Emma Hawkins skoraði þrennu fyrir Austfjarðaliðið FHL í gærkvöld þegar það vann stórsigur á Fram, 5:1, í 1. deild kvenna í fótbolta á Reyðarfirði.

Emma Hawkins skoraði þrennu fyrir Austfjarðaliðið FHL í gærkvöld þegar það vann stórsigur á Fram, 5:1, í 1. deild kvenna í fótbolta á Reyðarfirði. FHL er með 22 stig á toppi deildarinnar en Afturelding með 19 stig og HK með 14 eru næst á eftir. Samantha Smith gerði hin tvö mörk FHL en Alda Ólafsdóttir skoraði fyrir Fram sem er í sjöunda sæti með 11 stig.

Sjö leikmenn í Bestu deild karla í fótbolta voru í gær úrskurðaðir í eins leiks bann vegna gulra spjalda. Það eru Viktor Örn Margeirsson hjá Breiðabliki, Adam Örn Arnarson hjá Fram, Arnþór Ari Atlason hjá HK, Birgir Baldvinsson hjá KA, Kristinn Freyr Sigurðsson hjá Val, Elmar Atli Garðarsson hjá Vestra og Nikolaj Hansen hjá Víkingi.

Þá var Breukelen Woodard , leikmaður FH, úrskurðuð í eins leiks bann í Bestu deild kvenna fyrir að slá leikmann Tindastóls í andlitið í leik liðanna. Dómarar leiksins sáu ekki atvikið en myndskeið af því var lagt fyrir aga- og úrskurðarnefndina. Hún leikur ekki með FH gegn Þór/KA í kvöld.

Stúlknalandslið Íslands í körfubolta, U18 ára, tapaði fyrir Danmörku, 76:69, á Norðurlandamótinu í Svíþjóð í gær. Kolbrún María Ármannsdóttir var langstigahæst með 31 stig og Jóhanna Ýr Ágústsdóttir skoraði 12 stig. Piltalandsliðið, U18 ára, tapaði líka fyrir Dönum, 103:94. Viktor Jónas Lúðvíksson skoraði 21 stig og tók 14 fráköst og Ásmundur Múli Ármannsson skoraði 21 stig.

Hanna Guðrún Stefánsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í handknattleik og verður þar við hlið Patreks Jóhannessonar þjálfara. Hanna lék í 28 ár í meistaraflokki, lengst af með Stjörnunni.

Olgeir Sigurgeirsson hefur látið af störfum sem aðstoðarþjálfari karlaliðs Fylkis í fótbolta. Olgeir hefur starfað sem aðstoðarþjálfari Rúnars Páls Sigmundssonar síðan snemma árs 2022.

Albert Guðmundsson , landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Genoa á Ítalíu, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot. Albert var kærður fyrir kynferðisbrot gegn konu síðasta sumar en málið var fellt niður í fe­brú­ar. Sú ákvörðun var kærð til rík­is­sak­sókn­ara, sem felldi ákvörðun héraðssak­sókn­ara úr gildi.

Breki Baldursson , 17 ára knattspyrnumaður úr Fram, er til reynslu hjá danska B-deildarfélaginu Esbjerg. Breki á að baki 25 leiki með Fram í Bestu deildinni og 12 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Ísak Steinsson, markvörður U20 ára landsliðs Íslands í handknattleik, hefur samið til þriggja ára við norska úrvalsdeildarfélagið Drammen. Hann hefur leikið með ROS í norsku B-deildinni.

Körfuboltamaðurinn Jayson Tatum skrifaði í vikunni undir nýjan fimm ára samning við NBA-meistarana Boston Celtics. Samningurinn færir honum alls 44 milljarða íslenskra króna og þetta er stærsti einstaki samningur leikmanns í sögu deildarinnar.