Landsmót Oliver er duglegur að þjálfa 
Glæsi og taka hann á námskeið.
Landsmót Oliver er duglegur að þjálfa Glæsi og taka hann á námskeið. — Ljósmynd/LinaImages/Carolin Giese
Oliver Sirén Matthíasson var yngsti knapinn inn á landsmót í ár en hann verður tíu ára 30. desember svo litlu mátti muna að hann mætti ekki keppa.

Oliver Sirén Matthíasson var yngsti knapinn inn á landsmót í ár en hann verður tíu ára 30. desember svo litlu mátti muna að hann mætti ekki keppa. Hann keppti á hestinum sínum Glæsi frá Traðarholti í barnaflokki á mánudag og uppskáru þeir glæsieinkunnina 8,31.

Foreldrar Olivers hafa lagt mikið upp úr því að skemmtanagildið sé í fyrirrúmi og hafa þau reynt að stilla væntingum hans í hóf. Oliver, sem er mjög tölumiðaður, náði þó sínu markmiði sem var að fá einkunn yfir 8,30.

Oliver hefur fylgt foreldrum sínum í hestum allt sitt líf en móðir hans, Henna Sirén, er tamningakona og reiðkennari í Fáki. Áhuginn á hestamennsku kviknaði í alvöru í fyrra þegar Oliver eignaðist öðlinginn Glæsi.

„Glæsir er mjög mikill karakter. Hann er mjög ánægður með sig og ef einhver hlutur kemur nálægt honum fer hann strax að fikta í því,” segir Oliver.

Þegar ekki eru fótbolta- eða taekwondo-æfingar eftir skóla tekur Oliver strætó frá Hörðuvallaskóla upp í Fák og ríður út með mömmu sinni. Hann er mjög duglegur að þjálfa Glæsi og taka hann á námskeið en passar að gefa honum hvíld inn á milli til að halda honum kátum.

Hvað finnst þér skemmtilegast við Glæsi?

„Mér finnst rosa skemmtilegt hvað hann kemst hratt. En svo er hann bara æðislegur reiðhestur og alltaf traustur.” herdis@mbl.is