Holskefla rússnesks áburðar, sem fæst fyrir lítið fé, ógnar nú fæðuöryggi í Evrópu eftir því sem Rússar ná fastara tangarhaldi á landbúnaðaruppskeru álfunnar.

Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is

Holskefla rússnesks áburðar, sem fæst fyrir lítið fé, ógnar nú fæðuöryggi í Evrópu eftir því sem Rússar ná fastara tangarhaldi á landbúnaðaruppskeru álfunnar.

Er nú svo komið að greina má aukningu í innflutningi sumra tegunda, svo sem nituráburðar, eftir að Rússar réðust inn í nágrannalandið Úkraínu í febrúar 2022. Hefur þetta mikla framboð áburðarins valdið evrópskum áburðarframleiðendum búsifjum, ýmist með því að koma rekstri þeirra á vonarvöl eða hrekja þá frá Evrópu með framleiðslu sína.

Vara talsmenn áburðariðnaðarins nú hástöfum við því sem þeir telja ískyggilega þróun á evrópskum áburðarmarkaði. Á meðan leið rússnesks gass inn á markaðssvæði Evrópusambandsins varð æ torfærari, eftir því sem á innrásarstríð Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta leið og Evrópubúar litu til annarra orkugjafa, brugðu Rússar á það ráð að nota eigið gas til framleiðslu ódýrs nituráburðar og flytja hann svo út til Evrópusambandsins.

Þannig hefur minnkandi gasnotkun álfunnar orðið tvíeggjað sverð með því mikla áburðarframboði sem herðir snöruna hratt og örugglega að hálsi framleiðenda í Evrópuríkjum á meðan það er evrópskum bændum lyftistöng í gjallanda háværra radda um að fæðuöryggi í álfunni sé tryggt þegar styrjöld geisar í þeirri matarkistu sem Úkraína hefur um aldir verið.

Smáaurar fyrir gas

„Við erum að drukkna í áburði frá Rússlandi sem er umtalsvert ódýrari en okkar eigin áburður, einfaldlega vegna þess að Rússar pyngja aðeins út með smáaura fyrir gas í samanburði við evrópska framleiðendur,” hefur breska dagblaðið Financial Times eftir Petr Cingr, stjórnarformanni Stickstoffwerke Piesteritz, stærsta ammóníaksframleiðanda Þýskalands, en ammóníak er lykilefni við framleiðslu landbúnaðaráburðar.

Varar Cingr við því, að bregðist stjórnmálamenn ekki við Rússaáburðinum muni evrópsk framleiðsla hverfa af sjónarsviðinu og í sama streng tekur Svein Tore Holsether, stjórnarformaður norska áburðarframleiðandans Yara International, fyrrverandi dótturfyrirtækis álframleiðandans Norsk Hydro og eins stærsta áburðarframleiðanda heims.

Lét Holsether þau orð falla í apríl að Evrópa flyti sofandi að feigðarósi ávanabindingar við áburðinn frá Rússlandi.

Áburðar- og matvælaútflutningur frá Rússlandi nýtur undanþágu frá viðskiptabanni landsins vegna ófriðarins í Úkraínu í ljósi fæðuskorts sem jafnan heyrist nefndur samhliða loftslagsöfgum, styrjöldum og náttúruhamförum þegar fjallað er um helstu ógnir mannkyns á öndverðri 21. öldinni.

Rökin vega þyngra

Þessa undanþágu telja þeir Cingr og Holsether að Moskuvaldið nýti sér til hins ýtrasta og undir það tekur Tim Benton, sérfræðingur í fæðuöryggi á vegum bresku hugveitunnar Chatham House – formlega The Royal Institute of International Affairs. Bendir Benton á að evrópskir áburðarframleiðendur hafi löngum kvartað yfir því samkeppnisforskoti sem gasið ódýra veiti Rússum.

Hefur pundið orðið æ þyngra í rökum þremenninganna í kjölfar árásar Rússa á Úkraínu. Heimurinn einkennist í æ ríkari mæli af samkeppni og átökum segir Benton. Tímabært sé að Evrópa leggi áherslu sína á aðfangaöryggi í stað farsældar á markaði.

„Hvaða ógn steðjar að fæðuöryggi okkar?” spyr sérfræðingurinn Benton og varpar því einnig fram hvort nú sé skynsamlegt að hvetja staðbundinn iðnað til dáða frekar en að krefjast þess að hann sé samkeppnishæfur á alþjóðavettvangi. Ekki sé út í hött að gera því skóna að breskur og evrópskur landbúnaður muni eiga í vök að verjast verði Evrópa háð innflutningi frá Rússum og öðrum „mögulegum óvinum”.