Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Nýr vindorkugarður sem fyrirhugað er að reisa í landi Sólheima í Dalabyggð mun skila um 209 MW af rafmagni með uppsetningu 29 vindmylla. Þetta kemur fram í umhverfismatsskýrslu sem Qair Iceland hefur lagt fram og er til kynningar í Skipulagsgátt. Öllum er frjálst að skila inn umsögn um framkvæmdina og umhverfismat hennar fram til 3. september næstkomandi.

Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is

Nýr vindorkugarður sem fyrirhugað er að reisa í landi Sólheima í Dalabyggð mun skila um 209 MW af rafmagni með uppsetningu 29 vindmylla. Þetta kemur fram í umhverfismatsskýrslu sem Qair Iceland hefur lagt fram og er til kynningar í Skipulagsgátt. Öllum er frjálst að skila inn umsögn um framkvæmdina og umhverfismat hennar fram til 3. september næstkomandi.

Í samantekt matsskýrslunnar kemur fram að framkvæmdasvæðið samanstandi af 3.208 hektara landi á eystri mörkum sveitarfélagsins Dalabyggðar. Búðardalur er um 23 kílómetra vestur af framkvæmdasvæðinu en Borðeyri er í um það bil 10 kílómetra fjarlægð í austur. Gert er ráð fyrir að vindmyllugarðurinn verði þróaður í tveimur áföngum, 21 vindmylla verði í þeim fyrri en átta bætast svo við í þeim síðari. Vindmyllurnar verða 200 metrar á hæð, hæð turns verður 119 metrar og lengd blaðs verður 81 metri. Búist er við að framkvæmdir við verkefnið muni vara í 32 mánuði í tveimur áföngum og reiknað er með að um 47 hektarar lands fari undir framkvæmdirnar. Um 16 kílómetrar af nýjum vegum verða lagðir og 3,5 kílómetrar af styrktum vegum. Raflagnir á framkvæmdasvæðinu verða lagðar neðanjarðar innan framkvæmdasvæðis tengivega þar sem því verður við komið. Þær tengja aflspenna vindmylla við stjórnbyggingu og safnstöð vindorkugarðsins. Aflspennar í safnstöðinni umbreyta svo rafspennunni áður en hún er flutt yfir í raforkunetið um háspennulínur, að því er segir í samantekt.

Ljóst er að framkvæmd sem þessi hefur áhrif á það svæði sem undir hana fer og jafnvel víðar. Þannig er þess getið í skýrslunni að öll undirbúningsvinna, vegagerð og jarðvinna geti valdið breytingum á flæði yfirborðsvatns á svæðinu. Hljóðmengun verður af vindmyllunum, bæði frá vélbúnaði þeirra og við hreyfingu spaðanna í gegnum loftið. Í skýrslunni segir að nútímavindmyllur séu þó hannaðar til að lágmarka hljóðvist. Hærri hljóðmörk en ella verða í gildi enda sé nálægasti viðtaki bújörðin Sólheimar og hafi ábúendur þar fjárhagslega hagsmuni af framkvæmdinni.

Forsvarsmenn Qair segja verkefnið hannað til að draga úr áhrifum á helstu fuglategundir. Þannig hafi til að mynda vindmyllur verið staðsettar fjarri stöðuvötnum og þekktum hreiðurssvæðum ránfugla. Þó má búast við nokkrum áhrifum á lóm og himbrima vegna rasks og tilfærslu í framkvæmdum. Tvö varpsvæði álfta gætu verið í hættu og því eru lagðar til frekari aðgerðir utan svæðisins til að búa til og endurheimta votlendi sem myndi skapa viðeigandi varpsvæði fyrir álftir. Haförninn er talinn líklegastur allra fugla til að fljúga á spaða vindmyllanna. Spár gera ráð fyrir um 0,39 áflugum á ári.

Vindmyllurnar verða málaðar í gráhvítu en einn spaði á hverri vindmyllu verður málaður svartur til að draga úr áflogi fugla. Af sömu ástæðu verður neðri hluti turnsins málaður svartur upp í allt að 10 metra hæð. Fyrirkomulag lýsingar að næturlagi verður þannig að eitt ljós verður sett efst á hvern turn og munu þau loga hvít yfir daginn og rauð á nóttunni.