Hjörleifur Hallgríms
Hjörleifur Hallgríms
Ekki má láta misviturt fólk verða til þess að þjóðarbúið tapi milljörðum króna ár eftir ár vegna stöðvunar hvalveiða og loðnubrests vegna þess.

Ég er víst ekki aldeilis einn um að blöskra hvernig haldið er á málum í sambandi við hvalveiðar, sem í áratugi hafa verið stundaðar hér við land með góðum árangri. Það er ömurlegt til þess að vita að tvær konur, ráðherrar úr Vinstri-grænum og meira að segja er sagt að önnur þeirra hafi brotið lög, sem ég hélt nú að væri ekki sæmandi ráðherra, séu látnar komast upp með að eyðileggja eða koma í veg fyrir að hægt sé að hefja hvalveiðar að einhverju marki tvö ár í röð.

Þetta hefur augljóslega leitt til þess að loðnuveiðar hafa að mestum hluta ekki verið leyfðar þar sem loðna hefur ekki fundist í leit skipa eftir henni og er talið að loðnan og t.d. makríll séu ein aðalfæða langreyða. Skemmst er að minnast skipstjórans, sem á skipi sínu ekki alls fyrir löngu var staddur út af Snæfellsnesi og sagðist hafa séð stóra hvalatorfu sem hafi talið u.þ.b. eitt hundrað dýr og hvert var tilefnið, jú, hvalurinn var að gæða sér á stórri loðnutorfu svo þetta er vart einsdæmi og þá ekki að furða að loðnan finnist ekki í veiðanlegu magni í leit eftir henni af skipum Hafrannsóknastofnunar. Þess má hér líka geta að við síðustu mælingar Hafró á magni langreyðar voru talin rúmlega fjörutíu þúsund dýr og er þá talið mjög eðlilegt að stofninn sé grisjaður um innan við 200 dýr, sem næðu þá ekki nema örfáum prósentum af stofninum.

Að missa heilu loðnuvertíðirnar vegna grunnhyggni tveggja ráðherra VG er ekki forsvaranlegt og jaðrar við landráðastarfsemi og hugsanlega lögbrot. Þá er ógetið hvað tapast fjölmargir milljarðar í krónum talið bæði vegna vinnutaps hundraða fólks sem hefur haft mikla og góða vinnu vegna hvalveiðanna og þjóðarbúsins í heild. Þessu má e.t.v. líkja við sláturtíð á haustin þegar grisjun á húsdýrum bænda fer fram og þykir aldeilis eðlilegt enda fæða afurðirnar þúsundir fólks.

Nú langar mig að taka annað dæmi af villtri dýrahjörð sem hér lifir austur á heiðum og fjöllum en það eru blessuð hreindýrin. Það þykir við hæfi og nauðsynlegt að grisja í þeim dýrastofni árlega og meira að segja seld veiðileyfi og allir góðir og án níðgreina í fjölmiðlum og mótmælaaðgerða án nokkurs rökstuðnings eins og vegna hvalveiðanna.

Ekki má heldur loka þessum pistli án þess að minnast framgöngu annarra ráðherra, þeirra Bjarna Ben. og Sigurðar Inga, sem eru auðvitað jafn sekir konunum í VG vegna tugmilljarða króna sem þjóðin tapar á missi loðnuvertíðanna. Þetta er lítilmannlegt verð ég að segja.

Ég vil að það komi mjög skýrt fram að ég er mikill dýravinur enda að hluta til alinn upp í sveit innan um blessuð húsdýrin og ég tek ekki órökstuddri og óheflaðri framkomu misviturra svokallaðra hvalavina án nokkurra skynsamlegra raka þar um.

Ég skora að lokum á Kristján Loftsson að hefja hvalveiðar svo fljótt sem auðið er og hann á að muna það sem eitt sinn sagði mætur maður: „Vilji er allt sem þarf.”

Höfundur er ellilífeyrisþegi og dýravinur.

Höf.: Hjörleifur Hallgríms