Torrevieja Íslenskir lífeyrisþegar hafa margir kosið að búa í sólarlöndum.
Torrevieja Íslenskir lífeyrisþegar hafa margir kosið að búa í sólarlöndum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný lagabreyting um persónuafslátt lífeyrisþega sem búa erlendis hefur valdið óvissu á meðal eldra fólks. Samkvæmt breytingunni átti að afnema persónuafslátt þessara lífeyrisþega um síðustu áramót.

Viktoría Benný B. Kjartansdóttir
viktoria@mbl.is

Ný lagabreyting um persónuafslátt lífeyrisþega sem búa erlendis hefur valdið óvissu á meðal eldra fólks. Samkvæmt breytingunni átti að afnema persónuafslátt þessara lífeyrisþega um síðustu áramót. Stjórnarandstaðan náði þó að fresta gildistöku laganna um eitt ár í þinglokasamningi um síðustu jól, þ.e. að lögin tækju ekki gildi fyrr en 1. janúar 2025.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, lagði fram frumvarp á þinginu núna í vor, um að fella breytinguna á brott, en fékk það ekki samþykkt. Inga gagnrýnir lagabreytinguna harðlega og efast jafnframt um að hún standist jafnræðisákvæði stjórnarskrár.

„Þetta lítur mjög illa út gagnvart þessum hópi fólks,” segir hún í samtali við Morgunblaðið.

Lagabreytingin er sú að ef fólk sem býr erlendis hefur 75% eða meiri tekjur að sækja til Íslands þá geti það fengið persónuafsláttinn ef það sækir um hann. En Inga telur að ef lagabreytingin fer í gegn ætti fólk með 75% tekjur á Íslandi að fá persónuafsláttinn sjálfkrafa, án þess að þurfa að sækja um hann. Hún segir breytinguna vera íþyngjandi þar sem margir úr þessum viðkvæma hópi hafi ekki góða tölvuþekkingu og oft engan til að hjálpa sér og þar með eigi löggjöfinni ekki að vera þannig háttað að fólk þurfi að sækja um persónuafsláttinn í gegnum netið.

Inga segir fjármálaráðherra hafa lofað að athuga hvaða raunverulegar afleiðingar þessi breyting hefði, og hvort þær yrðu jafn slæmar og hún hefði haldið fram.

Spurð hvort Flokkur fólksins muni halda áfram að berjast gegn breytingunni svaraði Inga því játandi.

„Já, við gerum það í haust. Ég á að vera komin með skýrslu 1. nóvember og fjármálaráðherra hét því að ef það væri rétt, að þessi löggjöf kæmi illa út fyrir fólkið, þá myndi það verða til þess að lögin tækju ekki gildi. Það var samkomulagið sem ég náði.”

Inga segir að breytingin muni hafa slæm áhrif. „Þetta er svakalega slæmt og fólk er kvíðið, margir sem ætluðu að flytja út eru hættir við það,” segir hún. Hún bætir við að stór hluti þessa hóps séu öryrkjar og eldra fólk sem geti ekki lifað í þeirri fátækt sem það býr við hér heima.