Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Tímabært er að Kristján Lárus svariþví strax hvort hann hafi flutt þingsályktunartillögu sína of seint um að rjúfa einangrun Fjallabyggðar við byggðir Skagafjarðar.

Hættuástand vestan einbreiðu Strákaganganna vekur spurningar um, hvort endalok Siglufjarðarvegar sem liggur yfir þrjú stór berghlaup geti verið í sjónmáli. Engin spurning er hvort það gerist, aðeins hvenær. Margt hefur áður farið úrskeiðis hjá stuðningsmönnum Héðinsfjarðar- og Vaðlaheiðarganga, sem eiga mörgum spurningum ósvarað. Það gildir líka um fyrrverandi þingmenn Norðurlands eystra og vestra, sem þoldu það illa þegar Alþingi samþykkti í febrúar 1999 að næstu jarðgöng yrðu milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Þungaflutningarnir eiga ekkert erindi í gegnum íbúðabyggðina á Siglufirði og Ólafsfirði vegna slysahættunnar sem er alltof mikil.

Síðan Siglufjarðarvegur var lagður um Almenninga á árunum 1965-66 hefur hann þurft mikið viðhald vegna stöðugs landsigs sem er orðið óleysanlegt vandamál. Norðan Dalvíkur er ástandið engu betra. Þess verður ekki langt að bíða að þetta hættuástand taki alltof mörg mannslíf á núverandi vegi sunnan Múlaganganna sem sleppur aldrei við mikla snjódýpt, grjóthrun, miklar aurskriður og snjóflóð alla vetrarmánuðina. Heppilegra er að ný veggöng undir Siglufjarðarskarð fari fyrst inn á samgönguáætlun, áður en talað verður um tvíbreið göng 1-2 km norðan Dalvíkur, í stað Múlaganganna.

Ég spyr: Taka þingmenn Norðaustur- og Norðvesturkjördæmis því þegjandi, ef fréttin um einangrun Fjallabyggðar við alla landsbyggðina birtist á forsíðum dagblaðanna eftir nokkur ár? Önnur spurning: Vill fyrrverandi samgönguráðherra Kristján Lárus bregðast strax við þessu hættuástandi, og berjast fyrir því að íbúum Fjallabyggðar verði tryggðar öruggar flugsamgöngur við Akureyrarflugvöll og Reykjavíkursvæðið frá Siglufjarðarflugvelli, sem skiptir líka miklu máli fyrir sjúkraflugið? Of lengi hafa fyrrverandi og núverandi þingmenn Norðlendinga vikið sér undan í flæmingi, til að þurfa ekki að svara spurningum heimamanna í Fjallabyggð, sem hafa áhyggjur af slysahættunni vestan gömlu Strákaganganna og sunnan Múlaganganna. Undanþágur frá hertum öryggiskröfum fá þessar einbreiðu slysagildrur aldrei.

Engin svör fást þegar spurt er hvort framtíðarlausnin felist í því að dusta rykið af gömlum áformum um jarðgöng úr Hólsdal, sem stytta vegalengdina fyrir Siglfirðinga inn í Fljót og tryggja þeim öruggari vegasamgöngur við byggðir Skagafjarðar.

Þriðja spurning: Kemur þessi framtíðarlausn til álita í fyrsta lagi 40 árum seinna eftir að aurskriður sópa stórum hluta Siglufjarðarvegar af klöppinni niður í sjó, og eyðileggja vegtengingu Fjallabyggðar við Norðvesturkjördæmið, nema Siglfirðingar og Ólafsfirðingar vilji heldur fá nýjan veg um Lágheiði, og yfir í Fljót til að losna við að keyra um Öxnadal og innsveitir Skagafjarðar til Reykjavíkur? Enginn veit hver stefna þingmanna Norðausturkjördæmis er í þessu máli, þegar áhyggjufullir íbúar nýja sveitarfélagsins spyrja þessa landsbyggðarþingmenn, hvort þeir telji það allt í lagi að núverandi vegur sunnan einbreiðu Múlaganganna fari fljótlega sömu leið.

Alla vetrarmánuðina hafa nýju jarðgöngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar engu breytt fyrir byggðir Eyjafjarðar og Skagafjarðar þegar fréttir bárust af því að vegurinn á milli gangamunnanna í Héðinsfirði varð strax ófær á sama tíma og Öxnadalsheiði í fleiri daga vegna mikils blindbyls og snjódýptar. Þar hafa alltof margir flutningabílstjórar síðustu vikur og mánuði lent í sjálfheldu, þegar starfsmenn Vegagerðarinnar á Akureyri urðu hvað eftir annað að hætta snjómokstri vegna illviðris á heiðinni sem nær stundum 45 metrum á sekúndu. Betra hefði verið fyrir Steingrím J. að snúa sér frekar að þessu vandamáli og svara spurningunni um hvort einangrun Fjallabyggðar við landsbyggðina komist fljótlega í fréttirnar, í stað þess að blekkja Alþingi til að samþykkja misheppnaða fjármögnun Vaðlaheiðarganga með innheimtu vegtolla á hvern bíl.

Tímabært er að Kristján Lárus svari því strax hvort hann hafi flutt þingsályktunartillögu sína of seint um að rjúfa einangrun Fjallabyggðar við byggðir Skagafjarðar. Þá skal hann hafa frumkvæðið að því að slysagildrurnar sunnan Ólafsfjarðar og norðan Siglufjarðar fái fljótlega sitt fyrsta og síðasta dánarvottorð, sem yrði mikill léttir fyrir alla landsmenn.

Höfundur var farandverkamaður.

Höf.: Guðmundur Karl Jónsson