Ingólfur Ómar skrifaði mér á mánudag: Nú stendur landsmót hestamanna yfir dagana 1.-7. júlí í Víðidal í Reykjavík og langar mig að senda þér tvær vísur

Ingólfur Ómar skrifaði mér á mánudag: Nú stendur landsmót hestamanna yfir dagana 1.-7. júlí í Víðidal í Reykjavík og langar mig að senda þér tvær vísur:

Hristir makkann hvessir brár
hálsinn frakkur reisir.
Hruflar bakkann, yfir ár
ólmur blakkur þeysir.

Og:

Spriklar létt og spænir mold
sprækur glettur vekur.
Hófum nettum flengir fold
fimur sprettinn tekur.

Margt hefur verið vel kveðið um hesta og nærtækast að fletta upp í Páli Ólafssyni:

Eg hef selt hann yngra Rauð,
er því sjaldan glaður.
Svona er að vanta veraldar-auð
og vera drykkju-maður.

Páll orti um hestinn Glófaxa eða Glóa, sem Guðmundur á Hoffelli hafði gefið honum:

Ó, hvað mín er lundin létt
að leika mér á Glóa,
þá hann tekur sprett á sprett
sporar grund og móa,
yfir nesin æðir slétt
ómæðnari en tóa,
stiklar yfir kelldu' og klett,
klungur jafnt og flóa.

Matthías Jochumsson fékk hestlán á Seyðisfirði árið 1902:

Það er á ábyrgð Íslendinga
að ala bæði skáld og prest;
en sálarháski Seyðfirðinga
að setja mig upp þá slíkan hest.

Kristján Fjallaskáld reið hesti er hét Stormur:

Háum byggðum hélt ég frá,
hló í brjósti von og fró;
fráum Stormi fluttur á
fló ég yfir hæð og mó.

Svo að farið sé í aðra sálma. Hér er limra eftir Kristján Karlsson:

„Já, andartak, ef ég hef tíma,“
sagði íslenskumaður í Lima.
Það falaði hann stúlka,
sem lá breidd uppá búlka
eða bekk, ef þú kannt ekki að ríma.

Etikettan eftir Hrólf Sveinsson:

Ung dama fannst drukknuð í víkinni
vel dúðuð í margri flíkinni.
Hallmundur þagði
en Hróbjartur sagði:
„Hún hefði' átt að vera í bikiní.”

Sigurður Breiðfjörð kvað:

Gefðu ekki um, þó ögnin smá
í auga tolli mínu;
ber þig heldur burt að ná
bjálkanum úr þínu.


Halldór Blöndal (halldorblondal@simnet.is)