Ámundi Loftsson
Ámundi Loftsson
Það er nóg komið af naumhyggju og hálfkáki í húsnæðismálum. Hér skortir myndugleika.

Húsnæðismál á Íslandi eru í ólestri. Fjöldi fólks er í húsnæðishraki og á sér enga von um að eignast nokkurn tíma þak yfir höfuðið.

Ef ekki verður hér afgerandi breyting á mun bilið milli framboðs og eftirspurnar á húsnæði halda áfram að breikka og neyðin að aukast. Það skortir framsýni og áræði í húsnæðismálum.
Stóru framfaraskrefin sem stigin hafa verið í húsnæðismálum á Íslandi voru bygging verkamannabústaða í Vesturbæ Reykjavíkur fyrir og um miðja síðustu öld. Þá var Breiðholtið skipulagt og byggt þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við stjórn borgarinnar og Geir Hallgrímsson var borgarstjóri og síðan var Grafarvogurinn skipulagður og byggður í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar. Allt eru þetta skýr dæmi um skilning á þörfum almennings, framsýni, áræði og framtakssemi.
Síðan þá hefur bygging íbúðarhúnæðis verið of hæg til að tryggja viðunandi framboð og ástand húsnæðismarkaðarins því stöðugt farið versnandi. Nýframkomnar áætlanir Reykjavíkurborgar munu þar engu breyta. Hér þarf meira til. Það er nóg komið af naumhyggju og hálfkáki í húsnæðismálum. Hér skortir myndugleika.
Í raun hefur lengi vantað pólitíska stefnu sem byggist á skilningi á því að húsnæði er helsta frumþörf okkar allra. Við verðum öll að eiga einhvers staðar heima. Áræði og framtakssemi fyrri tíma þarf því að komast í endurnýjun lífdaga.

Sýndarþing

Á síðari árum hafa verið haldnar furðulegar samkomur um húsnæðismál, svokölluð húsnæðisþing. Þar fá fundargestir ekkert að tjá sig, bera upp mál eða skiptast á skoðunum. Það er í hæsta máta skrítið að boða til fundar þar sem fundarmenn fá ekki að blanda sér í fundarefnið. Þá er vandséð hvaða árangri þessar skrautsýningar hafa skilað. Í það minnsta batnar ástandið ekki. Hér verður að verða breyting á. Vel undirbúin ráðstefna um húsnæðismál er alger nauðsyn.


Opin ráðstefna

Gervöll verkalýðshreyfingin, samtök atvinnulífs, sveitarfélögin, stjórnmálasamtök, samtök leigjenda, Hagsmunasamtök heimilanna og hugsanlega fleiri verða svo fljótt sem verða má að efna sameiginlega til ráðstefnu um húsnæðismál þar sem þau verða brotin til mergjar og mörkuð uppbyggingarstefna sem tafarlaust verður hrint í framkvæmd. Það er komið nóg af smáskammtalækningum. Þær duga ekki.

Þessi ráðstefna verður að fá þann tíma sem málefnið krefst. Það má ekki skammta henni tíma. Þarna eiga allir að vera velkomnir og að fá tækifæri til að tjá sig og bera upp spurningar og tillögur.

Það þarf að endurhugsa og ræða nær allar hliðar húsnæðismála, lóðamál, skipulagsmál, byggingarreglur, fasteignagjöld, lánamál og hvaðeina annað, allt sem nöfnum tjáir að nefna. Það er löngu tímabært að bæði þeir sem ráða og stjórna og almenningur hristi af sér drungann og taki húsnæðismálin sameiginlega föstum og ákveðnum tökum, marki stefnu og hrindi henni í framkvæmd. Allsherjarráðstefna er þar rökrétt og góð byrjun.
Vilji er allt sem þarf.

Höfundur er fv. sjómaður og bóndi.

Höf.: Ámundi Loftsson