Fiðlusnillingur Sergey Malov mun bæði leika á fiðlu og hið einstaka hljóðfæri violoncello da spalla á hátíðinni.
Fiðlusnillingur Sergey Malov mun bæði leika á fiðlu og hið einstaka hljóðfæri violoncello da spalla á hátíðinni. — Ljósmynd/Julia Wesely
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Persónulega finnst mér hápunkturinn vera koma Sergey Malov fiðlusnillings“

Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is

„Persónulega finnst mér hápunkturinn vera koma Sergey Malov fiðlusnillings því hann er í mjög miklum sérflokki í heiminum í dag, bæði sem fiðluleikari og leikari á þetta sérstaka hljóðfæri, spalla. Hann er búinn að hasla sér völl síðustu ár sem einn fremsti fiðluleikari í heimi þannig að það er mikil upplifun að fá hann til landsins,” segir Benedikt Kristjánsson, listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri Sumartónleika í Skálholti, inntur eftir því hvað beri hæst á hátíðinni í ár. Bætir hann því við að hljóðfærið violoncello da spalla sé eins konar lítið selló, þó stundum með fleiri strengjum, sem leikið sé á eins og fiðlu.

Þétt og vegleg dagskrá

Af öðrum viðburðum sumarsins nefnir Benedikt frumflutning á verkum Báru Gísladóttur sem að þessu sinni er staðartónskáld hátíðarinnar.

„Hún er að gera garðinn frægan um þessar mundir og er ein af okkar frábæru ungu tónskáldum. Hún er að semja verk fyrir Barokkbandið Brák en einnig er hún að frumflytja verk sem hún mun sjálf spila á kontrabassa með rafhljóðum ásamt því að flytja annað einleiksverk fyrir sembal. Þannig að þetta verða tónleikar einungis með hennar verkum,” segir hann og bætir því við að auk þess muni þau Arnheiður Eiríksdóttir messósópran, Oddur Jónsson barítón og Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir sellóleikari koma fram á hátíðinni sem og hann sjálfur.

„Fyrir utan frumflutning á verkum Báru munu tvö verk einnig hljóma í fyrsta sinn á Íslandi. Annars vegar „Messa Maríu Magdalenu” eftir Alonso Lobo, spænskt tónskáld frá 16. öld, og hins vegar „Dagbók hins horfna” sem er ljóðaflokkur eða míní-ópera eftir tékkneska tónskáldið Leos Janacek.”

Þá verða einnig fluttar tvær Kantötur eftir J.S. Bach í messu í Skálholtskirkju, þar sem bæði vígslubiskup, Kristján Björnsson, og sóknarprestur, Axel Njarðvík, þjóna fyrir altari.

Styður við íslensk nútímatónskáld

Sumartónleikar í Skálholti hafa verið starfandi frá árinu 1975 og staðið fyrir tónleikahaldi í Skálholtskirkju í 2-3 vikur á hverju sumri. Hátíðin er sú elsta og jafnframt stærsta sinnar tegundar á landinu og einn stærsti menningarviðburður sem fram fer á Suðurlandi yfir sumartímann. Á hverju sumri sækja á þriðja þúsund manns Sumartónleikana sem nú fara fram í 49. sinn. Aðspurður segist Benedikt þó ekki ganga út frá ákveðnu þema varðandi dagskrána heldur reyni hann að hafa upprunaleg gildi hátíðarinnar til hliðsjónar þegar hann setji hana saman.

„Ég hef ekki haft neina yfirskrift á hátíðinni heldur er ég að halda í þau gildi sem Helga Ingólfsdóttir setti þegar hún byrjaði með þessa hátíð, sem er elsta barokktónlistarhátíð í Skandinavíu. Ég reyni fyrst og fremst að búa til vettvang fyrir barokktónlist í hæsta gæðaflokki og einnig að styðja við íslensk nútímatónskáld,” segir hann.

„Það sem ég hef kannski bætt við í ár og í fyrra er að fulltrúar 20. aldar tónlistar eru líka með. Í ár verða til að mynda tónleikar með verkum Janaceks og í fyrra fluttum við messu eftir William Byrd, sem var einmitt 500 ára á síðasta ári. Ég hef einmitt mikinn áhuga á að það séu tónleikar á hátíðinni sem séu í anda mjög gamalla kaþólskra messa sem eru sungnar án undirleiks.” Nefnir Benedikt í kjölfarið að nánast enginn kannist til að mynda við tónskáldið Alonso Lobo og „Messu Maríu Magdalenu”. „Lobo er fæddur 1555 og þessi tónlist hefur nánast ekkert heyrst á Íslandi en hún hentar hljómburði kirkjunnar alveg ótrúlega vel. Svo fann ég einvala lið einsöngvara sem ég setti saman í svokallaðan kammerkór Sumartónleikanna en við munum flytja þetta verk fimmtudaginn 11. júlí.”

Börnin kynnast listinni

Að sögn Benedikts verður einnig lagt mikið upp úr því að bjóða börnunum að borðinu en á hátíðinni verður boðið upp á glæný og skemmtileg verkefni fyrir börn og fjölskyldur sem eiginkona Benedikts, Angela Árnadóttir, hefur umsjón með. „Það er bara ótrúlega mikilvægt að hafa eitthvað í boði fyrir börnin og kynna þeim listina. Svona tónlistarhátíð býður upp tækifæri til að búa til efnisskrá fyrir börn því við viljum ekki að þetta sé bara tónlistarhátíð fyrir 0,1% af samfélaginu sem hefur áhuga á klassískri tónlist. Við viljum að þetta sé hátíð þar sem öllum sé boðið en það er gjaldfrjálst á alla viðburði hennar. Angela er búin að setja saman gríðarlega metnaðarfulla barnadagskrá þar sem ný verkefni eru í smíðum, sérstaklega hugsuð til þess að búa til þessa sérstöku Skáholtsstemningu þar sem barnadagskráin inniheldur mikið af tónlist. Við erum til dæmis að búa til verkefni sem er eins konar leiksýning með strengjakvartett þar sem leikin verða lög úr Vísnabókinni ,” segir hann og bætir því við að hátíðin hafi fengið veglegan styrk frá Barnamenningarsjóði svo þetta verkefni gæti orðið að veruleika.

Einstök stemning

Þá segir Benedikt galdurinn við það að halda úti slíkri hátíð ár eftir ár einna helst liggja í því að bjóða upp á athyglisverða dagskrá og stórkostlega listamenn.

„Að ógleymdu mjög góðu samstarfi við fólkið á staðnum. Líkt og þau sem reka veitingastaðinn og hótelið en það hefur auðvitað margt breyst í starfsemi Skálholts síðustu ár. Svo er það líka það að búa til þessa stemningu, að maður sé ekki bara að koma til hlusta á tónleika í Skálholtskirkju heldur sé maður að koma inn á hátíð eins og Listahátíð. Maður finnur fyrir einhvers konar stemningu þegar maður kemur á staðinn sem mann langar til að vera partur af. Það verður eitthvað einstakt til sem þú tengir við og langar til að upplifa. Svo er Skálholt auðvitað töfrandi staður og kirkjan með besta hljómburðinn á landinu að mér finnst.”

Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má finna á heimasíðu hennar sumartonleikar.is.