Selfoss Á undanförnum tíu árum hafa risið hátt í 2. 000 íbúðir í sveitarfélaginu Árborg.
Selfoss Á undanförnum tíu árum hafa risið hátt í 2. 000 íbúðir í sveitarfélaginu Árborg. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óskar Bergsson oskar@mbl.is Mikil uppbygging hefur verið í sveitarfélögunum fyrir austan fjall síðastliðin tíu ár, þ.e. í Árborg, Hveragerði og Ölfusi. Alls hafa verið reistar hátt í 2.700 íbúðir á þessum tíma og íbúum hefur fjölgað um 6.300 manns.

Óskar Bergsson
oskar@mbl.is

Mikil uppbygging hefur verið í sveitarfélögunum fyrir austan fjall síðastliðin tíu ár, þ.e. í Árborg, Hveragerði og Ölfusi. Alls hafa verið reistar hátt í 2.700 íbúðir á þessum tíma og íbúum hefur fjölgað um 6.300 manns.

Mest hefur verið byggt af einbýlishúsum, par- og raðhúsum. Bygging íbúða í fjölbýlishúsum hefur svo aukist á undanförnum árum. Í Árborg er búið að byggja 1.500 - 2.000 íbúðir og íbúum hefur fjölgað um 4.300, eða 35%. Í Hveragerði er búið að byggja 376 íbúðir og íbúum hefur fjölgað um 1.000 eða um 42%. Í Þorlákshöfn er búið að byggja 348 íbúðir og íbúum hefur fjölgað um 1.000 eða um 30% frá 2019.

Reynt hefur á Árborg

Í Árborg hefur mest verið byggt af einbýlis-, par- og raðhúsum en á síðustu árum hefur eftirspurn eftir íbúðum í fjölbýli aukist.

Bragi Bjarnason, bæjarstjóri í Árborg, segir skýringuna á þessari miklu fjölgun vera hagstætt íbúðaverð miðað við höfuðborgarsvæðið. Sveitarfélagið hafi þurft að fara í mikla innviðauppbyggingu sem reynt hafi verulega á fjárhagsstöðuna.

„Árborg byrjaði seint að innheimta svokölluð byggingarréttargjöld sem eiga að koma á móti þeirri uppbyggingu og því voru tekin lán umfram getu á undanförnum árum.  Í raun stendur lóðasalan ekki undir innviðauppbyggingunni og sveitarfélagið þarf að taka lán til viðbótar við byggingarréttargjaldið. Útsvarstekjurnar sem koma síðar nýtast til að greiða af lánum og mikilvægt er að gera áætlanir til lengri tíma til að íbúafjölgun og fjárhagsstaða sveitarfélagsins gangi í takt svo hægt sé að veita þá þjónustu sem sveitarfélaginu ber að veita,” segir Bragi.

Jafnvægi í Hveragerði

Pétur G. Markan, bæjarstjóri í Hveragerði, segir sveitarfélagið vera með skýra sýn á hvernig umhverfið eigi að vera og byggðin sé látin taka mið af séreinkennum Hveragerðis.

„Hveragerði er lífsgæðarjóður og það eru mikil lífsgæði fólgin í því að gera sér hreiður hér. Sveitarfélagið er gróðursælt og byggir á einstökum náttúrulegum aðstæðum. Hér eru mildari atvinnuvegir sem ferðaþjónustan og menningin tengjast vel við og listamenn skjóta hér rótum. Hér er líka rík hefð fyrir heilsueflingu og ylrækt.”

Hann segir að uppbyggingin hafi tekið í fjárhaginn, en reksturinn hafi verið ábyrgur.

„Rekstur sveitarfélagsins er í jafnvægi þrátt fyrir þessa miklu stofnfjárfestingu sem er gríðarlega góð langtímafjárfesting. Við leggjum áherslu á velferð og að íbúarnir finni fyrir stuðningi og þjónustu. Það hefur verið mikil uppbygging á svæðinu og sameiginlegt markmið að öllum sveitarfélögunum hér gangi vel,” segir Pétur G. Markan.

Hagstætt húsnæði í Þorlákshöfn

Í Þorlákshöfn fór íbúafjölgunin seinna af stað en í nágrannasveitarfélögunum. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir að eftir 2018 hafi áhugi aukist og vaxið hratt síðan. Helmingurinn af íbúðunum sé einbýlishús og hinn helmingurinn sé raðhús, parhús og fjölbýlishús í nokkuð jöfnu hlutfalli. Nú búi tæplega 3.000 manns í bænum og á þessu ári sé búist við 120 til 160 íbúðum til viðbótar.

„Íbúaþróunin hefur haldist nokkuð í hendur við framboð húsnæðis. Í ársbyrjun 2014 voru íbúar 1.900 og fjölgaði aðeins um 100 til ársins 2018.  Ég á von á því að íbúafjöldinn verði 4.000-5.000 innan 10 ára. Við finnum að ungt fólk er að gefast upp á húsnæðismarkaðnum og umferðinni í Reykjavík, finnur sig ekki þar og vill burt. Þannig skapast þrýstingurinn þaðan," segir Elliði.

Hann segir að í Þorlákshöfn finni fólk hagstæðara húsnæði, nægt leikskólapláss, öfluga skóla, fjölbreytt íþróttalíf og fleira sem skapi aðdráttaraflið.

„Samhliða íbúaþróuninni hafa bæst við skapandi atvinnuverkefni með vaxandi höfn, stórum fiskeldisverkefnum, ræktun á smáþörungum til matvælaframleiðslu, nýjum ferðaþjónustuverkefnum, og mörgu fleira. Það er jú ætíð þannig að velferð verður ekki til nema á forsendum verðmætasköpunar.”

Velferð fylgir verðmætasköpun

Elliði segir verkefnið krefjandi þegar hratt sé farið.

„Við þurfum að hafa augun á tveimur boltum. Mikil orka fer í fræðslukerfið og félagsþjónustuna. Ef samfélagið missir boltann þar getur tekið tugi ára að vinna sig úr þeirri stöðu. Þetta hefur okkur tekist. Sóknin byggist á verðmætasköpun og henni fylgir velferð. Á þessum forsendum hefur hagur okkar vænkast. Samhliða því að greiða niður lán og framkvæma, þá hefur rekstrarafgangur aukist. Það má ekki gleyma því að nýjum íbúum fylgja nýjar tekjur og fyrir því finnum við svo sannarlega. Við skuldum lítið í dag og höfum verið að lækka álögur, svo sem fasteignaálagningu. Samhliða því höfum við aukið þjónustu og byggt upp innviði. Þetta getum við af því að fjárhagurinn er sterkur.”

Lóðir standi undir kostnaði við gatnagerð

Elliði segir að sú leið hafi verið valin að selja ekki lóðir heldur eingöngu láta þær standa undir kostnaði við gatnagerð. Það sé þeirra framlag við að stemma stigu við óhóflegum fasteignakostnaði á Íslandi.

„Það er alveg einnar messu virði að velta því fyrir sér hvort það sé eðlilegt að sveitarfélögin komist upp með að skapa nýjan tekjulið á forsendum þess að þau eru með einokunarstöðu þegar kemur að því að skipuleggja lóðir. Ef fólk kíkir út um gluggann hjá sér sjá allir að það þarf ekki að vera lóðaskortur á Íslandi og það þarf ekki að haga málum þannig að framboðið sé það lítið að verðið rjúki upp.”

Honum finnst langsótt að ætlast til þess að nýir íbúar sem flytja í nýtt húsnæði beri einhvern meintan innviðakostnað umfram aðra. Tekjumótel sveitarfélaga sé þannig uppbyggt að útsvar og fasteignaskattar ásamt framlögum úr jöfnunarsjóði eigi að standa undir rekstri og fjárfestingum. „Ég er búinn að vera bæjarstjóri í 18 ár og í sveitarstjórnarmálum á þriðja áratug. Ég minnist þess ekki að löggjafinn hafi heimilað þessa skattaleið fyrir sveitarfélög, heldur tóku þau þetta upp hjá sér með tilheyrandi þunga fyrir heimilin í landinu. Hér þykir mér löggjafinn bera ábyrgð. Ég get ekki annað en furðað mig á því hvernig ákveðin sveitarfélög hafa komist upp með að leggja þennan nýja skatt á, sem kallast ýmist lóðaverð eða innviðagjöld. Þetta kemur fyrst og fremst niður á ungu fólki. Þykir fólki í alvöru ekki næg byrði lögð á fólk sem er að koma sér upp húsnæði, er með ung börn og er í raun að ganga í gegnum þyngsta kafla lífsins? Er ekki munurinn á þeim sem eiga fasteignir og þeim sem vantar fasteignir nægur? Hér í Ölfusi ætlum við að minnsta kosti að reyna að komast hjá þessu," segir Elliði Vignisson.