Gréta er Reykvíkingur og ólst upp í Laugardalnum og í Sviss 2000-2006, en foreldrar hennar voru í sérnámi í tannlækningum í Bern.

30 ára Gréta er Reykvíkingur og ólst upp í Laugardalnum og í Sviss 2000-2006, en foreldrar hennar voru í sérnámi í tannlækningum í Bern. „Það voru skemmtileg ár og gaman að prófa að upplifa það að búa erlendis og á ég enn góða vini þaðan.”

Gréta gekk í Laugalækjarskóla og síðan í Verzlunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 2014. „Það ríkti aðeins óvissa hvað skyldi gera í kjölfarið en ég ákvað að feta í spor foreldra minna og reyna við Tannlæknadeild Háskóla Íslands. Fór strax í númerus klásus haustið 2014 en komst ekki inn og vann þá sem aðstoðarmanneskja tannlæknis og fann hvað ég virkilega þráði að verða tannlæknir.” Svo kom taka tvö í númerus klásus og komst Gréta þá inn í tannlæknanámið jólin 2015. Hún útskrifaðist frá Tannlæknadeild HÍ vorið 2021 og hefur starfað sem tannlæknir á Tannlæknastofunni Valhöll síðan hún útskrifaðist.

Helstu áhugamál Grétu eru utanvegahlaup, vera í náttúrunni, fara á hestbak, vera með strákunum sínum og hafa gaman með vinum. „Ég dýrka að vera með strákunum mínum í sveitinni sem foreldrar mínir eiga en hún heitir Hjarðartún og er rétt við Hvolsvöll. Utanvegahlaupin eiga stórt pláss í mínu hjarta þar sem ég hef nokkrum sinnum hlaupið Laugaveginn og ýmis önnur skemmtileg utanvegahlaup.”

Fjölskylda Eiginmaður Grétu er Ragnar Bragi Sveinsson, f. 1994. „Við höfum verið saman í rúm 10 ár en við kynntumst í gegnum sameiginlega vini og hestamennsku. Saman eigum við þrjá stráka. Við eignuðumst fyrsta drenginn okkar andvana, hann Hinrik Leó Ragnarsson sem er fæddur 25. október 2018. Svo eigum við Viktor Árna Ragnarsson, f. 28. október 2020, og Rúrik Darra Ragnarsson. f. 13. maí 2022. Nú eigum við von á fjórða syni okkar í haust þannig að það verður mikið stuð.” Foreldrar Grétu eru hjónin Bjarni E. Pétursson, f. 1964, og Kristín Heimisdóttir, f. 1968.