Guðrún Aspelund
Guðrún Aspelund
„Það sem við fylgjumst grannt með núna eru þessar öndunarfærasýkingar,” segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.

Sviðsljós
Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is

„Það sem við fylgjumst grannt með núna eru þessar öndunarfærasýkingar,” segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.

Ársskýrsla sóttvarna fyrir 2023, á vegum embættis landlæknis, var gefin út á dögunum. Þar kemur fram að skráð inflúensusmit árið 2023 voru 844, en árið 2022 greindust 1.164 einstaklingar.

Skýringin á fækkun á milli ára er talin liggja í því að flensufaraldur kom seint veturinn 2021-2022 og snemma veturinn 2022-22023, svo tveir flensutoppar féllu innan marka ársins 2022. Ef tekið er tillit til þess má segja að inflúensusmit séu svipuð á milli ára.

Álag á heilbrigðiskerfið

„Þessi vetur var samt að komast nær eðlilegu horfi frá því að Covid-19 var sem verst. En við sjáum hvernig Covid-19 hefur lagst ofan á hinar pestirnar, ofan á inflúensuna, RS-veirusýkingar og aðrar kvef- og öndunarfærasýkingar. Þetta skapar töluvert álag á heilbrigðisþjónustuna, bæði spítala og heilsugæslu.”

Í ársskýrslunni kemur fram að inflúensa og aðrir öndunarfærasjúkdómar fyrir utan Covid-19 voru á svipuðu róli og á árunum fyrir heimsfaraldurinn. Í fyrra greindust 2.500 einstaklingar með veiruna sem veldur Covid-19, sem eru talsvert færri greiningar en árin 2022 og 2021. Þess ber að geta að skimanir voru færri 2023 sem getur haft áhrif á niðurstöðurnar.

Í ársskýrslunni kemur fram að bólusetningar gegn öndunarfærasjúkdómum hafi frekar fækkað en hitt. „Við hefðum viljað sjá betri þátttöku í bólusetningum gegn inflúensu hjá eldra fólki, þeim sem eru 60 ára og eldri. Þátttakan hjá eldra fólki var ekki nógu góð í vetur, bæði í bólusetningum gegn inflúensu og Covid-19, og hefur verið að færast því sem hún var fyrir heimsfaraldurinn.”

Guðrún segir að í skýrslunni séu ekki upplýsingar um áhættuhópa og bólusetningar, en ljóst sé að þeir hópar þurfa að verja sig gegn sýkingum og bólusetningar séu auðveldasta leiðin til þess. „Við þurfum að gera betur í þessu og fá eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma til að verja sig með bólusetningum.”

Mikil fjölgun kynsjúkdóma

Klamydía hefur verið algengasti kynsjúkdómurinn á Íslandi eins og víða erlendis. Árið 2023 greindust 1.948 með sjúkdóminn sem er svipað og árið 2022. Var kynjahlutfall nokkuð jafnt, en örlítið fleiri konur greindust en karlar.

Greiningum á kynsjúkdómunum lekanda og sárasótt hefur fjölgað talsvert árið 2023 hérlendis, eins og víða erlendis. Í fyrra greindust 338 einstaklingar með lekanda, sem er mesti fjöldi sem hefur greinst með sjúkdóminn í 40 ár. Aukningin var bæði hjá konum og körlum, en þó eru 75% greindra karlar. Tilfellum lekanda hefur fjölgað jafnt og þétt frá aldamótum, en mikillar aukningar varð vart árin 2021 og 2022. Árið 2020 voru tilfellin rétt rúmlega 100 en kúrfan fór hratt upp og hefur fjöldinn þrefaldast á síðasta ári.

Aukning sem þarf að skoða vel

73 einstaklingar greindust með sárasótt í fyrra, þar af 84% karlmenn, og er það hæsta tala sem greinst hefur frá því á fimmta áratug síðustu aldar. Sjúkdómurinn hefur mest greinst hjá körlum sem hafa samræði við aðra karla.

„Þessi aukning á lekanda og sárasótt er eitthvað sem við þurfum að skoða vel,” segir Guðrún og bætir við að ein skýring geti verið að fólk sé með marga bólfélaga og stundi ekki öruggt kynlíf með því að nota smokka. „Það er mikilvægt að benda á að notkun smokka dregur gífurlega úr smithættu og dreifingu þessara sjúkdóma,” segir Guðrún og bætir við að líklega sé kominn tími á nýja smokkaherferð sem nái til yngri kynslóðanna.

Í fyrra greindust 44 einstaklingar með HIV-veiruna, 32 karlar og 12 konur. Rúmlega sextíu prósent þeirra voru með þekkt smit en nýgreining var hjá 17 einstaklingum. Þar af voru 23 karlar sem smituðust við kynmörk við aðra karla, en 16 sem smituðust við kynmörk við einstaklinga af ólíku kyni, en óljóst var með smitleið fimm einstaklinga. Tvennt greindist með alnæmi 2023, erlendur karlmaður og íslensk kona.

Nokkur aukning var í kampýlóbaktersýkingum á síðustu ári, en um 46% sýkinga voru af erlendum uppruna þegar miðað er við árin 2020-2021, sem rekja má til færri ferðalaga á Covid-19-tímabilinu. Þá var nokkur aukning í greiningu á lifrarbólgu B á síðasta ári, en enginn greindist þó með bráðalifrarbólgu. Flestar greiningar hérlendis fara fram við móttöku umsækjenda um dvalarleyfi og í skýrslunni segir að í flestum tilfellum hafi verið um langvinna og þekkta sýkingu að ræða.