Bryndís Geirsdóttir
Bryndís Geirsdóttir
Gefðu börnunum rjómann og áfirnar. Leyfðu þeim að gera ost. Lofaðu þeim að njóta hreinna ávaxta og hugvits. Ertu of snauður til þess?

Gefðu þeim spriklandi feitan fisk og kenndu þeim allt um raunveruleg verðmæti og hagfræði lífsins. Fáðu þeim þorskhausinn til að horfast í augu við og sýndu þeim hvernig á að vera vel fremur en að vera ekki, eða illa.

Ætlarðu að segja mér að þú viljir selja þeim þunnildin fremur en hnakkann … og kalla þau „fiskfiðrildi” - því þú kannt svo vel orvelísku og hinar tungurnar sem mikilsvirtir alþjóðabisnessmenn vilja helst hafa í munninum auk þeirrar tungu sem þeir nota við útvalda? Kenndu þeim að rækta kartöflurnar og sjóða þær og sjáðu hvort þau fúlsa við þeim þá. Hvaða barn fúlsar við nýjum, fallegum kartöflum sem það sjálft hefur þurft vit, ráð og vinnu til að afla? Elska ekki allir að fá að njóta ávaxta erfiðis síns? Kenndu þeim líffræði og matreiðslu. Auktu við þau verðlaunin með feiti landsins og salti úr uppgufuðum hreinum sjó, - færðu þeim eðlis- og efnafræði. Sýndu þeim hvernig skal varast sólanínið og mundu hvernig farið var með frændur okkar Íra. Hvernig líf heillar þjóðar, söngvar og tunga var teygt úr þeim með skipulögðu átaki sjálftökulýðsins. Togað, þvælt og troðið í svaðið. Milljón manns dó úr matareitrun. Manstu?
Hugur þinn gæti þá hverfst að lífi þinnar eigin þjóðar og hvernig hún hafnaði möðkuðu mjöli, keypti sér þilskip og mótorbátinn Stanley og vann sér inn fullveldi. Matur er máttur. Manstu? Matur er menning. Segðu þeim söguna - syngdu þeim söngva. Menning er máttur. Manstu?

Fáðu þeim það besta sem Ísland getur af sér gefið - og sýndu þeim hvernig má best ala lífið og njóta lystisemda þess nærtækasta. Efldu með þeim skilninginn á forsendum heilbrigðs, innihaldsríks lífs. Notaðu tæknina og vísindin og sýndu þeim orkuna í fallvötnunum og jarðhitanum. Kenndu þeim verkfræði og vísindi.

Skrúður hófst upp úr steinskriðu í Dýrafirði á öndverðri 20. öld. Skóla- og hagleiksmenn þeirrar 19. ræktuðu með nemendum sínum grösugan lystigarð úr óblíðustu náttúru, - en með „mold sem er máttug og mild”. Hvað gerir þú með það, þú, sem átt að sjá fyrir börnum þeirrar 21.?

Kenndu þeim ræktun - gefðu þeim rými fyrir apríkósur og perur. Gefðu þeim rými til að rækta grænmeti og ávexti allan ársins hring!

Hvers virði er kynslóðin sem á að erfa landið og miðin? Á í alvöru að ala hana á soyjalesitíni, ólöglegri pálmaolíu, umbreyttri maíssterkju og erfðabreyttu hveitisulli úr korni sem um hásumarið þurfti að fella á akrinum með eitri úr hergagnaiðnaði? Er þetta hagfræðin sem þér þóknast?

Eða eiga þau kannski ekki að erfa landið og miðin - heldur vera auðsveipir þrælar aflóga útþenslustefnu stórkapítals sem byggir á flestu því ömurlegasta sem mannkynssagan felur í myrkustu afkimum hugarfylgsnisins? Söguna sem heiglarnir vilja eyða úr minninu en hugdjarfir og framsýnir horfast í augu við. Er þessi þjóð í þínum augum sami „skrælingjalýðurinn” og hægt var að herleiða að útnára þess byggilega, langt frá gósenlandinu í nýju álfunni sem brotin var undir nútímann?

Fólkið sem var rúið tungu sinni, þekkingu, minni, tækni og matarmenningu sem það hafði ræktað með kynslóðunum í samhengi við landið sitt. Fólkinu sem var fengið hvítt hveiti í staðinn svo það gæti soðið sér neyðarbrauð - alla daga, ef það var þá ekki þurrkað af jörðinni í endurteknum þjóðamorðum.

Gefðu þeim hægeldaðan bóg á rúgsúrsbrauði. Gefðu þeim söl og hreint vatn og krækiber. Gefðu þeim lifrarpylsu með kartöflustöppu og rófum sem þú kenndir þeim að rækta. Gefðu þeim rjómann og áfirnar. Leyfðu þeim að gera ost. Lofaðu þeim að njóta hreinna ávaxta og hugvits. Ertu of snauður til þess? Ertu snauðari en kynslóðirnar sem báru móðuharðindin í beinmergnum. Ertu menningarlega gjaldþrota?

Þau hafa velferð þína í sínum ungu höndum. Efldu þau til góðra verka og vertu þeim maður en ekki mús.

Höfundur er formaður Sjálfstæðisfélags Borgarfjarðarsýslu.

Höf.: Bryndís Geirsdóttir