari furðulegu kynningu borgarstjórans í fréttum við að korti af hverfinu hafi verið stillt upp, pílum kastað og svo tússað um þá staði sem pílurnar lentu á,” segir Árni Guðmundsson, varaformaður íbúasamtaka Grafarvogs og fulltrúi í íbúðaráði Grafarvogs, um þéttingu byggðar í Grafarvogi sem nýr borgarstjóri hefur boðað.

Valgerður Laufey Guðmundsdóttir
vally@mbl.is

„Fólk líkir þessari furðulegu kynningu borgarstjórans í fréttum við að korti af hverfinu hafi verið stillt upp, pílum kastað og svo tússað um þá staði sem pílurnar lentu á,” segir Árni Guðmundsson, varaformaður íbúasamtaka Grafarvogs og fulltrúi í íbúðaráði Grafarvogs, um þéttingu byggðar í Grafarvogi sem nýr borgarstjóri hefur boðað.

Allt að 500 íbúðir munu rísa í Grafarvogi á næstu árum með fyrirvara um íbúðasamráð og athugasemdir sem koma frá nærumhverfinu. Er þetta hluti af átaksverkefni sem var hrint úr vör þegar Einar Þorsteinsson borgarstjóri tók við embætti sínu.

Eru íbúar margir hverjir uggandi yfir áformunum. Telja þeir m.a. hættu á að borgin skerði aðgengi að útivistarsvæðum og byggðin þrengi enn frekar að leik- og grunnskólum í hverfinu.

„Ég veit að alls staðar sem maður fer og byggir, þá er alltaf átak og það er alltaf einhver sem er ekki ánægður og óttast að þetta hafi slæm áhrif á hans nærumhverfi. Þetta eru stundum erfiðar ákvarðanir sem þarf að taka en við vinnum með athugasemdir og reynum að gera þetta eins vel og hægt er og í sátt og samlyndi við íbúa,” segir Einar.

Árni segir að fólki í hverfinu hafi verið illa brugðið. „Þegar þetta var kynnt með mikilli flugeldasýningu í sjónvarpinu af hálfu borgarstjóra þá voru rúmar þrjár vikur frá síðasta fundi í íbúaráði og ekkert var kynnt um þetta þar, það kom mér svolítið á óvart,” segir Árni.

Árni segir marga á þeirri skoðun að þétting byggðar hafi gengið allt of langt í Reykjavík og fyrir þeim sé þetta neikvætt hugtak.

„Í grunninn er þetta eðlilegur vöxtur í borginni, þétting vísar til þess að við séum að fara byggja einhver háhýsi og litlar íbúðir, þessi neikvæði blær fylgir þessu orði hjá sumum. Við erum að fara að byggja meira af því sem er fyrir í Grafarvogi og þurfum að vanda vel til verka. Það dettur engum í hug að fara einhvern veginn að skerða lífsgæði fólks án þess að eiga við þau samtal,” segir Einar.

Fundur með íbúaráði eftir sumarfrí

Árni segir að honum hafi hvorki tekist að fá almennilega uppsett kort né kynningarhæfar upplýsingar um málið. „Miðað við þessi stóru orð sem þetta ágæta fólk hefur viðhaft um samráð og samvinnu við íbúa og íbúalýðræði, þá er þetta ekki rétta forgangsröðunin,” segir Árni og bætir við að það sé fyrst og fremst það sem fólki mislíkar.

Einar segir að eftir sumarfrí verði haldinn fundur með íbúaráði Grafarvogs þar sem áformin verða kynnt og að nálgast þurfi hverja athugasemd frá íbúum fyrir sig og sjá hvort málefnaleg rök séu að baki þeim.

„Ég hef bæði heyrt af áhyggjuröddum frá fólki sem býr nálægt reitum þar sem við sjáum fyrir okkur að hægt sé að byggja, að það sé verið að skerða þeirra lífsgæði, svo hef ég líka fengið skilaboð frá Grafarvogsbúum þar sem þeir fagna því að það eigi að fara styrkja Grafarvoginn,” segir Einar.

Árni kveðst hafa komið á tali við marga í hverfinu, heimsótt kaffistofur fyrirtækja, rætt við íbúa í búðum og tekið símtöl. Flestir séu á sama máli, fólk sé mjög ósátt.

Einar segir að það liggi fyrir að það sé pláss í grunnskólunum í Grafarvogi og vitað sé að styrkja þurfi leikskólamálin samhliða þessari uppbyggingu. Allt skipulagsferlið sé eftir og þá þurfi að taka tillit til sjónarmiða nærsamfélagsins.

„Hvað varðar grænu svæðin þá er mjög mikilvægt að hafa það í huga að mörg græn svæði nýtast kannski ekki neitt sérstaklega vel til útivistar nema það sé gerð einhvers konar aðstaða á þeim,” segir Einar og nefnir dæmi um bekki, leiktæki og göngustíga. „Það sem vakir fyrir okkur er að nýta lóðir í borgarlandinu þar sem hægt er að byggja en um leið að styrkja grænu svæðin í hverfinu,” bætir hann við

Ekki bara blokkaríbúðir

„Við þurfum að byggja upp úthverfin og ég er að gera nákvæmlega það sem ég sagðist vilja gera eftir kosningar og byggja fjölbreytt húsnæði, ekki bara blokkaríbúðir,” segir Einar.

Hann segir að efla þurfi húsnæðisuppbyggingu og það hafi áhrif á efnahagslegan stöðugleika, verðbólgu og hvort fólk sjái tækifæri í Reykjavík.

„Það er þjóðhagslega gríðarlega mikilvægt að við byggjum upp íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga,” segir Einar að lokum.