Í Vestmannaeyjum Garðar í göngu hjá Ferðafélagi Rangæinga, sumardaginn fyrsta 2023.
Í Vestmannaeyjum Garðar í göngu hjá Ferðafélagi Rangæinga, sumardaginn fyrsta 2023.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Garðar Þorfinnsson er fæddur 3. júlí 1974 á Spóastöðum í Biskupstungum og ólst þar upp.

Garðar Þorfinnsson er fæddur 3. júlí 1974 á Spóastöðum í Biskupstungum og ólst þar upp.

„Á hlaðinu á Spóastöðum á æskuárunum bjuggu einnig amma og afi og voru það mikil forréttindi. Í minningunni gat ég alltaf gengið að nýjum kleinum hjá ömmu og var það mikill kostur fyrir ungan dreng. Ég bý í dag á Hellu ásamt konu og tveimur börnum á fallegum stað við bakka Ytri-Rangár og er stutt fyrir börnin að fara í sveitina til ömmu og afa sem ég met mikils.

Ég vann öll hefðbundin sveitastörf á Spóastöðum öll unglingsárin, sem fólst m.a. í umhirðu við búpening, gróðursetningu á trjám í skógrækt foreldranna, vinna í gróðurhúsi og almenn vinna á dráttarvélum.”

Garðar gekk í grunnskóla í Reykholti í Biskupstungum, nú Bláskógabyggð. Hann var stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi 1994, búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri 1997 og búfræðikandidat frá sama skóla árið 2001.

Hann hóf störf hjá Landgræðslunni árið 1997 og hefur starfað þar síðan, fyrst samhliða námi og vinnur þar enn í dag. „Ég hef komið að mörgum verkefnum hjá stofnuninni, en síðastliðin áramót voru Landgræðslan og Skógræktin sameinuð í eina stofnun, Land og skóg. Ég hef átt þess kost að kynnast fullt af fólki í gegnum starfið og jafnframt komist á marga áhugaverða staði á landinu.”

Garðar var virkur í Flugbjörgunarsveitinni á Hellu í um 15 ár og þar af gjaldkeri í um 10 ár. „Þar sameinaðist áhugi minn á útivist og samskipti við fólk og starfa ég enn með sveitinni en þó minna en áður fyrr. Ég er einnig félagi í ferðafélagi Rangæinga og hef gaman af að sækja göngur í þeim félagsskap. Ég er einnig félagi í Landgræðslufélagi Biskupstungna og aðstoða þar við skipulagningu verkefna en þar samtvinnast áhugamál og vinnan. Að lokum er ég félagi í Skógræktarfélagi Rangæinga og hefur eitt af mínum hlutverkum þar verið að saga meðfram brautum til að bæta aðgengi um skóga sem eru í umsjón félagsins.”

Meðan á grunnskólagöngu stóð var Garðar mjög liðtækur í frjálsum íþróttum og körfubolta. „Sá áhugi hefur svo þróast yfir í áhuga á útivist og alls konar hreyfingu, hvort sem það eru gönguferðir, þvælast um á reiðhjóli eða spenna gönguskíði á lappirnar á veturna. Fjölskyldan hefur svo gaman af því að fara til fjalla á sumrin og skoða náttúru landsins. Uppáhaldsstaðirnir eru Þórsmörk, Fjallabak og hraunin austan við Bjólfell á Rangárvöllum. Fjölskyldunni finnst líka gaman að fara saman erlendis og svo hafa fótboltamót barnanna spilað stórt hlutverk í sumardagskránni undanfarin ár.”

Fjölskylda

Maki Garðars er Klara Viðarsdóttir frá Kaldbak á Rangárvöllum, f. 11.10. 1979, fjármálastjóri Rangárþings ytra. Þau eru búsett á Hellu í Rangárþingi ytra.

Foreldrar Klöru eru Viðar Hafsteinn Steinarsson, frá Árnagerði í Fljótshlíð, f. 11.2. 1957, og Sigríður Helga Heiðmundsdóttir, frá Kaldbak á Rangárvöllum, f. 2.3. 1961. Þau eru bændur á Kaldbak og búa við kindur, hesta, skógrækt og ferðaþjónustu.

Börn Garðars og Klöru eru Viðar Freyr Garðarsson, f. 11.12. 2011, og Helga Björk Garðarsdóttir, f. 12.6. 2014.

Bræður Garðars eru Ingvi Þorfinnsson, f. 10.10. 1971, bóndi á Spóastöðum í Biskupstungum, og Þórarinn Þorfinnsson, f. 2.9. 1969, bóndi á Spóastöðum.

Foreldrar Garðars eru Þorfinnur Þórarinsson, frá Spóastöðum í Biskupstungum, f. 17.3. 1943, og Áslaug Jóhannesdóttir, frá Reykjavík, f. 13.9. 1945. Þau eru bændur og hafa búið alla sína búskapartíð á Spóastöðum.